Prestar Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir og Sveinn Valgeirsson.
Prestar Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir og Sveinn Valgeirsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jólahátíðin hefur lengst og færst fram með öllum sínum hlaðborðum og samkomum, segir síra Sveinn Valgeirsson dómkirkjuprestur. Jafnvel þannig að vinur hans hafi efast um að orðið jólafasta ætti lengur við

Dagmál

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Jólahátíðin hefur lengst og færst fram með öllum sínum hlaðborðum og samkomum, segir síra Sveinn Valgeirsson dómkirkjuprestur. Jafnvel þannig að vinur hans hafi efast um að orðið jólafasta ætti lengur við.

Síra Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir í Neskirkju tekur undir þetta, en þau segjast bæði vita til þess að fjárhagsáhyggjur séu útbreiddari fyrir þessi jól en undanfarin ár.

Um leið minna þau á að örlæti þurfi ekki að kosta neitt, það megi líka gefa dýrmætan tíma, athygli og kærleika.

Þau eru gestir í Dagmálum, streymi Morgunblaðsins á netinu, sem opið er öllum áskrifendum. Þar er farið yfir vítt svið jólahalds og kristindóms, nýrra áskorana vegna aukins straums útlendinga til landsins og náttúruhamfara, sem stökkt hafa Grindvíkingum á vergang.

Hlutverk kirkjunnar var talsvert rætt, en síra Sveinn nefndi til dæmis að þegar Grindvíkingar hefðu þurft að yfirgefa bæinn sinn í skyndi hefði verið efnt til samverustundar og hún hefði að sjálfsögðu verið í kirkju, engum hefði dottið annað í hug. Fólk leiti til kirkjunnar þegar á bjáti og hún sé samfélag.

Síra Steinunn Arnþrúður samsinnir því. „Fyrir suma er það lægri þröskuldur til þess að leita aðstoðar en víða annars staðar.“ Það þurfi ekki áfall til.