Eftirlitsstofnanir Samkeppniseftirlitið heldur því fram að mikili ábati felist í íhlutun þess í íslensku atvinnulífi.
Eftirlitsstofnanir Samkeppniseftirlitið heldur því fram að mikili ábati felist í íhlutun þess í íslensku atvinnulífi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekki liggur nákvæmlega fyrir á hvaða útreikningi fullyrðing Samkeppniseftirlitsins (SKE) um ábata af íhlutun eftirlitsins byggist. Þó stendur til að birta ábatamat sem unnið hefur verið fyrir eftirlitið og byggir á leiðbeiningum frá OECD

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Ekki liggur nákvæmlega fyrir á hvaða útreikningi fullyrðing Samkeppniseftirlitsins (SKE) um ábata af íhlutun eftirlitsins byggist. Þó stendur til að birta ábatamat sem unnið hefur verið fyrir eftirlitið og byggir á leiðbeiningum frá OECD.

Í viðbótarumsögn SKE um nýsamþykkt fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár, umsögn sem var birt 8. desember sl., kemur fram að niðurstöður ábatamats sýni að á tímabilinu 2013-2022 hafi árlegur reiknaður ábati af íhlutun SKE numið 18-31-földum fjárveitingum til eftirlitsins. Þá hélt formaður stjórnar SKE því fram í ársskýrslu eftirlitsins í október sl. að ábati vegna ákvarðana SKE hefði numið 19 milljörðum króna í fyrra miðað við verga landsframleiðslu, eða um 50 þús.kr. á hvern landsmanna á ári sé skipt jafnt á alla landsmenn. Hvernig sú tala er fengin eða hvaða útreikningur er að baki henni liggur ekki ljóst fyrir.

Ekki vilji innan þingsins til að auka fjárframlög til SKE

Í fyrrnefndri umsögn sögðu Páll Gunnar Pálsson forstjóri SKE og Sveinn Agnarsson stjórnarformaður að eftirlitinu hefði verið þröngur stakkur sniðinn og ætti í erfiðleikum með að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Þá fór SKE þess á leit við fjárlaganefnd að fjárframlög til eftirlitsins yrðu tekin til frekari umfjöllunar.

Fjárlaganefnd varð ekki við þeirri ósk og fjárframlög til SKE jukust ekki frekar við afgreiðslu fjárlaga. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var ekki vilji fyrir því, hvorki innan fjárlaganefndar né þingflokka stjórnarflokkanna, að auka fjárveitingar til SKE að svo stöddu. Þá hefur verið rætt meðal þingflokka stjórnarmeirihlutans um mikilvægi þess að framkvæma úttekt á starfsemi og stjórnun eftirlitsins, þeim verkefnum sem það sinnir og hvernig þeim er forgangsraðað. Þá truflar framganga SKE gagnvart sjávarútvegsfyrirtækjum fyrr á þessu ári suma af viðmælendum Morgunblaðsins úr hópi stjórnarmeirihlutans, þá helst að hún sé til marks um að forgangsröðun verkefna sé ekki á hreinu.

Eins og fjallað var um í ViðskiptaMogganum í byrjun október sl. liggur heldur ekki fyrir hvort og þá hvaða breytingar verða gerðar á starfsemi SKE þó að rætt hafi verið um það um árabil á vettvangi stjórnmálanna að skoða stofnanaumgjörð samkeppnis- og neytendamála hér á landi. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skipaði í ágúst í fyrra starfshóp, undir forystu Þorgeirs Örlygssonar fv. hæstaréttardómara, sem falið var að skoða leiðir til að skapa eftirliti samkeppnis- og neytendamála nýja stjórnsýslulega stöðu innan stofnanakerfis ríkisins. Starfshópurinn skilaði drögum til ráðherra um miðjan mars á þessu ári en skýrslan og frekari möguleikar á því hvernig þær tillögur sem þar eru lagðar fram verða útfærðar eru enn til umfjöllunar í ráðuneytinu.

Matskenndar aðferðir við framkvæmd ábatamats

Spurður um ábatamatið og á hvaða forsendum þær tölur sem nefndar voru hér í upphafi séu byggðar vísar Páll Gunnar í skriflegu svari til Morgunblaðsins á skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluúttekt á Samkeppniseftirlitinu frá júlí 2022. Þar telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að reglubundið mat á ábata af starfsemi Samkeppniseftirlitsins verði nýtt við skilgreiningu áherslna, markmiða og árangursmælikvarða. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að þó að um matskenndar aðferðir [við mat á ábata] sé um að ræða felist í slíku mati upplýsingar um ávinning virks samkeppniseftirlits.

„Rétt er að undirstrika að mat á reiknuðum ábata verður ætíð háð töluverðri óvissu og mikilvægt er að hafa hugfast að ekki er um rauntölur að ræða heldur mat á væntum áhrifum af afmörkuðum þáttum í starfsemi Samkeppniseftirlitsins á grundvelli bestu fyrirliggjandi þekkingar. Ekki er litið til varnaðaráhrifa ákvarðana, ábata af málsvara- og leiðbeiningarhlutverki stofnunarinnar eða álagðra stjórnvaldssekta né hugsanlegra neikvæðra áhrifa vegna inngripa stofnunarinnar,“ segir í skýrslunni.

Þá kemur fram að Ríkisendurskoðun telji mikilvægt að SKE viðhafi sem mest gagnsæi við matið og tryggi að óháðir sérfræðingar, almenningur og hagsmunaaðilar hafi tækifæri til að gagnrýna forsendur þess og aðferðafræði.

Páll Gunnar segir í svari sínu til Morgunblaðsins að SKE hafi unnið að endurbættu ábatamati í samræmi við þetta. Hann bendir á að SKE hafi birt umræðuskjal í apríl sl. með lýsingu á þeirri aðferðafræði og forsendum sem eftirlitið hugðist nota við matið. Þá kemur fram að matið byggi á leiðbeiningum frá OECD en að forsendum verði nánar lýst í skýrslu sem birt verður á vefsíðu stofnunarinnar á næstunni.

Aðkeypt þjónusta

Laun Jóns Þórs ekki gefin upp

Fram kom í umsögn SKE að Jón Þór Sturluson, forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík og fv. aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, hafi rýnt fyrrnefnt ábatamat. Spurður um aðkomu Jóns Þórs að málinu bendir Páll Gunnar á að Jón Þór sé sérfræðingur í atvinnuvegahagfræði. Fram kemur í svari Páls Gunnars að SKE greiði fyrir vinnu hans en að ekki hafi verið gengið frá greiðslu vegna vinnunnar.

„Ekki er því á þessu stigi hægt að upplýsa um endanlegar greiðslur fyrir vinnuna,“ segir í svari Páls Gunnars þegar spurt er um launagreiðslur. Aðspurður segir Páll Gunnar jafnframt að Jón Þór hafi ekki sinnt öðrum störfum fyrir SKE.

Jón Þór var sem kunnugt er sérstakur ráðgjafi Ríkisendurskoðunar við vinnu stofnunarinnar að stjórnsýsluúttekt á sölu ríkissjóðs á 22,5% eignarhlut í Íslandsbanka í mars í fyrra. Ríkisendurskoðandi neitaði að gefa upp launakostnað og ráðningarkjör Jóns Þórs þegar Morgunblaðið leitaði eftir því.