Dómur Ákvæði sem útiloka framlög til Reykjavíkurborgar voru ólögmæt.
Dómur Ákvæði sem útiloka framlög til Reykjavíkurborgar voru ólögmæt. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
Íslenska ríkið þarf að greiða Reykjavíkurborg rúmlega þrjá milljarða króna vegna vangoldinna framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Agnar Már Másson

agnarmar@mbl.is

Íslenska ríkið þarf að greiða Reykjavíkurborg rúmlega þrjá milljarða króna vegna vangoldinna framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm sinn um þetta í gær.

Árið 2020 krafðist Reykjavíkurborg þess að íslenska ríkið greiddi sér fjárhæð sem nam jöfnunarframlögum vegna rekstrar grunnskóla og framlögum til nýbúafræðslu fyrir árin 2015-2018.

Borgin hélt því fram í kröfubréfi til stjórnvalda að hún hefði verið útilokuð á ólöglegan hátt frá því að fá ákveðin framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem snúa að rekstri grunnskóla og framlaga til nýbúafræðslu. Þá varðar hluti kröfunnar íslenskukennslu erlendra barna en borgin fékk engin framlög vegna þess verkefnis.

Þá vísaði borgarlögmaður til dóms Hæstaréttar frá maí 2018, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að óheimilt hefði verið að fella niður jöfnunarframlag til sveitarfélagsins Grímsnes- og Grafningshrepps úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Borgarlögmaður benti einnig á að í reglugerðum um jöfnunarsjóð væri ýmist að finna ákvæði um reiknireglur sem útilokuðu Reykjavíkurborg frá því að hljóta framlög eða ákvæði sem útilokuðu Reykjavíkurborg berum orðum frá því að hljóta framlög. Borgarstjóri sagði á þeim tíma að reglugerðir jöfnunarsjóðs væru ósanngjarnar og ekki í samræmi við lög.

„Ákvæði reglugerðar um að útiloka framlög til stefnanda [Reykjavíkurborgar] úr Jöfnunarsjóði [voru] ólögmæt,“ segir í dómi héraðsdóms en þar er ríkinu gert að greiða borginni 3.370.162.909 krónur.

Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum.