Finnur Guðni fæddist á Flateyri 20. mars 1935. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ 24. nóvember 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Þorlákur Bernharðsson, bóndi og sjómaður, f. 2. júlí 1904, d. 27. janúar 1991 og Þóra Guðmundsdóttir ljósmóðir, f. 18. ágúst 1903, d. 6. júlí 1991. Systkini hans: Guðmundur Bernharð, Hulda Bernharð, Sigrún Bernharð, Ásdís Bernharð og Hildur Þorláksdóttir. Eftirlifandi systir hans er Sigrún.

Fósturforeldrar Finns voru Halldóra Guðmundsdóttir, f. 20. nóvember 1900, d. 18. mars 1991 og Jón Sveinn Jónsson, f. 8. september 1900, d. 29. júlí 1980.

Eiginkona Finns: Svandís Ingibjörg Jörgensen, f. 1940. Þau giftu sig 1958.

Börn þeirra eru: 1) Dagný, maki Kristinn Hannesson, d. 13. júní 2023. Börn Dagnýjar og Kristins eru Finnur Yngvi, kvæntur Sigríði Maríu Róbertsdóttur, börn þeirra eru Róbert Orri, Yngvi Steinn og Klara Dís.

Guðný, gift Örvari Andra Sævarssyni. Börn Guðnýjar frá fyrra hjónabandi: Kristinn Dagur og Svala Dís, d. 2016, dóttir Örvars og stjúpdóttir Guðnýjar Aníta Maren. 2) Jón Halldór, maki Asako Ichihashi. Börn þeirra eru Marína Herdís, sambýlismaður Guðmundur Kristján Guðnason, sonur þeirra Óliver Máni. Aron Daði Ichihashi.

Finnur ólst upp hjá foreldrum sínum í Hrauni á Ingjaldssandi, Önundarfirði. Sjö ára varð hann eftir hjá Halldóru móðursystur og Jóni á Sæbóli en var þó alltaf í miklu sambandi við foreldra sína og systkini. Finnur stefndi á að verða bóndi og átján ára vann hann sér inn fyrir Ferguson-dráttarvél.

Síðar kom kaupakonan Svandís í sveitina, felldu þau hugi saman og hófu búskap ásamt fósturforeldrum og bjuggu á Sæbóli í 13 ár. Það var samheldið samfélag á Ingjaldssandi á þessum tíma, bændur hjálpuðust að hvort sem var á sjó eða landi. Finnur var fljótur að tileinka sér viðgerðir á ýmsum vélum og sótti sér þekkingu í þeirri iðn. Hann fór til sjós og vann einnig hjá Vegagerðinni.

1970 hættu Finnur og Svandís búskap og komu sér fyrir í Mosfellsbæ með börn sín. Í fyrstu starfaði hann á vélaverkstæðinu Boga í Súðavogi, síðan hjá Vélum og þjónustu en yfir sumartímann sem verkstjóri hjá Vegagerðinni í Borgarnesi þar sem hann starfaði víða um Vestfirði. Eftir það starfaði hann sem lagerstjóri í rúm 24 ár á söludeild Reykjalundarplasts.

Þau hjónin höfðu ánægju af að ferðast um landið þar sem fjölskyldan slóst oft í för. Finnur var mikill söngmaður og var í nokkrum kórum, síðast í Starfsmannakór Reykjalundar.

Fyrir 11 árum fékk hann blóðtappa sem skerti getu hans verulega en hélt hann þó ávallt gleði og húmor.

Jarðarför hefur farið fram í kyrrþey.

Minning um pabba.

Elsku pabbi minn, með þakklæti og hlýhug minnist ég þín.

Hugur minn leitar í sveitina, fallega dalinn Ingjaldssand við Önundarfjörð með há fjöll á þrjá vegu og opinn fyrir úthafi, sólarlagið var einstakt. Það var gott að alast þarna upp, geta fylgst með og tekið þátt í störfum með fullorðna fólkinu, oft var líf og fjör og einhverjir krakkar hjá ykkur á sumrin. Þrátt fyrir annríki hafðir þú alltaf tíma fyrir okkur systkinin. Við gátum verið í kringum þig við bústörfin. Þú varst ávallt tilbúinn að segja manni frá og fræða hvort sem var um féð, sjómennskuna eða vélarnar sem þú varst að gera við.

