Þórshöfn Íbúar eru um 380 en nærri 600 í allri Langanesbyggð.
Þórshöfn Íbúar eru um 380 en nærri 600 í allri Langanesbyggð. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Útlit er gott í Langanesbyggð, samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár sem var samþykkt á dögunum. Svo virðist sem rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs á þessu ári, það er A- og B-hluta, verði um 136 milljónir króna í plús og í áætlun…

Útlit er gott í Langanesbyggð, samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár sem var samþykkt á dögunum. Svo virðist sem rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs á þessu ári, það er A- og B-hluta, verði um 136 milljónir króna í plús og í áætlun fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir að niðurstaðan verði 108,5 milljóna króna afgangur.

Ef aðeins er tekinn A-sjóður sveitarfélagsins, það er almennur og daglegur rekstur, er útlit fyrir að rekstrarniðurstaðan verði um 87 milljónir króna á þessu ári en tæpar 50 milljónir eru áætlaðar 2024.

Undanfarið hefur, segir Björn S. Lárusson sveitarstjóri, verið gætt aðhalds í rekstri og fjárfestingum á meðan vextir og verðbólga eru í hæstu hæðum. Nú er komið að nauðsynlegum fjárfestingum og viðhaldi sem endurspeglast í áætlun næsta árs og þriggja ára áætlun. Gert er ráð fyrir að 328 milljónir fari í fjárfestingar á næsta ári og 224 á árinu 2025. Þar vega þyngst endurbætur á hjúkrunarheimilinu Nausti á Þórshöfn, endurskipulagning sorpmála og frárennslismál.

Skuldahlutfall samstæðu Langanesbyggðar er um 70% en sveitarsjóðs um 105%. Nær allar skuldir sveitarsjóðs eru við lánastofnanir með uppgreiðsluákvæði. Því er ekki hægt að greiða þær upp. Um fjórðungur skulda er við eigin fyrirtæki sveitarfélagsins

Langanesbyggð nær frá miðri Melrakkasléttu suður á Sandvíkurheiði þar sem land liggur að Vopnafjarðarhreppi. Innan marka sveitarfélagsins eru byggðin í Þistilfirði, Langanes og kauptúnin Þórshöfn og Bakkafjörður. Íbúar eru nú 592 og hefur talan verið á því róli um árabil. sbs@mbl.is