Majors Leikarinn gengur út úr dómshúsi á Manhattan á mánudaginn.
Majors Leikarinn gengur út úr dómshúsi á Manhattan á mánudaginn. — AFP/ Yuki Iwamura
Marvel-kvikmyndaverið sem meðal annars framleiðir hinar geysivinsælu kvikmyndir Avengers hefur rift samningi við bandaríska leikarann Jonathan Majors. BBC greinir frá

Marvel-kvikmyndaverið sem meðal annars framleiðir hinar geysivinsælu kvikmyndir Avengers hefur rift samningi við bandaríska leikarann Jonathan Majors. BBC greinir frá.

Majors sem hefur getið sér gott orð fyrir túlkun sína á ofur-illmenninu Kang the Conqueror (ísl. Sigurvegari) var í vikunni af kviðdómi fundinn sekur um líkamsárás í mars síðasliðnum gegn fyrrverandi kærustu sinni, breska danshöfundinum Grace Jabbari. Majors á yfir höfði sér allt að árs fangelsi þegar refsing hans verður ákvörðuð í febrúar 2024.

Fregnir herma að Marvel-kvikmyndaverið hafi borið miklar væntingar til leikarans og að á teikniborðinu hafi verið fjölmargar kvikmyndir með Majors í leikaraliðinu.

Ekki er vitað hvort þeim kvikmyndum verði að fullu ýtt út af borðinu eða hvort þær verði endurskrifaðar.

Majors lék í Ant-Man and the Wasp: Quantumania í febrúar síðastliðnum og í Disney+-seríunni Loki.