Leiksýning Haraldur í hlutverki sínu í Grænu lyftunni sem leikfélagið Fjalakötturinn setti upp 1948.
Leiksýning Haraldur í hlutverki sínu í Grænu lyftunni sem leikfélagið Fjalakötturinn setti upp 1948.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Haraldur Á. Sigurðsson Árið 1919 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í áttunda skiptið. Allir leikirnir fóru fram á Melavellinum og dæmdi Egill Jacobsen þá alla. KR vann þarna annan Íslandsmeistaratitil sinn en auk þess tóku þátt í mótinu Fram, Víkingur og Valur, allt Reykjavíkurfélög

Haraldur Á. Sigurðsson

Árið 1919 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í áttunda skiptið. Allir leikirnir fóru fram á Melavellinum og dæmdi Egill Jacobsen þá alla. KR vann þarna annan Íslandsmeistaratitil sinn en auk þess tóku þátt í mótinu Fram, Víkingur og Valur, allt Reykjavíkurfélög.

Í lokaleik mótsins mættust tvö efstu liðin, KR og Fram. Hvort lið um sig gat orðið Íslandsmeistari og þurfti KR að sigra til þess að svo yrði á meðan Fram nægði jafntefli. Þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma var staðan 3-2 fyrir KR. Þá var dæmd vítaspyrna á Vesturbæjarliðið. Stuðningsmenn beggja liðanna héldu niðri í sér andanum þegar Friðþjófur Thorsteinsson úr Fram hljóp að boltanum á vítapunktinum. Hann var ágætur skotmaður en Haraldur Á. Sigurðsson var líka ágætur markvörður og hann varði vítaspyrnuna og tryggði þar með liði sínu Íslandsmeistaratitilinn.

Haraldur var Vesturbæingur í húð og hár, fæddur að Vesturgötu 28, þann 22. nóvember 1901. Móðir hans, Þórdís Hafliðadóttir, lést þegar hann var aðeins fimm ára gamall og flutti hann þá til móðurömmu sinnar og -afa að Suðurgötu 6 og síðar til föður síns, Ásgeirs Sigurðssonar, og konu hans, Millýjar Sigurðsson, ofar í sömu götu, eða á númer 12. Hann hóf síðan búskap með konu sinni, Guðrúnu Ólafíu Hjálmarsdóttur, sem var alltaf kölluð Ollý, að Hávallagötu 1 en síðar lágu leiðir þeirra víða, meðal annars að Litlu-Drageyri í Skorradal. En Vesturbæingur var hann alltaf.

Segja má að Haraldur hafi brugðið sér í ýmis gervi og ólík á ævi sinni. Hann var liðtækur knattspyrnumarkvörður á yngri árum eins og fram hefur komið en síðar var hann allt í senn; gamanleikari, leikstjóri, rithöfundur, verslunarmaður, bóndi, náttúruunnandi og veiðimaður og margt fleira. Það var hið fyrstnefnda sem hann varð hvað þekktastur fyrir enda var hann burðarás í leiklistarlífi landsins í hartnær þrjá áratugi. „Það var dauður maður sem Haraldur gat ekki fengið til að brosa,“ skrifaði Árni Helgason í Stykkishólmi í minningargrein um þennan vin sinn. Haraldur var kunnur af tilsvörum sínum við ýmis tækifæri. Hann var hávaxinn maður og skrokkmikill og notaði stundum vaxtarlag sitt til að vekja kátínu í kringum sig, bæði á leiksviði og annars staðar. […]

Einn af góðum vinum Haraldar var Páll Jónsson, iðulega kallaður Púlli. Það sem einkenndi hann öðru fremur var bjartsýnin, rólyndið og nægjusemin. Hann var alltaf ánægður og brá aldrei skapi, hafði sennilega ekki andstyggð á vinnu en það stappaði nærri því. Hollasta hreyfingin, sem hann vissi um, var að aka í bíl. Og uppáhaldsrétturinn hans var kjötkássa því að hana mátti borða með annarri hendi og hafa hina á meðan í vasanum. Púlli sagði líka: „Ég held að það sé best að gera ekki neitt og hvíla sig svo vel á eftir.“ Þetta kom líka frá honum: „Sá sem getur ekki sofið til hádegis hefur vonda samvisku.“

