ASÍ formenn Forystumenn landssambanda og stærstu félaga innan ASÍ funduðu í nokkrar vikur um möguleika á sameiginlegri kröfugerð.
ASÍ formenn Forystumenn landssambanda og stærstu félaga innan ASÍ funduðu í nokkrar vikur um möguleika á sameiginlegri kröfugerð. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ómar Friðriksson omfr@mbl.is

Fréttaskýring

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Þrátt fyrir að ekki hafi náðst samkomulag um að öll landssambönd og aðildarfélög innan Alþýðusambandsins stæðu saman í komandi kjaraviðræðum við atvinnurekendur virðist ljóst að forystumenn allra stærstu sambandanna og félaganna, sem eru með þorra launafólks á almennum markaði að baki sér, vilja ótrauðir halda þeirri tilraun áfram. Samið verði í anda lífskjarasamninganna með krónutöluhækkunum og það sem öllu máli skipti; að náð verði víðtæku samkomulagi um samstillt átak verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda, stjórnvalda, sveitarfélaga, Seðlabankans og annarra með það að markmiði að ná niður vöxtum og verðbólgu og um róttækar aðgerðir í húsnæðismálum. Markmiðið sé að ná samstöðusamningi til langs tíma ef allt gengur eftir.

„Málið er að 90% af hreyfingunni standa saman. Í dag eru það bara VM og rafiðnaðarmenn sem sjá fyrir sér að fara aðrar leiðir og horfa frekar á prósentuhækkun en krónutöluleiðina,“ segir viðmælandi innan Starfsgreinasambandsins. Bent er á að þarfir einstakra hópa séu misjafnar, almennt verkafólk og stórir hópar verslunarfólks séu eingöngu á kauptöxtum, t.d. í ferðaþjónustunni, en iðnaðarmenn njóti yfirborgana og séu yfirleitt á mun hærri launum. Ekki sé þó útilokað að þeir komi aftur að borðinu þegar frá líður.

Í umræðunni hafa menn kastað fram ýmsum hugmyndum og skoðanir verið skiptar en megináherslan verið lögð á að byggt verði á lífskjarasamningunum, hver launaþróunin þurfi að vera og hversu hratt takist að ná verðbólgunni niður, rauð strik verði í samningunum og tryggilega gengið frá framlagi stjórnvalda. Iðnaðarmennirnir voru hins vegar ekki sáttir við þá aðferðafræði sem lagt var upp með og því fór sem fór.

Fara á fullt í þessa vinnu

Ef fram heldur sem horfir munu forystumenn Starfsgreinasambandsins, verslunarmanna, Eflingar og fleiri félaga áfram stilla saman strengi og hefja viðræður við viðsemjendur af fullum þunga.

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, stærsta stéttarfélagsins innan ASÍ, er afdráttarlaus um hvert framhaldið þurfi að að vera og er bjartsýnn á víðfeðma samstöðu stéttarfélaga um þetta verkefni. Ef árangurinn náist verði um sögulegan samning að ræða.

„Félögin sem eru eftir eru gríðarlega breiður hópur sem er sammála um að reyna að ná þessum mikilvægu markmiðum, að reyna að ná niður vöxtum og verðbólgu og fjölmörgum öðrum atriðum sem geta haft mjög jákvæð áhrif á lífskjör fólks bæði til skemmri og lengri tíma. Þau félög sem eru sammála um að gera atlögu að þessu eru töluvert stærri hópur en var á bak við lífskjarasamninginn árið 2019,“ segir Ragnar Þór. „Þetta er nánast obbinn af Alþýðusambandinu sem ætlar að halda áfram vinnunni og fara á fullt í þessa vinnu,“ bætir hann við.

Ragnar Þór segist einnig leyfa sér að vera bjartsýnn á að þau félög sem ákváðu að taka skref aftur á bak á þessu stigi komi inn á síðari stigum. „Það gerðist líka í aðdraganda lífskjarasamninganna. Við vorum nokkur félög sem leiddum vinnuna og svo undir það síðasta, þegar við vorum búin að teikna upp hugmyndafræðina og aðferðafræðina, þá komu öll alþýðusambandsfélögin inn í samninginn og við kláruðum þetta saman. Núna er þetta miklu stærri hópur sem er að leiða verkefnið áfram og ég leyfi mér að vera ennþá mjög bjartsýnn á árangurinn og líka á að alþýðusambandsfélögin verði saman þegar upp er staðið.“

Leggja til atlögu fyrir áramót

Verslunarmenn hafa verið með áherslur á blandaða leið krónutölu- og prósentuhækkana en Ragnar Þór segir að í þeim stóru samningum sem nú er verið að reyna að teikna upp sé launaliðurinn orðinn aukaatriði. „Stóru tölurnar liggja í vöxtum og verðbólgunni. Hagsmunirnir liggja í því að hið opinbera, sveitarfélögin, atvinnulífið og fyrirtækin taki öll þátt í því að ná hér niður vöxtum og verðbólgu. Sem dæmi þá þýðir eitt prósent lækkun vaxta á 40 milljóna kr. húsnæðisláni í dag að ráðstöfunartekjur aukast um 33 þúsund kr., sem jafngildir 50 þúsund kr. launahækkun. Þarna eru stærstu kostnaðarliðirnir og verðmætustu krónurnar sem við getum samið um, sem lækkar kostnaðinn við að lifa.“

Ragnar Þór segir ekki eftir neinu að bíða með frekari viðræður, sem fari jafnvel af stað fyrir helgi. „Við munum hefja atlögu að þessu í síðasta lagi á milli jóla og nýárs.“ Hann segir einnig að þegar stefnt sé að svona risastórum samningi sé lykilatriði að fólk hafi trú á verkefninu. „Ég hef ennþá trú á því að við getum landað hér tímamótasamningi, langtímasamningi í janúar,“ segir hann.