Benedikt Andrésson fæddist á Hólmavík 11. júlí 1953. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 30. október 2023.

Foreldrar hans voru Andrés Ólafsson, prestur á Hólmavík, f. 22. ágúst 1921, d. 27. apríl 2012, og Arndís Benediktsdóttir, f. 31. október 1919, d. 3. apríl 1994. Bræður Benedikts eru Rögnvaldur Reinharð, f. 3. apríl 1946, eiginkona hans er Sjöfn Sóley Sveinsdóttir, og Hlynur, f. 21. mars 1950, eiginkona hans er Björg Sigurðardóttir.

Þann 11. nóvember 2011 kvæntist Benedikt Tatiönu Sadyuk, f. 18. ágúst 1972. Dætur þeirra eru María Stefanía, f. 3. maí 2012, og Veróníka Andrea, f. 31. október 2014.

Benedikt ólst upp á Hólmavík en flutti til Reykjavíkur þegar hann hóf nám í Menntaskólanum við Tjörnina. Þaðan lauk hann stúdentsprófi og síðan viðskiptafræðinámi frá Háskóla Íslands árið 1979.

Að námi loknu hóf hann störf sem fjármálastjóri hjá Lyfjaverslun ríkisins, þar sem hann starfaði í mörg ár. Síðan starfaði hann á skrifstofu J.S.J. steinsteypusögunar. Árið 1998 stofnaði hann ásamt félaga sínum fyrirtækið Bor ehf. sem er fyrirtæki í steinsteypusögun og kjarnaborun. Þar starfaði hann á meðan heilsan leyfði. Síðustu árin bjó Benedikt í Þorlákshöfn.

Útför Benedikts fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 21. desember 2023, kl. 11.00.

Bensi frændi minn er dáinn.

Margir vina minna muna eftir Bensa frá unglingsárunum í Melseli.

Hvort sem það var partí eða bara vinir að hanga í herberginu mínu þá kíkti Bensi oftar en ekki við með heimasmurðar snittur eða bara til að spjalla.

Þegar ég var 17 ára að spila með Coral á Grand Rokk eða öðrum stöðum í bænum var Bensi alltaf mættur fyrstur í sparifötunum að styðja okkur.

Hann var nefnilega ekki bara föðurbróðir minn sem bjó í sama húsi heldur var hann alla tíð minn mesti stuðningsmaður og trúnaðarvinur.

Það er ómetanlegt fyrir barn, og ekki síst ungling, sem reynir að finna sína leið í gegnum þrautir og mótlæti lífsins, að hafa slíkan vin svona nálægt sér. Sem með óbilandi jákvæðni og góðmennsku er alltaf tilbúinn að hlusta, skilja og styðja.

Unglingurinn ég, með einhver unglingaleg vandamál sem mér fannst enginn skilja, allra síst foreldrar, gat alltaf farið niður til Bensa og rætt málin, hlustað á tónlist og smakkað skrítinn mat.

Það er enginn vafi á því að mjög margt af því sem einkennir mig og minn persónuleika er komið frá Bensa. Hann kenndi mér svo ótal margt um það að vera góð manneskja. Að vera þakklátur fyrir það sem ég hef, og ekki kvarta yfir því sem ég hef ekki.

Lífið gaf honum ekkert alltaf bestu spilin en hann var samt alltaf jákvæðasti og góðhjartaðasti maður sem hef kynnst.

Það er eitt sem hann sagði einu sinni við mig sem hefur fylgt mér lengi og verið mitt leiðarljós í lífinu.

„Ég vil lifa lífinu þannig, að þegar ég horfi til baka í lokin geti ég í sannleika sagt að heimurinn sé, þótt ekki sé nema að örlitlu leyti, betri fyrir það að ég var til.“

Hann hafði alltaf mikinn áhuga á andlegum málefnum og var vissulega trúaður þótt hann hafi á undanförnum árum færst lengra frá hefðbundinni kristni.

Síðustu misserin sagði hann mér nokkrum sinnum frá bókinni Sumarlandið eftir Guðmund Kristinsson þar sem framliðnir lýstu lífinu handan dauðans.

