Rautt Kristín heima hjá sér við verk eftir Vigdísi Gríms (t.v.), Helga Þórsson og Harald Jónsson. Nýja bókin er rauð. „Að halda að maðurinn sé á sífelldri uppleið felur margt fyrir manni, m.a. ævintýrið í lífinu og dulmögnunina.“
Rautt Kristín heima hjá sér við verk eftir Vigdísi Gríms (t.v.), Helga Þórsson og Harald Jónsson. Nýja bókin er rauð. „Að halda að maðurinn sé á sífelldri uppleið felur margt fyrir manni, m.a. ævintýrið í lífinu og dulmögnunina.“ — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Oddný var langamma mín, hún var amma mömmu minnar, mamma sagði mér ekki margt af þessari ömmu sinni, sem hún var mikið hjá þegar hún var barn. Oddný flutti frá Bræðratungu til Reykjavíkur um aldamótin 1900, hún varð háöldruð, næstum því níræð

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Oddný var langamma mín, hún var amma mömmu minnar, mamma sagði mér ekki margt af þessari ömmu sinni, sem hún var mikið hjá þegar hún var barn. Oddný flutti frá Bræðratungu til Reykjavíkur um aldamótin 1900, hún varð háöldruð, næstum því níræð. Hún var sú eina sem eignaðist barn af börnum hjónanna Þorleifs og Þuríðar í Bræðratungu,“ segir Kristín Ómarsdóttir rithöfundur sem sendi nýlega frá sér bókina Móðurást: Oddný, en þar segir Oddný langamma hennar söguna. Hún var fædd árið 1863 og „ólst upp í Bræðratungu, í hópi hörkuduglegra og glaðsinna systkina og stundum þykir sveitungunum gleðin keyra úr hófi á bænum. Lífsbaráttan er hörð og fólk er á eilífum þönum undan dauðanum,“ eins og segir á bókarkápu.

„Ég horfði til míns kvenleggs í leit að efni í bók. Upphaflega var ég að spá í að skrifa um ömmusystur mínar, þegar þær voru litlar. Mér fannst að ég yrði að þekkja foreldra þeirra og fór að skoða aftar í tíma. Allra fyrst ætlaði ég að skrifa bók sem byrjaði um 1940, síðan átti sagan að byrja 1902, svo endaði ég í nítjándu öldinni. Sagan hefst árið 1872, þegar Oddný er átta ára,“ segir Kristín og bætir við að heimildarsaga Bjarna Harðarsonar bóksala, Króníka úr Biskupstungum, hafi komið henni á sporið.

„Þar eru sagðar ættarsögur fólks í Biskupstungum sem fætt var á fyrri hluta 19. aldar. Margir bæir koma við sögu og fólkið sem þar bjó, meðal annars Bræðratunga. Bjarni gaf mér þessa bók en hann hafði við heimildarvinnu sína verið að eltast við mömmu og systur hennar áður en þær féllu frá, til að rekja úr þeim garnir um liðna tíð. Þær nenntu ekki að ræða sína fortíð og fólksins sem á undan þeim gekk,“ segir Kristín og hlær.

„Ég lagðist í grúsk og fann ýmislegt hér og þar. Slíkt grúsk er eins og rannsóknarlögreglustarf, margt kom að gagni, til dæmis málsgrein úr Króníkunni um Þuríði mömmu Oddnýjar, þess efnis að hún hafi verið stjórnsöm, gáfuð og lesið Þjóðólf fyrir fólkið á kvöldin. Ég las alls konar Árnesingaþætti mér til gagns, fann þar hitt og þetta um Bræðratungu, staðurinn hefur líka skráð sig í bókmenntirnar. Bræðratunga kemur fyrir í Njálssögu, Íslandsklukkunni og í sögu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur, en hún flúði frá Skálholti til Bræðratungu, í skjól til Helgu ekkju sem þar bjó. Ég hef líka þrætt minningargreinar en þær ná reyndar aðeins til 20. aldar. Þetta er eins og að vera í berjamó þar sem berin eru ekki mörg, en þau sem ég finn eru rík af safa.“

Að hverfa inn í þennan tíma

Kristín þurfti eðli málsins samkvæmt að kynna sér sem flest frá 19. öld, mat, húsakost, klæðnað og siði. Á einum stað í bókinni þvær faðir Oddnýjar sér upp úr kvenkeytu og á öðrum stað kemur fram að rúmföt hafi líka verið þvegin upp úr keytu.

