Rafah Kona stendur eins og steinrunnin fyrir framan eyðilagða byggingu eftir loftárásir Ísraela í borginni Rafah í suðurhluta Gasasvæðisins.
Rafah Kona stendur eins og steinrunnin fyrir framan eyðilagða byggingu eftir loftárásir Ísraela í borginni Rafah í suðurhluta Gasasvæðisins. — AFP/Sahid Khabib
Enn var atkvæðagreiðslu frestað í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í New York og á nú að kjósa um ályktun um Gasasvæðið í dag, fimmtudag

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Enn var atkvæðagreiðslu frestað í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í New York og á nú að kjósa um ályktun um Gasasvæðið í dag, fimmtudag. Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði í gær að hann væri vongóður um að niðurstaða myndi nást í atkvæðagreiðslu og þar væri útgangspunktur að tryggja neyðaraðstoð til svæðisins. Samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar kallar nýja ályktunin einnig eftir „stöðvun“ átaka.

Þöggun um þátt Hamas

Þegar hann var spurður um einhliða stuðning Bandaríkjanna við Ísraelsríki í deilunni svaraði hann því til að Bandaríkjamenn hefðu rætt við Ísraela um að lágmarka þjáningar almennra borgara í stríðinu, en neitaði því ekki að það væri erfitt að horfa upp á aðstæður fólks á Gasasvæðinu undanfarnar vikur. Hins vegar kallaði hann eftir því að fólk fordæmdi líka Hamas-hryðjuverkahópinn, sem hefði sannanlega hafið þetta stríð 7. október sl., og kallaði það „þöggun“ um þeirra þátt í þessu stríði.

Hann sagðist einnig vongóður um frekari samninga um lausn gíslanna, en Ismail Haniyeh, einn leiðtoga Hamas-samtakanna, fór í gær til Kaíró í Egyptalandi til að ræða um vopnahlé og skipti á gíslum fyrir fanga. Í eina vopnahléinu í stríðinu, sem Katar aðstoðaði við að koma á með aðstoð Bandaríkjanna og Egyptalands í síðasta mánuði, var 80 gíslum sleppt fyrir 240 Palestínumenn sem voru í fangelsum í Ísrael.

Vopnahlé ekki inni í myndinni

Það gæti þó verið borin von, því í gær lýsti forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú, því yfir að vopnahlé á Gasasvæðinu kæmi ekki til greina fyrr en búið væri að þurrka út Hamas-hryðjuverkahópinn. Hann sagði að það væri engin lausn fyrir Ísrael að geta átt von á áframhaldandi hryðjuverkum ef Hamas væri ennþá við stjórn. Ummæli hans komu í kjölfar heimsóknar Ismails Haniyehs til Kaíró í gær.

Hernámið kjarni vandans

Á sama tíma er talið að Haniyeh muni leggja áherslu á að stöðva stríðið svo hægt verði að semja um lausn gíslanna, samkvæmt ónefndri heimild AFP-fréttastofunnar. Þá kallaði Arababandalagið í félagi við Rússa eftir því að farið yrði fram á vopnahlé í gær, en fulltrúar þjóðanna funduðu í Marrakesh í Marokkó í gær.

„Vonir araba eru að Bandaríkin skilji að þolinmæði alþjóðasamfélagsins er fullreynd gagnvart aðgerðum Ísraels,“ sagði Hossam Zaki utanríkisráðherra Marokkós. „Hernámið er kjarni vandans,“ sagði Ahmed Aboul Gheit yfirmaður Arabandalagsins og bætti við að „sá sem er andvígur tafarlausu vopnahléi á Gasa er með blóð saklausra manna á höndum sér“.

Amnesty vill rannsókn

Á meðan leiðtogar heimsins funda heldur stríðið áfram. Samkvæmt tölum frá heilbrigðisráðuneyti Hamas er mannfall nú að nálgast tuttugu þúsund. Eldsneyti, vatn og sjúkragögn eru af skornum skammti og sjúkdómar breiðast út og samskipti hafa ítrekað rofnað. Talið er að 85% íbúa Gasasvæðisins séu á vergangi.

Amnesty International kallaði í gær eftir rannsókn á örlögum palestínskra fanga sem fluttir voru nauðugir frá Gasasvæðinu í fangabúðir til Ísraels. Hundruð Palestínumanna eru þar í haldi og Heba Moraeyef, svæðisstjóri Amnesty í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, segir í yfirlýsingu í gær að ísraelski herinn verði að upplýsa um afdrif þessara fanga. Yfirlýsing Amnesty kemur í kjölfar þess að á þriðjudag sagðist Ísraelsher vera að rannsaka dauða palestínskra fanga sem handteknir voru á Gasa eftir að myndskeið höfðu birst í ísraelsku sjónvarpi sem sýndi fanga við slæmar aðstæður.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir