Forlíkun Óljóst er hvort frumvarp Svandísar Svavarsdóttur (t.h.) verði til þess að auka sátt um sjávarútveg.
Forlíkun Óljóst er hvort frumvarp Svandísar Svavarsdóttur (t.h.) verði til þess að auka sátt um sjávarútveg. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra til nýrra heildarlaga um sjávarútveg átti með viðamiklu samráði undir merkjum Auðlindarinnar okkar að skila aukinni samfélagslegri sátt um íslenskan sjávarútveg

Fréttaskýring

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra til nýrra heildarlaga um sjávarútveg átti með viðamiklu samráði undir merkjum Auðlindarinnar okkar að skila aukinni samfélagslegri sátt um íslenskan sjávarútveg. Miðað við þær umsagnir og yfirlýsingar sem hagaðilar hafa sent frá sér vegna frumvarpsins – sem og tillögur og skýrslu Auðlindarinnar okkar – hefur tekist að mynda nokkuð umfangsmikla samstöðu um málefnið, en samstaðan felst aðallega í óánægju með fyrirhugaðar breytingar sem ýmist eru sagðar ganga of langt eða of skammt. Benda hagaðilar á að ekki hafi verið farið í greiningu á mögulegum áhrifum breytinganna, að ekki hafi verið staðið við gefin fyrirheit og að samráðsferlið sem lagt var upp með hafi verið sniðgengið.

„Ljóst er að málefni sjávarútvegs snerta hagsmuni víða í samfélaginu og því er ekki von á öðru en að umsagnir verði bæði margar og efnismiklar. Vegna þess að ferlið er í miðjum klíðum er ekki tímabært að fjalla um einstakar athugasemdir eða viðbrögð við þeim á þessum tímapunkti,“ svarar Svandís er hún er innt álits á þeirri gagnrýni sem frumvarpið hefur hlotið síðustu daga. „Ákveðið hefur verið að framlengja frest til umsagna um frumvarpið til 10. janúar. […] Mikilvægt er að sem flestar athugasemdir rati í samráðið svo unnt verði að fara yfir þær í heild.“

Þeir sem hafa kvatt sér hljóðs og gagnrýnt frumvarpið, tillögur í skýrslu Auðlindarinnar okkar og/eða samráðsferlið sjálft eru ekki fáir. Má í þessu samhengi nefna Landssamband smábátaeigenda (LS), Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Tálknafjarðarhrepp, útgerðir í Stykkishólmi, Samtök fiskframleiðenda og -útflytjenda (SFÚ), Strandveiðifélag Íslands, Félag skipstjórnarmanna, Félag vélstjóra og máltæknimanna – VM, Sjómannasamband Íslands, Starfsgreinasambandið, Samtök smærri útgerða, Landvernd, Unga umhverfissinna, Viðskiptaráð og skólameistara fimm framhaldsskóla, nánar tiltekið Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum, Menntaskólans á Ísafirði og Verkmenntaskóla Austurlands.

Svandís svarar því ekki hvort hún hafi enn trú á að hægt verði að samþykkja frumvarp á Alþingi sem skapi sátt um sjávarútveginn.

Athugasemdir við ferlið

Skýrsla starfshópa Auðlindarinnar okkar og tilheyrandi tillögur þeirra voru kynntar á opnum fundi 29. ágúst. LS, SFÚ og Strandveiðifélagið sögðu sig frá samráðsnefnd Auðlindarinnar okkar þar sem þau töldu sig sniðgengin við mótun tillagna og að skýrsla starfshópa og tilheyrandi tillögur hefðu ekki verið kynntar nefndinni.