„Að þvo bæði hár sitt og þvott upp úr keytu var gert. Þó ég fari frjálslega með sumt þá styðst ég ævinlega við staðreyndir. Ég komst til dæmis að því hversu mikill heimilisiðnaður er á bæjum. Vinnufólk fékk ein föt á hverju ári frá vinnuveitendum sínum, allt frá nærfötum upp í yfirhafnir og allt var það búið til heima á bæjunum. Einnig voru miklir hagleikssmiðir í landinu, bæði á járn og tré, en nú erum við háð öðrum um þá hluti sem áður voru búnir til heima við,“ segir Kristín og bætir við að vissulega hafi verið hræðileg örbirgð á 19. öld, sjúkdómar og dauði daglegt brauð.

„Ég ímynda mér samt að fólk hafi á fríkvöldum, sem ég veit ekki hversu fá voru eða mörg, getað stokkið upp á hest og riðið um sveitina á sumrin. Á vetrum þegar árnar leggur, þá bötnuðu samgöngur, að veðrinu undanskildu, því þá var hægt að ganga eða ríða yfir óbrúaðar ár á ís. Árnar í kringum Bræðratungu lagði en þær voru straumharðari á þessum tíma og vatnsmeiri. Það er ekki ónýtt að hverfa inn í þennan tíma.“

Hvort viltu verða húsfreyja, vinnukona eða ómagi?

Bókin er mikil kvennasaga, hún fjallar um stöðu kvenna, daglegt líf þeirra og vináttu og þann kynjahalla sem þær bjuggu við.

„Hvort viltu verða húsfreyja, vinnukona eða ómagi? Þessir voru möguleikar kvenna, og enginn einn kostur var skárri en annar, nema að börn fædd innan hjónabands eignast oftar sterkari grundvöll. Svo á fólkið skjól í kúnum úti í fjósi, enda voru húsdýrin stór hluti af lífi fólks á þeim tíma. Það var líka hlýtt hjá skepnunum,“ segir Kristín sem gefur einni kúnni rödd, hún talar færeysku og spjallar við Oddnýju.

„Þessi persóna sem verður til, hún Oddný, hefur verið mér mjög örlát og mér til mikillar undrunar. Ég stend í þakkarskuld við hana. Þetta er íhugul og yfirveguð rödd, held ég. Ein ævi líður hratt – þess vegna er ekki svo langt á milli okkar tíma og hennar – og hver tími heldur að flest sé nýtt undir sólinni, hver áratugur sé eitt risa framfaraskref, en inni í þessum framfaralegu leiktjöldum felst einhver blekking. Að halda að maðurinn sé á sífelldri uppleið – það felur svo margt fyrir manni, m.a. ævintýrið í lífinu og dulmögnunina. Menn lifa nú við annars konar einangrun en fólkið á nítjándu öld. Áður skapaði náttúran, landshættir, veður og aðstæður einangrun, en nú gerir tæknin það. Tæknin sameinar fólk en líka einangrar. Áður fyrr var fólk fast í óttanum við valdið, rétt eins og við sem uppi erum núna. Að verða frjáls gæti hugsanlega verið auðvelt skref: eitt bil; en þú kemst stutt ein, þú þarft makker; heila herdeild af friðsamlegum mannskap sem samtaka rýfur línuna milli helsis og frelsis – þeoretiklý spíking!“