Gosið Allt gerist nú í beinni útsendingu.
Gosið Allt gerist nú í beinni útsendingu. — Morgunblaðið/Kristinn M.
Eina kvöldið sem Ljósvaki hafði ætlað að fara snemma að sofa var honum sent myndband af Keflvíkingi sem starði undrandi á eldglæður í loftinu. Ekki var um að villast, jörðin ákvað að senda okkur jólagjöf sem enginn bað um

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

Eina kvöldið sem Ljósvaki hafði ætlað að fara snemma að sofa var honum sent myndband af Keflvíkingi sem starði undrandi á eldglæður í loftinu. Ekki var um að villast, jörðin ákvað að senda okkur jólagjöf sem enginn bað um.

Ekkert annað var í stöðunni en að stilla á RÚV og horfa á aukafréttatíma um fjórða gosið okkar síðan 2021 og læra allt um það. Það er heillandi við Íslendinga að við þurfum að fá upplýsingar sem við komumst í þegar krísu­ástand kemur upp. Hraunflæði á millisekúndu, lengd og breidd kvikugangsins, sögu eldgosa á svæðinu. Við nördum yfir okkur og því meiri þekking því betra, því þá getum við slegið um okkur í jólaboðunum. Króum einhvern saklausan ættingja af og látum hann vita af því að þessi eldstöð sé sko ekki ósvipuð eldstöðinni í Kröflu og að nú sé nýtt eldsumbrotatímabil hafið. Því ættu Grindvíkingar að passa upp á að vera vel tryggðir því bara beint tjón fæst bætt, skiptir máli að vera tryggð, skilurðu.

Ljósvaki var minntur á að Silfrið er enn á dagskrá, þegar kveikt var á RÚV og gert hlé á þeim ágæta þætti – það voru myndir að berast af hrauni að skvettast út í loftið. Ljósvaki lá sjálfur yfir aukafréttatímanum til klukkan eitt um nóttina og sér ekki eftir því.