Kristinn Sigurpáll Kristjánsson fæddist á Akureyri 21. október 1935. Hann lést á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 24. nóvember 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Kristján Sigurður Kristjánsson, f. 19. september 1911, d. 2. ágúst 1986, og Kristín Dóróthea Kristinsdóttir, f. 15. janúar 1914, d. 18. desember 1995. Systur hans eru Gunnlaug, látin, Rúna Hrönn, látin, og Elfa Bryndís.

Kristinn Sigurpáll kvæntist Guðnýju Elísabetu Halldórsdóttur, f. 17 október 1935, d. 8. júlí 1994, hinn 19. apríl 1956. Foreldrar hennar voru Halldór Björgvin Eiríksson skósmiður og Kristín Guðnadóttir.

Börn Guðnýjar og Kristins eru: 1) Dóra Kristín, maki Jón Ragnar Hjaltason, þau eiga þrjár dætur og þrjú barnabörn. 2) Kristján Björgvin, maki Arnbjörg Jónsdóttir, þau eiga tvö börn og þrjú barnabörn. 3) Bergdís Hrönn, maki Tómas Jóhannesson, þau eiga þrjú börn, sjö barnabörn og tvö barnabarnabörn. 4) Eygló Björk, maki Jóhann Haukur Jóhannesson, þau eiga tvo syni og eitt barnabarn. 5) Elísabet Mjöll, maki Sigurbjörn Bjarnason, þau eiga þrjár dætur og sex barnabörn. 6) Jóhanna Dröfn, maki Valþór Þorgeirsson, þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn. 7) Margrét Hildur, maki Þórður Stefánsson, látinn, þau eiga fjögur börn og fimm barnabörn.

Kiddi Palli, eins og hann var ávallt kallaður, ólst upp á Akureyri og gekk þar í barna- og gagnfræðaskóla. Hann lærði símvirkjun, tók síðar stúdentspróf frá öldungadeild MA og seinna lá leiðin til Danmerkur í nám í rafmagnsfræði. Eftir námið í Danmörku vann hann fyrst um sinn við tölvuvæðingu á viðvörunarkerfi fyrir endurvarpsstöðvar á fjöllum allt í kringum landið. Eftir það hætti hann hjá Pósti og síma, þar sem hann hafði unnið mestan sinn starfsaldur, og fór í einkarekstur með þjónustu við fyrirtæki í sambandi við símabúnað og önnur fjarskipti. Frá unga aldri spilaði Kiddi Palli með Lúðrasveit Akureyrar. Einnig spilaði hann í nokkrum hljómsveitum í gegnum árin, þar á meðal með hljómsveit Ingimars Eydal þegar Sjallinn var opnaður árið 1963, en þó lengst af með hljómsveitinni Löxum. Nokkuð kom Kiddi nálægt félagsmálum. Hann stofnaði til að mynda veiðifélagið Flugu og var þar í stjórn og formennsku, enda stangveiði mikið áhugamál. Hann var í stjórn og formennsku Norðurlandsdeildar tæknifræðinga til nokkurra ára.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Elsku pabbi, nú ert þú horfinn yfir móðuna miklu og mig langar að setja á blað fáeinar minningar um þig.

Alltaf lifir það í minningunni þegar ég var smápatti og þú varst með verkstæði í kjallaranum í Ásabyggðinni, fullt af ýmiskonar áhugaverðum hlutum fyrir forvitinn strák, ef ég fór einn niður í kjallara þá var sagt „bannað að fikta“.

Verkstæði fyrir skrifstofuvélar rakst þú niðri í bæ þegar ég var í barnaskóla, þá labbaði ég oft niður eftir til þín eftir skóla og snuddaðist eitthvað þar og sentist fyrir þig og sérstaklega man ég þegar þú sendir mig sem oftar niður til Odds í Höfn að kaupa pylsur með sinnepi og hráum lauk, Thule fyrir þig og kók fyrir mig.

Þú komst oftar en ekki heim í kvöldmat og varst að fara að æfa eða spila á balli og allt að gerast núna. Mamma upptekin við að elda ofan í hópinn ykkar, þá pressaði ég oft fyrir þig buxurnar, burstaði skóna og hnýtti bindið meðan þú borðaðir í flýti, ég var ekki hár í loftinu þegar þú kenndir mér það allt og sérstaklega að vanda brotin í buxunum.

Þá voru ófáar ferðirnar sem ég fór með þér á Moskvitch í bilanagreiningar. Þegar jarðsíminn bilaði á Norðurlandi eystra þá var mikið spjallað á leiðinni og náðum við alltaf vel saman.

Flott hjá þér pabbi þegar þú fórst út til Danmerkur að læra rafeindatæknifræði, þar átti mamma góð ár og sagði oft að hún saknaði þeirra og sérstaklega þýska sjónvarpsins því þar var svo mikill söngur og tónlist.

