Álver Framleiðsla álversins í Straumsvík mun skerðast.
Álver Framleiðsla álversins í Straumsvík mun skerðast. — Morgunblaðið/Ómar
„Skerðing Landsvirkjunar á raforku til ISAL kemur sér mjög illa fyrir okkur. Búast má við að framleiðslan á næsta ári verði nokkuð minni en við gerðum ráð fyrir,“ segir Bjarni Már Gylfason, yfirmaður samskipta hjá álveri ISAL í…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Skerðing Landsvirkjunar á raforku til ISAL kemur sér mjög illa fyrir okkur. Búast má við að framleiðslan á næsta ári verði nokkuð minni en við gerðum ráð fyrir,“ segir Bjarni Már Gylfason, yfirmaður samskipta hjá álveri ISAL í Straumsvík í Hafnarfirði, spurður um áhrif yfirvofandi raforkuskerðingar Landsvirkjunar til stórnotenda.

Landsvirkjun hefur boðað að skerða þurfi raforku til stórnotenda á suðvesturhluta landsins frá og með 19. janúar 2004 og er ástæðan slæm vatnsstaða í Þórisvatni. Þau fyrirtæki sem verða fyrir skerðingunni eru Elkem, Norðurál og Rio Tinto, auk fjarvarmaveitna.

„Ekki er hægt að segja til um það núna hversu mikil framleiðsluskerðingin verður,“ segir Bjarni, „enda liggur ekki fyrir hversu lengi skerðing Landsvirkjunar mun vara. Álverð er búið að vera frekar lágt á þessu ári og staðan á mörkuðum erfið. Síðustu vikur hefur verð aðeins verið að hækka og að rofa til í eftirspurn, þannig að tímasetning skerðingar er slæm. Einnig eru sveiflur í raforkunotkun óheppilegar fyrir álver þar sem stöðugleiki er mikilvægur fyrir reksturinn,“ segir Bjarni Már Gylfason.

Í tilkynningu varar Landsvirkjun við því að skerðingar geti staðið til loka aprílmánaðar, en það fer þó eftir vatnsbúskap. Skerðingin getur numið allt að 200 gígavattstundum og kemur hún til viðbótar því sem áður hefur verið tilkynnt um, en í síðasta mánuði var kunngjört um raforkuskerðingu til fiskimjölsverksmiðja, fiskþurrkana og gagnavera sem stunda rafmyntagröft.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson