Guðrún Ragnheiður Þorvaldsdóttir fæddist í Reykjavík 1. desember 1941. Hún lést á líknardeild Landspítalans 11. desember 2023.

Foreldrar hennar voru Guðrún Tómasdóttir, f. í Odda 10. október 1918, d. 25. júní 2000, og Þorvaldur Þorsteinsson frá Siglufirði, f. 6. desember 1917, d. 22. janúar 1998.

Systkini Guðrúnar eru Halldóra Anna, f. 1. desember 1941, gift Magna Guðmundssyni, f. 19. desember 1933; Þorsteinn, f. 12. júní 1943, d. 27. ágúst 2011, ekkja hans er Þorbjörg Valdimarsdóttir, f. 29. nóvember 1945; Tómas, f. 23. júlí 1953, giftur Helgu Norland, f. 24. desember 1954.

Guðrún giftist 9. október 1965 Magnúsi Georgi Siguroddssyni, f. 1. desember 1941. Foreldrar hans voru Fanney Long Einarsdóttir, f. 4. 1919, d. 13.11. 2002, og Siguroddur Magnússon, f. 27. ágúst 1918, d. 29. október 2003.

Magnús og Guðrún eignuðust þrjár dætur. Þær eru: 1) Guðrún Anna, f. 4.3. 1962, fv. eiginmaður Stefán Árnason, f. 14.7. 1962, börn þeirra eru: a) Ólafur Karl, f. 27.7. 1988, b) Anna Laufey, f. 13.3. 1992, gift Eyþóri Sigmundssyni, f. 16.9. 1989, þau eiga tvö börn, Gísla Frey og Birgittu Evu. Núverandi maki er Hrefna H. Helgadóttir, f. 19.3. 1980. 2) Fanney, f. 3.6. 1966, fv. eiginmaður Hólmar Ingi Guðmundsson, f. 8.2. 1966, þau eiga tvö börn. Þau eru: a) Guðrún Rósa, f. 26.9. 1984, sambýlismaður hennar er Gunnar Ingi Widnes Friðriksson, 27.8. 1981, dætur þeirra eru Hjördís Lóa og Lilja Snædís, en fyrir átti hún Stefaníu Dís Bragadóttur. b) Bjarni Magnús, f. 28.3. 1989, sambýliskona hans er Julie Margrethe Gerd Estholm, f. 9.7. 1991, sonur þeirra er Erík Snjólfur. 3) Ragnheiður Hrefna, f. 27.7. 1974, gift Magnúsi Loga Magnússyni, f. 4.6. 1971. Þau eiga eina dóttur, Sigrúnu, f. 21.11. 2009.

Eftir gagnfræðapróf lærði Guðrún hjúkrun og útskrifaðist úr HSÍ í júní 1963. Eftir að hún giftist Magnúsi fluttu þau til Danmerkur þar sem hún lærði gjörgæsluhjúkrun í Háskólasjúkrahúsinu í Odense á árunum 1965 til 1967. Eftir heimkomu vann hún fyrst á deild 3A á Landspítalanum og tók svo seinna við hjúkrunarstjórn göngudeildar fyrir háþrýsting og blóðfitumælingar hjá Landspítalanum þegar hún var stofnuð árið 1977 og lauk starfsævinni þar.

Guðrún var glæsileg kona, mikil samkvæmismanneskja og hafði gaman af hvers kyns samkomum og hefðum. Hún naut þess að halda boð og vera í samskiptum við fjölskyldu og vini, enda vinmörg. Hún var góður kokkur og hélt glæsileg boð. Hún tók virkan þátt í félagsstörfum á vegum Lionshreyfingarinnar á efri árum. Hún var flink í höndunum og saumaði talsvert alla tíð, meðal annars falleg veggteppi. Hún naut þess að dvelja með fjölskyldunni í sumarbústaðnum í Skorradal.

Útför Guðrúnar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 21. desember 2023, klukkan 15.

Mamma var glæsileg, falleg, glaðlynd og góð. Hún lagði mikið upp úr að fjölskyldan hittist sem oftast og hér áður fyrr var okkur öllum boðið reglulega í mat og helst áttu allir að koma í sunnudagskaffi. Hún var alla tíð félagslynd og hélt góðu sambandi við vinkonur sínar, var í saumaklúbb, spilaklúbb, Lions og svo voru það Holl-systurnar úr Hjúkrunarkvennaskólanum. Því miður varð hún að hætta við að fara á jólahátíð Lionsklúbbsins sér til mikilla vonbrigða.

Hún var mjög fylgin sér sem sést best á því að það var alveg sama hvað á gekk, henni tókst alltaf að koma sér aftur á fætur með því að hreyfa sig og fara í sundleikfimi.

Hún dýrkaði sól, sund og blóm. Síðustu árin var í miklu uppáhaldi hjá henni að vera í sumarbústaðnum uppi í Skorradal og sitja þar á pallinum og sleikja sólskinið innan um öll sumarblómin sem hún hafði svo gaman af að gróðursetja í pottana þar. Talandi um potta í Skorradal, þá fannst henni dásamlegt að fara í heita pottinn, jafnvel þótt veðrið væri ekki gott og kalt væri úti. Á svölunum í Sóltúninu voru líka blóm í pottum og hún settist þar út ef það sást til sólar eins og hún hefur alltaf gert.

Mamma hafði líka mjög gaman af sólarlandaferðum. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að fara í þrjár slíkar með henni. Það var unun að fylgjast með henni sleikja sólina við sundlaugarbakkann og njóta þess að fara út að borða á alls konar veitingastaði.

Hún var dugleg og kvik á fæti og á meðan heilsan leyfði héldu foreldrar mínir veislur nokkuð reglulega. Þegar hún var upp á sitt besta voru þau með Þorláksmessu-skötuboð, allir áttu að koma í kaffi eftir mat á aðfangadag, það var skyldumæting fyrir fjölskylduna á gamlársdag og svo var haldið stórt nýársdags-fjölskylduboð, því þau höfðu trúlofað sig á nýársdag og vildu halda upp á það. Alltaf sá hún sjálf um allar veitingar.

En fyrst var alltaf haldið upp á afmælisdag þeirra hjóna 1. desember sem þau áttu saman, ásamt tvíburasystur mömmu. Sá dagur er vinsæll í fjölskyldunni því yngsti bróðir pabba átti sinn frumburð þann dag og það gerði sonur minn líka fyrir tveimur árum, daginn sem mamma og Dóra héldu upp á 80 ára afmælið sitt með glæsibrag í miðjum covid-faraldri. Annars voru foreldrar mínir duglegir að nota hvert tækifæri til veisluhalda. Skírnir, fermingar, útskriftir og brúðkaupsveislur vöfðust ekkert fyrir þeim.

Hún var handlagin og saumaði mikið út, aðallega í íslenskum krosssaumi, púða og jafnvel heilu veggteppin, en ekki má gleyma jólaklukkustrengjunum sem hún saumaði handa okkur systrum. Hún hafði einnig gaman af að hekla og heklaði allavega eitt teppi á fjölskyldumeðlim og sumir fengu 2-3 í ýmsum stærðum.

Nú hefur mamma mín fengið friðinn eftir erfið veikindi og hennar verður sárt saknað.

Fanney Magnúsdóttir.

Elsku mamma. Nú ert þú farin eftir erfið veikindi sem tóku sig upp fyrir nokkrum vikum. Þú varst mikil samkvæmismanneskja og varst á leiðinni í lionsboð þremur dögum áður en þú lést, kvöldið áður en þú lagðist í það dá sem þú vaknaðir ekki almennilega upp úr eftir það.

Ég man eftir því í uppvextinum hvað þú varst dugleg og drífandi. Þú varst líka mjög skapandi. Málaðir myndir og föndraðir. Þú varst mikil jólamanneskja. Ég man eftir því að ein jólin þegar ég var svona 7-8 ára þá keyptir þú hvíta sparigrísi, málaðir þá í alls konar litum og gafst börnunum í ættinni í jólagjöf. Þú varst svo skemmtileg mamma mín og föndraðir með okkur og bakaðir fyrir jólin.

Þér fannst rosalega gaman að halda upp á viðburði og hafa alls konar boð. Það var alltaf haldið upp á 1. des., sem var sameiginlegur afmælisdagur ykkar pabba og líka Dóru tvíburasystur þinnar. Jólin voru að koma þegar 1. des. rann upp. Þá var alltaf haldið veglegt afmælisboð fyrir fjölskyldu og vini. Í mörg ár hélduð þið pabbi Þorláksmessuboð fyrir ættingja þína og nýársboð fyrir ættingja pabba auk annarra samverustunda á jólunum, m.a. fjölskylduboð á jóladag. Þú varst góður kokkur og eldaðir dásamlegan mat og af þér lærði ég að skreyta borð með servíettum og öðru þannig að þau væru aðlaðandi og „festlig“ eins og þú kallaðir það.

Á sumrin á yngri árum ferðuðust þið pabbi innanlands og utan með vinum og ættingjum en hin seinni ár fannst ykkur og þá sérstaklega þér best að vera í sumarbústaðnum ykkar í Skorró og vilduð þið dvelja þar sem mest. Þar rétt hjá á tvíburasystir þín hún Dóra og maðurinn hennar líka sumarbústað. Þú varst mikið fyrir blóm og vildir alltaf hafa fallegar blómaskreytingar og blóm í pottum í kringum þig á sumrin.

Þú varst hjúkrunarfræðingur af lífi og sál og þitt ævistarf á þeim vettvangi var að veita forstöðu göngudeild fyrir háþrýsting og blóðfitumælingar í Lágmúla. Þú kynntist mörgum í gegn um starf þitt og ferðaðist heilmikið á vegum deildarinnar á ráðstefnur erlendis. Þetta gaf þér mikið og þú sagðir oft skemmtilegar sögur af þessum ferðum.

Þú varst mikil fjölskyldumanneskja og elskaðir að hafa börn í kringum þig. Barnabörnin minnast þín með hlýhug.

Elsku mamma þakka þér fyrir allt og allt. Ég veit þú ert hjá pabba einhvers staðar í sólinni.

Þín dóttir,

Guðrún Anna.

Elsku amma Rúna, amma sleikjó, amma í bláu.

Ég á svo margar dýrmætar minningar um þig. Það fyrsta sem ég hugsa er rauður varalitur og rauðar langar neglur. Þú varst alltaf svo vel til höfð, alltaf brún eftir sólbað og með fallega blásið hár. Þú varst alltaf svo mikil skvísa og ég hlakkaði alltaf svo til þegar ég átti afmæli að fara með þér í Kringluna að versla á mig afmælisgjöf og fara á kaffihús. Þá vorum við svo miklar skvísur saman. Þú varst líka svo góður kokkur. Það mátti enginn vera svangur í kringum þig. Allt eldað með rjóma, smjöri og ást, alveg eins og afi vildi hafa það. Alltaf eftirréttur með og girnilegar nammiskálar dreifðar um íbúðina. Síðan var það stóra sleikjó krukkan, sem var opnuð þegar það var kominn tími til að kveðja. Ég fór alltaf pakksödd heim frá þér og með sleikjó í munninum.

Við höfum ósjaldan farið saman í sumarbústað, bæði í Grámel við Þingvallavatn og í Skorró. Ég man þegar ég var lítil og var að veiða fiska á Þingvöllum. Þá hljóp ég upp stíginn og rétti þér fiskinn inn um eldhúsgluggann þar sem þú hreinsaðir fiskana og síðan grilluðum við þá. Stundum borðaðir þú meira að segja hausinn, það fannst mér ógeðslegt, en líka virkilega töff að eiga ömmu sem borðaði fiskihausa.

Ég mun sakna þín svo mikið. Ég veit að þér líður betur núna hjá afa. Þið eruð örugglega saman í sólbaði núna, þú að hlusta á útvarpsleikrit og hann að leysa krossgátu.

Anna Laufey.

Rúna systir mín hefur nú kvatt okkur eftir hetjulega baráttu við erfiðan sjúkdóm. Í sinni hinstu glímu sýndi hún vel styrkleika sína, barðist æðrulaus fram á síðustu stundu, missti aldrei lífsviljann, kjarkinn og skopskynið, þegar hún hafði andrúm til þess.

Aðrir munu skrifa um og rekja lífshlaup hennar, hjónaband, fjölskyldu og starfsferil. Í mínum huga sinnti hún öllu þessu af ást og umhyggju, einstakri elju og dugnaði. Rúna var einhver sú dugmesta kona sem ég hef nokkru sinni þekkt. Féll aldrei verk úr hendi, var alltaf að drífa í þeim verkum sem sinna þurfti og klára. Hún sinnti störfum sínum af atorkusemi og aga enda varð hún snemma deildarhjúkrunarfræðingur og komu sér þá vel þessir eðliseiginleikar hennar, sem aldrei hurfu. Eitt kvöldið þegar við Dóra systir og Helga konan mín sátum hjá henni á Borgarspítalanum, snaraði hún sér fram úr til þess að taka einn hring á deildinni og hreyfa sig aðeins. Skömmu seinna kom hún glaðbeitt til baka og sagði að hún hefði þurft að lesa dálítið yfir hjúkkunum, þar sem það hefði vantað pappír á salernið og „hverslags væri þetta eiginlega, eiga sjúklingarnir að sjá um þetta sjálfir?“. Svo skellihló hún og hafði greinilega gaman af – sagði að hjúkkurnar hefðu „alveg verið í sjokki og gengið í þetta í hvelli“.