Þar sem allir höfðu læknast af öllum sínum kvillum og eyddu dögum sínum í að gera hvað sem þeim sýndist, lausir við allar áhyggjur og vandamál.

Þótt þetta samræmist að engu leyti mínum lífsskoðunum þá vona ég svo innilega að ég hafi rangt fyrir mér og ég sé hann fyrir mér þarna á fallegum stað, að leggja net, taka upp kartöflur og syngja með afa, á milli þess sem hann þeysist um á mótorhjóli eða sallar niður rjúpur í massavís.

Ég bið að heilsa afa og skemmtu þér vel í sumarlandinu Bensi minn.

Andrés Arnar Hlynsson.

Við systkinin og Benedikt, eða Bensi eins og hann var oftast kallaður, vorum systrabörn. Við ólumst upp á Hólmavík og var mikill samgangur milli heimila mæðra okkar. Eftir að við fórum í framhaldsskóla í Reykjavík bjuggum við eldri systkinin með Bensa og Hlyni bróður hans í íbúð sem foreldrar þeirra áttu á Háaleitisbrautinni. Margar góðar minningar koma upp í hugann og við minnumst Bensa með mikilli hlýju og væntumþykju.

Bensi lauk námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Í náminu skrifaði hann lokaritgerð um ræktun lax með hafbeitaraðferð. Í okkar huga bar þetta vott um það að hann var í mörgu tilliti á undan sinni samtíð, enda kannski ekki algengt viðfangsefni á þessum tíma í viðskiptafræðinni. Hann vann lengi hjá Lyfjaverslun ríkisins. Dreifing lyfja og framleiðsla fyrir innanlandsmarkað var um margt ólík því sem síðar varð. Bensi kom þar ýmsu góðu til leiðar. Hann átti m.a. mikilvægan þátt í því að vekja athygli á nauðsyn þess að efla hlutdeild samheitalyfja á lyfjamarkaði hér á landi í samstarfi við Ólaf Ólafsson þáverandi landlækni. Þessi viðleitni bar árangur og leiddi til umtalsverðrar lækkunar á lyfjakostnaði.

Bensi var góðum gáfum gæddur en náði kannski ekki alltaf að njóta hæfileika sinna. Hann hafði mikinn áhuga á veiðum á sjó og landi enda er Hólmavík vel staðsett til að færa björg í bú. Kartöfluræktin fylgdi honum alla tíð og kom hann oft færandi hendi með nýjar kartöflur. Hann hafði gaman af eldamennsku og hringdi stundum í okkur systurnar til að leita ráða. Þjóðlegur matur var í uppáhaldi hjá honum. Minnisstæð er ferð með honum upp í Landmannalaugar fyrir allmörgum árum. Þegar við buðum upp á smurt brauð dró Bensi fram sláturkepp.

Bensi hafði góða söngrödd og naut þess að hlusta á tónlist. Samband Bensa og föður hans var mjög náið, sérstaklega eftir andlát Öddu móðursystur okkar. Bensi velti mikið fyrir sér trúmálum og áttu þeir feðgar oft samtöl um þau efni. Hann hafði mikinn áhuga á því sem tæki við að þessari jarðvist lokinni. Hann var þess fullviss að það væri góður staður og færði þessar hugmyndir sínar oft í tal við okkur.

Það hafði verið langþráður draumur hans að eignast fjölskyldu og voru dætur hans tvær miklir gleðigjafar í lífi hans. Hann bjó lengst af í Melseli í Reykjavík en síðustu árin í Þorlákshöfn og undi þar hag sínum vel. Hann átti auðvelt með að tjá sig bæði í bundnu og óbundnu máli. Enginn komst betur að orði í minningargreinum en Bensi. Við viljum því leita til hans um lokaorðin í þessari minningargrein. Ljóðið sem hér fer á eftir orti hann fyrir mörgum árum og finnst okkur það endurspegla vel sýn hans á lífið og tilveruna.

Hér lokið hefur lífi sínu

lítil fluga á borði mínu.

Léttur búkur, langir fætur

látið hennar enginn grætur.

En litla flugan sem liggur hér

í lystigarðinn Drottins fer.

Því eilífur mun andi þinn

upp rísa í himininn.