Eitt sinn sem oftar beislaðir þú „Grána“, en það kallaðir þú Suzuki-jeppann þinn og renndir á honum suður í Hvalfjarðarsveit til okkar Öbbu. Í þetta sinn var dvölin ákveðin fimm dagar og komst þú með stóra skál með hræringi með þér sem þú hafðir í morgunverð því þú treystir því ekki að Borgfirðingar vissu hvað hræringur væri eða gætu útbúið hann.

Það voru gæðasamverustundir sem við áttum í þau skipti sem þú komst í heimsókn til okkar Öbbu. Við spiluðum á harmonikku og spjölluðum um harmonikutónlist, forritun, tækni og ýmislegt sem okkur var báðum hugleikið. Þá fórst þú yfir það með mér hvernig ætti að spila lög Svavars Benediktssonar en þú hafðir spilað með honum þegar þú varst að læra símvirkjun, svo spiluðum við Kostervalsinn og þú sagðir að ég spilaði hann eins og Gellin og Borgström, það þótti mér ekki slæmt komment frá þér.

Kært þótti mér hve stoltur þú varst þegar ég strákurinn þinn útskrifaðist sem tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík, þú lést það svo berlega í ljós í kvöldverðarboði sem vinafólk okkar hélt af því tilefni.

Í einni af seinustu heimsóknum okkar Öbbu til þín á hjúkrunarheimilið Hlíð hafði eitthvað farið úrskeiðis hjá þér við að stilla sjónvarpið svo við sóttum starfsmann sem var með þetta á hreinu. Þegar hann hafði stillt sjónvarpið sagði ég við þig „bannað að fikta“, þá færðist breitt bros yfir andlit þitt, þú skildir augljóslega sneiðina.

Vertu blessaður og sæll pabbi minn, hvíldu í friði, minningin um þig lifir ávallt í hjarta mínu.

Þinn sonur,

Kristján Björgvin (Beyi).

Kristinn, eða Kiddi Palli eins og hann var alltaf kallaður, kvaddi þetta líf saddur lífdaga. Hann kom víða við á lífsleiðinni, hann lærði ungur á harmonikku og fór snemma að spila opinberlega og þannig lágu leiðir okkar saman. Hann hafði samband við okkur tvo unga stráka og fékk okkur með stuttum fyrirvara til þess að spila með sér á sveitaballi og þar hófst okkar langa og farsæla vinátta. Hann spilaði líka í Lúðrasveit Akureyrar á klarínett og saxófón og í hljómsveit Ingimars Eydal spilaði hann á kontrabassa. Þegar hann hætti með Ingimar stofnuðum við ásamt fjórum öðrum hljómsveitina Astro, það var 3. október 1964. Síðan var það 6. janúar 1966 að við stofnuðum hljómsveitina Laxa, sú hljómsveit spilaði víða um Norður- og Austurland og líka sex böll í Færeyjum. Hljómsveitin spilaði allt til ársins 1971 á 271 balli. Það var ekki út í bláinn að við notuðum nafnið Laxar því að við þrír úr bandinu vorum miklir veiðimenn. Iðulega fórum við af stað eftir ball austur í Laxá og vorum mættir þar kl. 7 um morguninn. Við stofnuðum veiðifélag ásamt nokkrum félögum okkar, Veiðifélagið Flugu, og tókum hluta af Laxá í Aðaldal á leigu, svokallað Múlasvæði. Í upphafi vorum við með aðstöðu í tjaldi, síðan í hjólhýsi og enduðum með húsi. En þetta nægði okkur ekki, við tókum Ormarsá á Sléttu á leigu í nokkur ár og fórum við stjórnarmennirnir margar ferðir þangað austur með Kidda í fararbroddi til að laga vegarslóða, koma upp húsi og setja seiði í ána, eigum við margar góðar minningar þaðan.

Á fullorðinsaldri fór Kiddi í nám og varð stúdent og í framhaldi af því fóru þau Guðný Halldórsdóttir kona hans til Odense í Danmörku þar sem hann fór í tækninám og voru þau þar í nokkur ár. Á sama tíma bjuggum við fjölskyldan líka í Danmörku, við vorum í Farum rétt norðan við Kaupmannahöfn og var samgangur því mikill hjá okkur. Við rifjuðum gjarnan upp þegar þau komu í heimsókn til okkar um páska að við fórum í búðina til innkaupa og það háttaði þannig til að við gátum farið með innkaupakerruna heim til okkar. Um kvöldið spyr ég Kidda hvort hann ætli ekki að gefa mér bjór, ég keypti ekki bjór, sagði hann, og ekki ég heldur, en bjórkassinn var heima. Þá kom í ljós að við höfðum sett kassann á neðri hilluna á kerrunni og afgreiðslustúlkan ekki séð hann, en þetta var sá besti páskabjór sem við höfðum drukkið.

Kæri vinur, þær er margar sögurnar sem ég gæti sagt af okkur en ég læt þetta duga. Ég vona að þú standir við spegilfagurt stöðuvatn og kastir flugunni svo faglega að vatnið gárast varla þegar hún kemur niður. Megi algóður guð gæta þín.

Rafn Sveinsson.