Benedikt Viggósson
Benedikt Viggósson
Í nafni alþjóðalaga, mannúðar og mennsku bið ég ykkur að nota stöðu ykkar til að gera allt sem í ykkar valdi stendur til að stöðva þessa martröð.

Benedikt Viggósson

Ég ávarpa ykkur alþingismenn, þjóðkjörnir fulltrúar íslensku þjóðarinnar.

Skyldur ykkar eru ríkar og ábyrgðin mikil, þið eigið að endurspegla rödd almennings, vera hjarta þjóðarinnar, hjarta okkar sem slær nú ört fyrir þjóð á flótta undan sprengjuregni og byssukúlum hefndarþyrstra hersveita ísraelskra stjórnvalda sem engu eira.

Þjóðarmorð á Palestínumönnum á sér nú stað í beinni útsendingu, við getum ekki skýlt okkur á bak við það að vita ekki.

Þjóðarmorð er staðfest af yfir 800 sérfræðingum um þau málefni auk 50 sérfræðinga um glæpi framda af ríkjum. Ekki nóg með það, heldur algjör eyðing innviðasamfélagsins. Yfirlýsing Joseps Borrells, fulltrúa utanríkis- og öryggisstefnu Evrópusambandsins, staðfestir það, þar sem hann sagði að eyðileggingin á Gasa væri meiri en eyðilegging bæja og borga í Þýskalandi í seinni heimsstyrjöldinni. Allir íbúar Gasa búa nú við yfirvofandi hungursneyð með stórhættu á sjúkdómum og dauða sem fylgja slíkri neyð.

Ísraelsmenn eru nú þegar sekir um fyrstu þrjá af fimm liðum sem skilgreina þjóðarmorð:

1. Að drepa almenna borgara.

2. Að valda almennum borgurum alvarlegum líkamlegum eða andlegum skaða.

3. Að valda almennum borgurum lífsskilyrðum sem ætlað er að valda líkamlegu tjóni þeirra í heild eða að hluta.

Ísraelar eru að refsa öllum íbúum á því hernumda svæði sem Gasa er, íbúar Gasa eru fastir innan víggirðinga sem Ísraelsmenn hafa reist. Þeir hafa svipt þá aðgengi að vatni, mat, rafmagni og öðru lífsnauðsynlegu viðurværi. Ísraelsk stjórnvöld tala opinberlega um að þetta fólk sé verra en dýr, fólk sem er alveg eins alveg eins og við, fólk sem á sér drauma og vonir, fólk sem þráir það sem við öll metum svo mikils, það að vera frjáls.

Við verðum vitni að gífurlegum þjáningum og svo grófu ofbeldi að orð fá því varla lýst. Það er skylda okkar að standa vörð um mennsku og mannréttindi. Nú hafa þegar um 20.000 íbúar Gasa verið myrtir og eru yfir 60% þeirra konur og börn. Alvarlega slasaðir eru komnir yfir 60.000. Ef við setjum þetta i íslenskt samhengi þá væri þetta líkt og að meira en 3.000 Íslendingar hefðu verið myrtir og yfir 7.000 slasaðir á tveggja mánaða tímabili, hvernig myndum við líta það ef þjóðir heims kæmu okkur ekki til skilyrðis- og tafarlausrar hjálpar?

Í nafni alþjóðalaga, mannúðar og mennsku bið ég ykkur að nota stöðu ykkar til að gera allt sem í ykkar valdi stendur til að stöðva þessa martröð.

Ég hvet ykkur til að láta rödd ykkar heyrast og sitja svo ekki við orðin tóm. Tími er kominn til að senda ísraelskum stjórnvöldum skýr skilaboð um að íslenska þjóðin fordæmi voðaverk þeirra. Slíta öll samskipti við Ísrael eins og fordæmi eru fyrir við önnur ríki.

Íslendingar voru fyrsta þjóð Evrópu til að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki, og hvað svo? Erum við svo kjarklaus og sérhlífin að þora ekki að standa með þeim í verki í framhaldi af hinni annars sjálfsögðu og réttlátu baráttu fyrir tilveru sinni?

Íslendingar eiga að skipa sér í sveit með þeim þjóðum sem stigið hafa fram og sett Ísrael stólinn fyrir dyrnar með stjórnmála- og viðskiptaþvingunum, standa keikir með sannfæringu okkar. Við verðum dæmd af verkum okkar.

Hvers vegna haldið þið að samtök eins og Hamas verði til? Þau verða til þegar kúgun, reiði og örvænting er orðin svo þrúgandi og þráin eftir frelsi svo sterk að fólk er tilbúið til að beita ofbeldi og ganga í opinn dauðann í von um breytingu á annars vonlausri stöðu, tilbúið til að fórna lífinu fyrir frelsi þjóðar sinnar.

Hvað haldið þið að þessi fjöldamorð hafi búið til marga nýja Hamas-liða? Hvað haldið þið að þurfi að drepa marga Palestínumenn til að Ísrael geti fengið það sem þeir ætla sér? Ég skal segja ykkur það, þeir þurfa að drepa alla þjóðina, milljónir manna, það segir sig sjálft að afleiðing af slíkri tilraun hefði gríðarlega alvarlegar afleiðingar um allan heim, við skulum gera okkar til að stöðva Ísrael á þeirri glórulausu vegferð.

Stjórnvöld sitja með hendur í skauti meðan milljónir almennra borgara um allan heim streyma út á götur og mótmæla, persónulegar viðskiptaþvinganir (boycotts) eru nú þegar hafnar á fyrirtækjum með tengingu við Ísrael. 12. desember var fyrsti dagur í alþjóðlegu verkfalli til stuðnings Palestínumönnum með þátttöku tuga milljóna manna um allan heim.

Notið krafta ykkar núna, tíminn er á þrotum. Sýnið okkur að þið séuð ekki bara kjörnir fulltrúar okkar heldur einnig leiðtogar.

Nú þegar hátíð friðar og kærleika fer í hönd bið ég ykkur að líta í spegilinn og spyrja ykkur sjálf hvort þið séuð boðberar friðar og kærleika, með verkum ykkar og aðgerðaleysi. Krefjist frelsunar bræðra okkar og systra frá grimmd og tortímingu. Kúgun, þjófnaður á landi, misþyrmingar og morð á Palestínumönnum af hendi Ísraelsmanna með þöglu samþykki er ekki samþykkt, ekki í mínu nafni!

Höfundur er framkvæmdastjóri ferdavefir.is og almennur borgari.