Heppin Fjölskyldan hefur verið heppin í gegnum þessa furðulegu tíma.
Heppin Fjölskyldan hefur verið heppin í gegnum þessa furðulegu tíma.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það eru alls konar tilfinningar til staðar núna,“ segir Grindvíkingurinn Alexandra Mary Hauksdóttir. Alexandra er fædd og uppalin í Grindavík og býr þar ásamt…

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

„Það eru alls konar tilfinningar til staðar núna,“ segir Grindvíkingurinn Alexandra Mary Hauksdóttir. Alexandra er fædd og uppalin í Grindavík og býr þar ásamt manni sínum og tveimur börnum, fimm ára og átján mánaða. Eftir að rýmingin átti sér stað hafa hún og fjölskylda hennar verið með aðsetur í Hafnarfirði en þurfa að færa sig fyrir morgundaginn. Síðustu helgi fóru þau með hlutina sína aftur í hús sitt í Grindavík þar sem ætlunin var að eyða jólunum heima.

„Mér finnst nú ekkert endilega eins og það séu að koma jól ef ég á að vera alveg hreinskilin,“ segir Alexandra en hún var heima ásamt fjölskyldu sinni að pakka inn jólagjöfum þegar fréttir bárust af gosinu.

„Ég var að sækja gjafir til að pakka inn út í bíl og heyri þá manninn minn kallandi á mig að það sé byrjað að gjósa. Ég varð bæði máttlaus og dofin. Við tóku nokkrar mínútur sem liðu eins og nokkrar klukkustundir þar sem við biðum eftir fleiri fréttum um hvar gosið hefði átt sér stað.“

Svefnlaus nótt

Alexandra segir þau hafa áttað sig fljótt á því að þau ættu svefnlausa nótt fyrir höndum. Eins og aðrir Grindvíkingar hefur fjölskyldan verið í húsnæðishraki síðan 10. nóvember en þegar rýmingin átti sér stað voru þau stödd í sumarbústað.

„Við höfðum farið rétt fyrir rýminguna þar sem fimm ára stelpan okkar var orðin frekar taugaveikluð og leið illa. Svo við vorum með dót fyrir eina helgi.“ Alexandra segir fjölskylduna þó hafa verið mjög heppna með húsnæði hingað til. Yfir jólin geta þau verið hjá frænku hennar í húsi sem þau þekkja vel. „Frænka mín verður erlendis um jólin og við getum verið hjá henni. Hún er búin að gera húsið ótrúlega fallegt, skreyta og setja upp jólatré. Við erum ekki að fara í hús sem við þekkjum ekki, erum heppin með það og fólkið okkar. Það eru margir sem hafa það verra en við.“

Hjartað er gult og blátt

„En við héldum að við værum að fara heim, okkur langaði heim og fórum þess vegna með dótið okkar til baka. En við erum allavega með föt, útiföt og tannbursta þar til við förum aftur heim,“ segir Alexandra sem þarf ekki að hugsa sig tvisvar um þegar blaðamaður spyr hana hvort fjölskyldan muni snúa aftur.

„Grindavík er okkar staður, hjartað okkar er blátt og gult. Fólkið okkar er þar. Við erum Grindvíkingar og ætlum okkur að fara heim. Ég trúi að það sé einhver sem stjórni þessu og við komumst heim til okkar.“

Alexandra og maður hennar, Gunnar Þór Jónsson, byggðu sér parhús í heimabænum fyrir um tveimur árum. „Húsið okkar virðist vera í lagi en hús í næstu götu við okkur er ónýtt. Við erum ekki langt frá þessum sigdal, húsið okkar er Svartsengismegin og með fyrstu húsunum þeim megin sem gosið er,“ segir Alexandra sem berst við alls konar tilfinningar þessa dagana.

„Maður segir þetta með tárin í augunum og það er skrýtið að upplifa eitthvað sem maður getur ekki lýst. Það er lítið um orð núna, þetta lýsir svolítið stemningunni, það er lítið um þetta að segja.“

Höf.: Edda Gunnlaugsdóttir