Ég, örverpið, fæddist þegar þær tvíburasysturnar Rúna og Dóra voru tólf ára. Þarna var auðvitað komin kærkomin dúkka, sem þær systurnar og vinkonur þeirra fögnuðu alveg sérstaklega, pössuðu mig samviskusamlega (ekki veitti af) og báru mig á höndum sér. Þó að þær systur færu um drenginn mildum höndum fékk maður líka að heyra það ef eitthvað var ekki í lagi. Skaphöfn Rúnu var slík að alla tíð sagði hún strax og beint út ef henni mislíkaði eitthvað og skipti þá engu hver átti í hlut.

Systurnar, móðir okkar og ömmur voru allar steyptar í mót dugnaðar, elju og áræði. Maður lærði því snemma að bera virðingu fyrir þessum kjarnorkukonum og hæfileikum þeirra. Það hefur reynst gott veganesti fyrir ungan mann á okkar tímum.

Rúna átti sér mörg áhugamál og hef ég alltaf dáðst að hannyrðum hennar, sem bera smekkvísi og fegurðarskyni hennar fagurt vitni. Í henni var listræn taug, sem birtist með ýmsum öðrum hætti. Hún bar skynbragð á hið skrýtna og skemmtilega í tilverunni, var söngelsk, var alltaf vel til höfð og bar sig glæsilega, þannig að eftir var tekið.

Minningarnar eru margar, en það sem stendur mér efst í huga er óbilandi atorka, dugnaður og kjarkur gagnvart öllum áskorunum lífsins – en umfram allt gleðin, skopskynið, hlýja hennar og væntumþykja um alla okkar tíð.

Undanfarin misseri hafa verið erfið fyrir þá sem næst Rúnu stóðu, en það hefur verið aðdáunarvert hvernig dætur hennar og systir hafa staðið með henni og gætt hennar alveg fram að hinsta andartaki. Hugur minn er hjá þeim og Rúnu minni, sem stendur mér fyrir hugskotssjónum glöð og reif með sínu fólki.

Tómas Þorvaldsson.

Elskulega Rúna svilkona er látin eftir erfið veikindi. Hún var gift elskulegum bróður mannsins míns. Rúna og Maggi voru einnig okkar góðu vinir alla tíð. Nú sameinast þau á Guðs vegum.

Samskipti okkar Rúnu voru alltaf góð og skemmtileg og ég er þakklát fyrir að hafa átt hana að vini öll þessi ár. Rúna var hjúkrunarkona að mennt og leitaði ég oft til hennar til að ræða heilsumálin og stóð aldrei á góðum ráðum frá henni. Við áttum yngstu dætur okkar á sama degi, sem var einstakt.

Við hjónin áttum margar góðar stundir með Rúnu og Magga í bústaðnum glæsilega sem þau reistu sér og ekki var gestrisni þeirra minni á fallegu heimili þeirra. Rúna var góður gestgjafi, mikill fagurkeri, heimilið og bústaðurinn báru þess vitni, glæsibragur og einstaklega notalegt umhverfi í alla staði.

Margs er að minnast á lokastundum. Það sem stendur upp úr er þakklæti fyrir allar frábæru samverustundirnar í gegnum mörg góð ár. Með þessum orðum sendum við afkomendum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Við hjónin kveðjum tryggan og góðan vin með þökkum. Blessuð sé minning þín, elsku Rúna.

Sólveig Helga Jónasdóttir.

Ég kveð Guðrúnu Ragnheiði Þorvaldsdóttur, mágkonu mína, með söknuði og minnist hennar með hlýju.

Rúna tengdist fjölskyldunni eftir að hún kynntist Magga elsta bróður mínum og henni fylgdu ferskir vindar nýrra tíma.

Maggi var elstur okkar fimm systkinanna, en ég langyngstur; átján árum yngri en Maggi. Sökum aldursmunar var samband mitt við Rúnu og Magga ekki mikið framan af en varð meira, og því mikilvægara, síðar þegar ég komst á fullorðinsár. Þótt aldursbil okkar systkina sé mikið þá höfum við verið svo lánsöm að halda alltaf góðu sambandi.