Þeir Haraldur og Púlli höfðu gaman af því að ráða krossgátur. Sátu þeir oft saman, réðu gáturnar yfir kaffibolla og hjálpuðu þá hvor öðrum við að fylla í eyðurnar. Eitt sinn vantaði þá fjögurra stafa orð yfir „matur“ og lauk svo að báðir gáfust upp. Um kvöldið var landsleikur í knattspyrnu milli Íslendinga og Svía á Melavellinum og fóru þeir félagar þangað. Í miðjum leiknum, þegar Íslendingar voru í hörkusókn og nánast allir áhorfendur í uppnámi og hvetjandi landa sína, hnippir Púlli í Harald og segir:

„Heyrðu, Haraldur! Það er kæfa!“ […]

Hér segir Haraldur sjálfur frá einu af ævintýrum þeirra Púlla:

„Í æsku vorum við dálítið vínhneigðir, eins og gengur og gerist. Eitt haust, er við vorum við skál, fengum við þá hugmynd að fara til Þingvalla og gera okkur glaðan dag. Þetta var um helgi og því mannmargt á sögustaðnum. Er við leituðum eftir gistingu í Valhöll var okkur sagt að öll rúm væru þegar lofuð að undanteknum tveim í átta manna herbergi. Var ekki um annað að ræða en að gera sér þau að góðu.

Um daginn var drukkið hraustlega, því að við vorum engir meðalmenn í þeim sökum, hann Púlli minn og ég, þegar við vorum upp á okkar allra besta. Er líða tók á kvöldið gerðumst við ölvaðir nokkuð og gengum því snemma til náða. Þegar við sofnuðum, þreyttir eftir dagsins önn, voru engir af herbergisfélögum okkar mættir. Við vöknuðum snemma næsta morgun, litum í kringum okkur og sáum hrjótandi haus í hverju rúmi. Því miður var líðan okkar nú ólík því sem verið hafði kvöldið áður – mesti glansinn var farinn af tilverunni. Eins og alþjóð veit eru timburmennirnir einu íslensku iðnaðarmennirnir sem mæta ávallt stundvíslega á vinnustað og stundum svo, að óhugnanlegt verður að teljast. Umræddan morgun voru þeir óvenju árrisulir og athafnasamir. Engu var líkara en að þeir ynnu í ákvæðisvinnu eða eftir uppmælingu. Var nú aðeins eitt ráð fyrir hendi til þess að reyna að lama starfsgetu þessara þokkapilta. Það var að stramma sig af. Er við höfðum stundað okkar skemmtilegu og þjóðlegu iðju um hríð varð Púlli þess var að járnsmiður var að skríða ofan á sænginni hans. Hann strauk járnsmiðinn burt svo að lítið bar á, enda kannski ekki alveg viss um raunverulega tilveru skriðdýrsins.

Ef tveir menn sitja að drykkju og annar sér einkennilegar pöddur en hinn ekki – þá er sjaldnast gott í efni. En innan stundar var annar járnsmiður kominn þarna og nú var ekki um að villast. Við sáum hann báðir.

Þótt Púlli væri rólyndur og þolinmóðasti maður veraldar þá ofbauð honum þessi óvænti átroðningur enda rann honum svo í skap að hann sló dýrið ofan af sænginni um leið og hann sagði:

„Hvaða helvítis járnsmiðir eru þetta?“

Þá reis maður upp við dogg í einu rúminu og sagði afar hæglátlega: „Við erum úr Héðni.““

Sveinn Jónsson

Skagamaðurinn Ríkharður Jónsson stjórnaði íslenska knattspyrnulandsliðinu í einum leik árið 1963 og lék þá jafnframt með því. Leikurinn, sem var sá síðari gegn áhugamannalandsliði Breta í forkeppni Ólympíuleikanna, fór fram á Englandi og voru átta KR-ingar í byrjunarliðinu. Snemma leiks skora Bretar en síðan er einum þeirra vísað af velli. Íslensku leikmennirnir hugsuðu sér þá gott til glóðarinnar og ætluðu að taka hraustlega til hendinni en uppskeran varð rýr. Bretarnir bættu við öðru marki fyrir leikhlé.