Engu skiptir staða og stærð

er stjörnum ofar himni nærð.

Ástin Guðs þar aldrei dvín

og aftur á þig sólin skín.

Við kveðjum hér góðan vin og frænda og þökkum honum samfylgdina.

Ólafur, Guðrún og
Sigrún Reykdal.

Ég kynntist Benedikt Andréssyni í Menntaskólanum við Tjörnina á árunum kringum 1970 þar sem við vorum sambekkingar. Hinn mikli veiðiáhugi hans og þekking á skotvopnum vakti einkum athygli mína á honum. Ég gerði síðar góðlátlegt grín að því í útskriftarriti skólans, Tirnu, þar sem nemendur skrifuðu palladóma hver um annan í gamansömum tón með teiknimyndum í skoplegum stíl. Benedikt svaraði mér í sömu mynt í skólablaði okkar um hin helgu vé mín.

Síst datt mér í hug þá að þessi „bernskubrek“ okkar yrðu til þess að örlagaþræðir okkar fléttuðust saman síðar meir á lífsleiðinni með nokkuð skondnum og rómantískum hætti. Það bar þannig til eftir nokkurn aðdraganda að ég kynnti hann fyrir tilvonandi konuefni sínu, Tatjönu frá Úkraínu, þó að tilgangurinn hafi verið annar í upphafi. Óhætt er að segja að engin lognmolla hafi ríkt í samvistum þeirra skötuhjúa því að Tatjana kom eins og stormsveipur inn í líf hins rólynda og dagfarsprúða manns. Með Tatjönu átti Benedikt tvær yndislegar og hæfileikaríkar dætur sem voru mér og öðrum til mikils yndisauka. Öðruvísi hinum staðfasta piparsveini áður brá að það ætti fyrir honum að liggja að verða barnakarl á miðjum aldri. Nokkrum árum eftir að hjónakornin bundu trúss sitt saman kvæntist ég rússneskri konu fyrir milligöngu Tatjönu þannig að við vorum þá báðir komnir með slavneskar konur upp á armana. Hið gerska ævintýri varð til að tengja okkur nánari vinaböndum.

Benedikt lést fyrir aldur fram sökum heilsubrests og þrálátra sjúkdóma sem hrjáðu hann í áratugi þar til hann varð bráðkvaddur á Landspítalanum í síðasta mánuði. Fram að þessu var mig farið að gruna að Benedikt hefði níu líf því að þrátt fyrir alls konar kvilla og tíðar sjúkrahúsvistir þraukaði hann þó að læknar væru sífellt að krukka í hann líkt og með Þórð Malakoff og Siglufjarðar-Geira hvers kjörorð var „lífið er lotterí og ég tek þátt í því“. Eflaust má þakka það að ekki fór verr því að Tatjana hélt að Benedikt heilsusamlegum lifnaðarháttum þar sem honum hafði þótt gott að gera sér glaðan dag þegar engin hnapphelda hélt aftur af honum.

Við þetta má bæta að Benedikt sýndi alla tíð í veikindum sínum mikið æðruleysi og jafnaðargeð auk þess sem hann var yfirleitt léttlyndur og gáskafullur og sá gjarnan hið broslega í tilverunni. Gamansemi hans var græskulaus þar sem Benedikt var hið mesta ljúfmenni og gjafmildur og örlátur svo af bar. Engan þarf að undra að það kom því fyrir að óvandaðir aðilar færðu sér ómaklega í nyt greiðvikni hans og hjálpsemi sem kom sér illa fyrir hann þó að Benedikt hefði yfirleitt látið sér fátt fyrir brjósti brenna.

Benedikt hafði verið forsjáll þar sem hann hafði efnast nokkuð sem viðskiptafræðingur þegar hann rak fyrirtæki á yngri árum sínum í byggingargeiranum auk fleiri starfa. Hann seldi síðar fyrirtæki sitt ásamt húsi sem hann átti í sameiningu við bróður sinn í Breiðholti og keypti sér hús í Þorlákshöfn þar sem fjölskyldan kom sér vel fyrir í lífsins ólgusjó.

Ég samhryggist innilega Tatjönu og dætrum þeirra og öðrum ástvinum.

Hartmann Bragason.