Rúna var glæsileg ung kona, og þegar orðin starfandi hjúkrunarfræðingur þegar þau Maggi kynnast. Þótt þau Maggi væru fædd sama dag, þann 1. desember 1941, þá voru þau ekkert endilega líkar persónur. En þau voru samstiga og hörkudugleg.

Fljótlega eftir að þau kynntust fluttu þau til Danmerkur, þar sem Maggi fór til náms í rafmagnstæknifræði en Rúna starfaði við sitt fag. Þessi tími í Óðinsvéum var þeim greinilega góður. Oft minntust þau tíma síns í Danmörku, þar eignuðust þau góða vini, og dvölin þar mótaði þau fyrir lífstíð.

Rúna var skemmtileg og lifandi og þau Maggi héldu öðruvísi veislur. Þar var oft margmenni og flottar veitingar; og mikið líf og fjör.

Það einkenndi Rúnu að hún forðaðist að velta sér upp úr neikvæðni og leiðindum. Hún vildi gera skemmtilega hluti og lifa lífinu lifandi.

Það átti því ekki vel við Rúnu mína að þurfa að draga úr samneyti við vinkonurnar eða að komast ekki í sundið og leikfimina þegar veikindin fóru að taka sinn toll.

En nú hefur Rúna kvatt okkur og eftir situr minningin um skemmtilega, nútímalega og jákvæða mágkonu sem ég sakna að hafa ekki lengur á meðal okkar.

Ég votta elsku bróðurdætrum mínum, þeim Guðrúnu Önnu, Fanneyju og Ragnheiði Hrefnu, sem og systkinum Rúnu; Halldóru og Tómasi, og fjölskyldum þeirra allra, mína innilegustu samúð.

Bogi.

Rúna og Maggi tóku á móti okkur Sirrýju frænku á heimili sínu á Fjóni sumarið 1967. Í þá daga voru börn í fjölskyldunni iðulega send sem gestir inn á heimili ættingja og var jafnan vel tekið á móti þeim. Ég minnist ýmissa sem komu norður á Siglufjörð og gistu hjá foreldrum mínum, Halldóru ömmu og Pétri móðurbróður mínum og Siggu konu hans. Því fleiri sem komu í einu því skemmtilegra var á heimilinu og meira fjör. Rúna og Maggi voru ekki eftirbátar annarra í gestrisni nema síður væri. Þau voru skemmtileg að vera í heimsókn hjá í Óðinsvéum og dugleg að sýna okkur slóðir H.C. Andersen og eitt og annað. Maggi var í framhaldsnámi í tæknifræði og Rúna var orðin hjúkrunarfræðingur. Okkur fannst þau rosalega dugleg og þau sinntu Guðrúnu Önnu vel en hún var krakki á þessum tíma.

Tíminn leið og öll urðum við fullorðin. Rúna var alltaf jafn glæsileg og glaðleg, vann starf sitt af krafti og sinnti heimilinu sem stækkaði og urðu dæturnar þrjár, Fanney og Ragnheiður bættust við. Hún lét sér líka annt um okkur hin, sinnti mörgum og tók þátt í ættarmótum og frændsystkinahittingum af dugnaði.

Mér eru minnisstæð jólaboðin hjá foreldrum hennar, Þorvaldi og Nunnu. Systkinin komu saman með börnin sín, borð svignuðu undan kræsingum og sælgæti var í mörgum skálum. Við gengum kringum jólatré og sungum jólalög og sálma og áfram hélt söngurinn við píanóið. Mikið var spilað og stemningin var einlæg og sérstök. Öll vorum við prúðbúin og tvíburasysturnar Dóra og Rúna oft leiðandi í stemningunni.

Við systkinin sendum innilegar saknaðar- og samúðarkveðjur til dætranna, systkina og fjölskyldunnar allrar.

Anna Sjöfn Sigurðardóttir.

Nú er elsku Rúna frænka mín farin í sumarlandið þar sem Maggi og pabbi taka á móti henni. Maggi með faðminn sinn stóra og pabbi með stríðnina. Rúna var mér svo miklu meira en föðursystir, alltaf var ég velkomin að vera með þeim hvort heldur sem var á Melaheiðinni eða sumarbústaðnum og meira að segja fór ég með þeim eðalhjónum og Ragnheiði frænku í mína fyrstu ferð til útlanda. Frábæra ferð til Ítalíu, sem þótti ekki sjálfsagt árið 1984. En rúmum 20 árum eftir Ítalíuferðina góðu þá hjálpaði Rúna mér og minni litlu fjölskyldu meira en verður nokkurn tíma hægt að þakka fyrir nógsamlega. Lífið er ekki alltaf dans á rósum en með fólkið sitt sér við hlið er allt hægt og það er einmitt þannig sem Rúna var, alltaf til staðar. Takk elsku Rúna brúna fyrir samfylgdina, leiðbeiningarnar og hjálpina alltaf. Elsku Guðrún Anna, Fanney, Ragnheiður Hrefna og fjölskyldur, við litla fjölskyldan sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Sigrún Þorsteinsdóttir.

Í dag kveðjum við móðursystur okkar Guðrúnu Ragnheiði Þorvaldsdóttur. Rúna eins og hún var alltaf kölluð var tvíburasystir móður okkar Halldóru. Þær voru því allt tíð nánar og mikill samgangur á milli fjölskyldnanna.

Rúna var há og myndarleg kona sem hafði virðulega framkomu. Hún var glaðvær og ekki fór á milli mála þegar henni líkaði eða mislíkaði eitthvað í sínu nánasta umhverfi. Rúna var gift Magnúsi Siguroddssyni sem var fæddur sama dag og þær systur. Það var því oft glatt á hjalla þegar haldið var upp á þrefalt afmæli í byrjun aðventunnar. Við minnumst þeirra sem samhentra glaðværra hjóna sem héldu fjölskyldunni saman. Í stóru húsi þeirra á Melaheiðinni í Kópavogi kom stórfjölskyldan saman, unnið var að sláturgerð, slátrið síðan soðið og blásið til veislu á eftir. Á Þorláksmessu var boðið til skötuveislu þar sem allir urðu að ganga í gegnum þá manndómsvígslu að borða kæsta skötu. Við minnumst þessara skemmtilegu tíma þar sem við lærðum öll að meta þessar kræsingar. Að ógleymdum öllum samverustundunum í sumarbústað stórfjölskyldunnar.

Rúna veiktist illa fyrir nokkrum árum og hefur verið mikið undir læknishendi hin síðari ár. Hún fékk þó á tímabili bót meina sinna og gat haldið heimili með aðstoð dætra sinna. Hún var alla tíð sjálfstæð og hafði ákveðnar skoðanir og það gilti líka um þá meðferð er hún fékk. Hún hélt upp á 82 ára afmæli sitt hinn 1. desember síðastliðinn með fjölskyldu sinni en okkur var ljóst að kraftar hennar voru að þrjóta og því kom andlát hennar ekki á óvart.

Svo viðkvæmt er lífið sem
vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann
allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson)

Hvíl í friði elsku frænka.

Elsku Guðrún Anna, Ragnheiður Hrefna, Fanney og fjölskyldur, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minning um frænku okkar lifir í hjörtum okkar allra.

Þorvaldur, Kristín, Sveinn og Örn.

Nú er hún fallin frá okkar glæsilega og trausta skólasystir og vinkona, Guðrún R. Þorvaldsdóttir. Við hittumst flestar fyrst í byrjun 1960 þegar við hófum nám við Hjúkrunarkvennaskóla Íslands, svo ungar og þróttmiklar og allt lífið fram undan. Við höfðum allar mikinn áhuga á náminu og stunduðum það af kappi. Rauði þráðurinn í náminu var umhyggja og virðing fyrir þeim sem veikir voru og við lögðum metnað okkar í að stunda starfið af fagmennsku og kunnáttu gagnvart skjólstæðingum okkar. Við vorum ótrúlega samstæðar í því og þannig var Rúna ein af okkur. Flestar okkar störfuðu við hjúkrun í gegnum árin. Rúna vann alla sína starfsævi við sína menntun, fyrst eitt ár á sjúkrahúsinu á Patreksfirði, svo tvö ár í Danmörku en lengst af starfaði hún sem deildarstjóri á hjartadeildinni í Lágmúlanum. Eftir farsælt hjónaband missti Rúna eiginmann sinn, Magnús G. Siguroddsson, árið 2019. Þau áttu þrjár yndislegar dætur sem nú syrgja góða móður. Við skólasysturnar söknum Rúnu meira en orð fá lýst en viljum nú vita af henni í Sumarlandinu ásamt ástvinum sem á undan eru gengnir. Við sendum dætrum Rúnu og fjölskyldunni allri samúðarkveðjur.

Fyrir hönd skólasystra,

Karitas Kristjánsdóttir.