Þegar verið var að smala þurfti oft að sækja kindur í þverhníptum klettum. Veturnir gátu verið harðir og oft ófært yfir heiði, en þá var farið sjóleiðina eða gengnar fjörur til að komast til Flateyrar. Þetta breyttist síðustu árin í búskap ykkar þegar vélsleði kom á einn bæinn. Á vorin var sérstakur tími, kúnum sleppt út og sauðburður í blóma. Þegar við fluttum suður tók mikil vinna við og allt aðrar aðstæður. Bæði fóruð þið að vinna úti og byggðuð heimili ykkar í Mosfellsbænum.

Nú stikla ég á stóru og hverf að tímanum þegar ég er farin að búa og við Kiddi ákváðum að byggja okkur heimili. Þú lést þitt ekki eftir liggja og í fáum orðum má segja að þið Kiddi hafið átt saman hvern einasta nagla í húsinu. Við fjölskyldan komum oft til ykkar í Stórateig og voru börnin okkar oft hjá ykkur mömmu. Þú varst sérlega barngóður, hafðir yndi af að fá þau í heimsókn, söngst oft fyrir þau og sagðir sögur, þeim fannst gott að vera með afa. Við fórum í ófáar tjaldútilegur með ykkur mömmu þar sem æðislegar minningar sköpuðust.

Pabbi minn, það væri hægt að skrifa svo mikið meira. Þú varst alltaf glaður að fá okkur í heimsókn, jafnvel þó að heilsunni hafi hrakað var alltaf gott að vera með þér. Þú hafðir einstaka nærveru, varst alltaf tilbúinn í spjall og að slá á létta strengi.

Þú nýtur nú eflaust kærkominnar hvíldar eftir viðburðaríkt og fallegt líf. Ég trúi því að þú sért nú í sumarlandinu innan um þá sem þér eru kærir.

Pabbi minn, þú verður alltaf í hjarta mínu.

Þín dóttir,

Dagný Sæbjörg Finnsdóttir.

Faðir minn var mér ætíð kær og traustur faðir og mun ég seint gleyma þeim góðu stundum hvort sem við vorum að vinna saman, tala um bíla eða lífið og tilveruna. Það var sama hvað bar á góma, við gátum alltaf spjallað saman.

Hér eru fáein orð sem ég skrifaði um föður minn í tilefni 80 ára afmælis hans sem lýsa honum svo vel.

Faðir minn

Í dag er einstakur dagur,

því áttræður þú ert í dag.

Já í dag er sérstakur dagur,

því afmælið þitt er í dag.

Í dag er einstakur dagur,

því sól og heiðskírt er í dag.

Já í dag er sérstakur dagur,

því sólmyrkvi er í dag.

Einstakur ert þú faðir,

sem auðvelt er að leita til.

Já alltaf ert þú til staðar,

ef leita ég þarf til þín.

Til skrafs og ráðagerða,

margoft hef ég leitað til þín.

Já úrlausnir og ráðleggingar,

ætíð hafa beðið mín.

Verklaginn ert þú faðir,

svo útsjónarsamur þú ert.

Já ómetanleg eru handverk þín,

svo handlaginn þú ert.

Hugulsemi og umhyggja,

þú ætíð hefur sýnt mér.

Já virðingu og kærleika hefur þú,

faðir góður þú ert.

Dugnaðurinn í þér er ótrúlegur,

þó að áföll á móti blási.

Já á hverjum degi eflist styrkur þinn,

bæði í hendi og fæti.

Nú áttræður ert þú faðir minn,

svo traustur og hjartahlýr.

Já sjálfgefið er það ekki,

að eiga svo góðan föður sem vin.

Jón Halldór Finnsson.