Þá gerðu Starfsgreinasambandið, SFS, Félag skipstjórnarmanna, VM, Sjómannasambandið, og Samtök smærri útgerða verulegar athugasemdir við framkvæmd meints samráðs við gerð þeirra tillagna sem kynntar voru í lok ágúst sem hluti af verkefninu. Var ráðherra sagður m.a. hafa farið á svig við stjórnarsáttmála með því að hafa ekki látið framkvæma mat á þjóðhagslegum ávinningi. Jafnframt hafi verið kaflar í skýrslu Auðlindarinnar rokkar sem aldrei voru bornir undir samráðsnefndina. „Tekin var ákvörðun um að halda hagaðilum, með mikla þekkingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu, veiðum, vinnslu og annarri starfsemi innan virðiskeðju sjávarútvegs, að mestu utan við þessa vinnu. Það verður að teljast misráðið og niðurstaðan ber þess merki,“ sagði í yfirlýsingu félaganna.

Skólameistarar fimm framhaldsskóla sögðu sig sniðgengna í stefnumótunarferlinu þar sem skólunum hefði ekki verið veitt sama tækifæri til að hafa áhrif á þá vinnu sem unnin var með þeim afleiðingum að tillögur voru gerðar um að veita skólum, öðrum en þeirra, aukið fjármagn.

Athugasemdir við tillögurnar

Um eitt ár fór í stefnumótunarvinnu Auðlindarinnar okkar, engu að síður voru gerðar töluverðar athugasemdir við tillögurnar sem áttu að vera til grundvallar nýjum heildarlögum um sjávarútveg. Hvatti Viðskiptaráð til þess að við gerð frumvarpsins sem nú liggur fyrir yrði litið til þess „árangurs sem fiskveiðistjórnunarkerfið hefur skilað íslensku þjóðinni; sjálfbærari nýtingu fiskistofna, fullnýtingu afurða, nýsköpun bæði innan sjávarútvegsins og í afleiddum greinum, verðmætasköpun sem byggt hefur undir velsæld samfélagsins og framlagi greinarinnar til loftslagsmála“.

Að mati stjórnar umhverfissamtakanna Landverndar voru í skýrslunni „hagsmunir stærri útgerða í fyrirrúmi í of mörgum af þeim tillögum og aðgerðum sem þar er að finna, á kostnað almennings, umhverfis og smærri aðila í sjávarútvegi“. Undir þetta tóku Ungir umhverfissinnar: „Hryggir það okkur að talað sé um núverandi skipulag á þann hátt að það hafi reynst vel. Það er einfaldlega ekki staðan.“

Þá vakti Kauphöll Íslands athygli á því að ekki hefði verið til umfjöllunar eignarhald erlendra aðila í sjávarútvegi. Núverandi regluverk væri flókið og óskilvirkt.

Athugasemdir við frumvarpið

Sem fyrr segir lýkur umsagnarfresti um frumvarpið sem birt var 24. nóvember ekki fyrr en 10. janúar, en það hefur þegar verið gagnrýnt.

Landssamband smábátaeigenda fullyrðir að vilji þorra Íslendinga um eflingu strandveiðikerfisins hafi verið hunsaður við gerð frumvarpsins og ráðherra verið sakaður um að standa ekki við gefin fyrirheit því tengd. Undir þetta tekur SFÚ sem hefur í yfirlýsingu mótmælt frumvarpinu og segir það ýta undir fákeppni með því að heimila félögum í kauphöllinni að auka aflahlutdeild sína.

Í sérstakri umsögn hafa útgerðir í Stykkishólmi sagt frumvarpið vega að atvinnulífi bæjarins og vísa til þess að fyrirhugaðar skerðingar á rækju- og skelbótum dragi úr rekstrargrundvelli fyrirtækja við Breiðafjörð. Sveitarstjórn Tálknafjarðar telur óljóst hvernig útfærslan verður á fyrirhuguðum innviðastyrkjum sem koma eiga í stað almenna byggðakvótans og er óttast um framtíð útgerðar á staðnum.

Þá hefur Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, sagt „… fæstar þeirra tillagna sem gerðar eru til breytinga á lagaumhverfi sjávarútvegs eru til þess fallnar að treysta samkeppnishæfni eða ná fram varanlegum útflutningsvexti, sem hlýtur að vera grundvöllur sjálfbærs hagvaxtar og lífskjarabóta til ábata fyrir alla landsmenn“.