Varla er síðari hálfleikur hafinn þegar annar Breti verður að yfirgefa völlinn, nú vegna meiðsla. Á þessum tíma voru einhverjir annmarkar á innáskiptingum og máttu Bretarnir ekki setja varamann í stað hans. Voru þeir því aðeins níu á móti fullskipuðu liði Íslands. Ekki tókst íslensku leikmönnunum samt að nýta sér liðsmuninn, heldur máttu þeir hirða boltann tvisvar í viðbót úr netinu áður en lokaflautið gall við.

Eftir leikinn tekur Ríkharður leikmenn sína í gegn fyrir slælega frammistöðu og segir:

„Það er hart að það skuli ekki vera hægt að vinna níu Breta, heldur fáum við á okkur tvö mörk eftir að tveir þeirra eru farnir af velli.“

Þá heyrðist í einum landsliðsmanninum, sem kunnugir segja að hafi verið Sveinn Jónsson:

„Hvernig getur þú ætlast til þess að við, átta KR-ingar, getum unnið níu Breta?“

Bryndís Zoëga

Einn þeirra einstaklinga sem settu sterkan svip á líf barna í Vesturbænum var Bryndís Zoëga. Hún fæddist 7. júlí 1917 og voru foreldrar hennar hjónin Geir G. Zoëga vegamálastjóri og Hólmfríður Zoëga húsmóðir. Bryndís og Helga, tvíburasystir hennar, voru elstar sex systkina. Helga lést aðeins 15 ára að aldri. Fyrsti starfsvettvangur Bryndísar með börnum var á Vesturborg þar sem hún hóf störf árið 1939 sem forstöðukona. Þá var hún nýkomin frá námi í Kaupmannahöfn. Hún var fyrst manna hér á landi sem hlotið hafði sérstaka menntun með prófi til að starfa við barnaheimili og veita þeim forstöðu.

Á árunum 1941 til 1950 starfaði Bryndís á ýmsum sumardvalarheimilum og leikskólum í Reykjavík. Haustið 1950 réðst hún til forstöðu við nýjan leikskóla, Drafnarborg við Drafnarstíg, sem tók til starfa 13. október það ár. Þetta var fyrsti leikskóli borgarinnar sem teiknaður var sem barnaheimili og byggður með þarfir ungra barna í huga og þar varð vinnustaður hennar þangað til hún lét af störfum árið 1991. Þá hafði hún starfað með og fyrir börn í Reykjavík í meira en hálfa öld. Bryndísar verður ávallt minnst fyrir störf hennar í Drafnarborg þar sem hún starfaði í rúmlega 41 ár. Hún var ávallt trú sannfæringu sinni og þeim uppeldiskenningum sem hún aðhylltist. Hún elti ekki tískusveiflur og hafði ekki trú á að leikskóla ætti að fylla með innfluttum leikföngum, sem örvuðu að mati hennar á engan hátt sköpunargáfur barna. Leiksvæði Drafnarborgar var líka sérstakt. Bryndís vildi t.d. hafa þar sjávarmöl, gamlan bát og alvörubíl fyrir börn að leika sér í.

Í minningargrein um Bryndísi, sem lést 2. september 2000, segir Bergur Felixson, sem var um langt árabil framkvæmdastjóri yfir leikskólum borgarinnar: „Ég minnist þess þegar Finnur heitinn Árnason garðyrkjumeistari kom eitt sinn á skrifstofuna. Hann hafði haft öll ósköpin fyrir því að skaffa ágætan bílskrokk í Vöku og setja á lóð Drafnarborgar að beiðni Bryndísar.

„Hann endist nú ekkert,“ sagði Finnur, „ég er að koma frá Drafnarborg og það var hópur af krökkum að hoppa á húddinu á bílnum.“

„Nú,“ svaraði ég, „hvar var Bryndís?“

„Hún hoppaði hæst,“ sagði Finnur og stundi.“

Í Drafnarborg voru albúm með gömlum myndum af börnunum sem Bryndís dró fram þegar hún fékk heimsóknir. Öll þekkti hún og vissi oftar en ekki hvað hafði orðið af þeim þegar þau uxu úr grasi og iðulega fylgdu þeim skemmtilegar sögur.