Í fyrsta skiptið sem ég hitti föður Jóns Halldórs, Finn, var fyrir 35 árum um jólin 1988 þegar ég kom fyrst til Íslands. Ég var í háskólanámi í Shenandoah í Bandaríkjunum þar sem ég kynntist Jóni Halldóri. Í jólafríinu var heimavistin í háskólanum lokuð, ég var að leita að stað til að vera yfir jólin. Jón Halldór var á leiðinni til Íslands og bauð hann mér að koma með sér.

Foreldrar Jóns Halldórs voru mjög góð við þessa ókunnu stelpu frá Japan. Ég vissi ekkert um Ísland þegar ég kom hérna fyrst. Ég hafði aldrei heyrt íslensku áður og skildi ekki allt, foreldrar Jóns Halldórs töluðu ekki mikla ensku heldur, þannig að við gátum ekki talað mikið saman, bara brostum blítt hvert til annars, þau tóku mér svo vel. Mér leið mjög vel hér og varð fljótt hrifin af Íslandi.

Ég hitti Finn og Svandísi aftur í Bandaríkjunum þegar Jón Halldór útskrifaðist úr háskólanum og ferðuðumst við saman til Kanada. Eftir það komu þau alltaf fram við mig sem part af fjölskyldunni. Finnur kom alltaf fram við mig eins og dóttur sína og mér fannst hann líka vera pabbi minn. Þegar við Jón Halldór komum í annað skiptið í heimsókn um sumar fórum við öll í útilegu um landið. Við fórum oft í útilegur saman eftir að við fluttum til Íslands. Ég á margar skemmtilegar minningar frá þessum ferðalögum.

Finnur var með galdrahendur. Hann gat gert við hvað sem er með höndunum. Ef eitthvað var bilað, þá gat hann lagað það. Föndrað frá litlum pappírsbátum upp í að byggja alvöru hús. Hann hjálpaði okkur við ýmislegt, eins og að brjóta veggi í íbúðinni okkar, smíða pall og blómabeð fyrir garðinn okkar. Hann vissi svo margt og var góður ráðgjafi okkar. Alltaf þegar við áttum í vandræðum leituðum við til hans og þá fann hann alltaf lausn.

Finnur var besti vinur Jóns Halldórs og þeir höfðu alltaf ýmislegt að tala um, ég dýrkaði að fylgjast með þeim tala og hlusta á samræður þeirra. Hann var líka besti afi. Honum þótti mjög vænt um barnabörnin sín, hann var mjög laginn við að leika við þau og börnin elskuðu hann.

Finnur var stórhuga, hjartahlýr maður, laginn, fróður og hafði mikla kímnigáfu sem gladdi fólk. Hann var yndislegur tengdafaðir minn.

Það er erfitt að kveðja þig, en þú hefur barist svo vel við langvarandi veikindi og ég vil bara þakka þér fyrir samveruna og hvíldu í friði.

Ég fyllist þakklæti fyrir að þú hafir verið hluti af mínu lífi.

Asako Ichihashi.

Elsku afi.

Takk fyrir að vernda mig, hugsa um mig og láta mig hlæja frá því ég fæddist. Þú ert gullmoli og miklu betri en ég í ólsen-ólsen: „Æfingin skapar meistarann“ er lína sem við sögðum alltaf ef þú vannst eða ég vann. Ég á fullt af yndislegum minningum í hjarta mér og ég þakka innilega fyrir tímann sem við fengum að njóta saman.

Þinn

Aron.

Elsku afi.

Það sem kemur fyrst í hugann þegar við minnumst þín er hversu blíður og góðhjartaður þú varst. Þú tókst okkur alltaf opnum örmum og okkur leið alltaf vel hjá þér og ömmu. Ég, Gummi og Óliver Máni vorum heppin að eiga þig að sem afa og langafa. Við munum aldrei gleyma stundunum sem við áttum saman og söknum þín svo heitt.

Við vitum að þú ert umvafinn góðu fólki í Sumarlandinu. Takk fyrir allar góðu stundirnar saman, elsku besti afi.

Ástarkveðjur,

Marína Herdís,
Guðmundur Kristján
og Óliver Máni.