Valgerður Ólöf Jónsdóttir fæddist í Geitafelli 1. nóvember 1928. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbrekku 11. desember 2023.

Foreldrar Valgerðar voru Jón Gunnlaugsson frá Geitafelli og Guðrún Gísladóttir frá Presthvammi. Börn þeirra sjö voru: Ásta, Oddný, Valgerður, Aðalbjörg, Helga, Baldur og Þórólfur. Baldur lifir systkini sín.

Valgerður ólst upp í Ystahvammi, heimili foreldra hennar. Valgerður giftist Jónasi Bjarnasyni, bónda og sjómanni frá Héðinshöfða, f. 17. mars 1932, d. 19. febrúar 2011.

Börn Valgerðar og Jónasar eru: Stefán, f. 1960, maki Rabina T. Russun, Jónas, f. 1962, maki Rósa G. Kjartansdóttir, þau eiga þrjú börn, Héðinn, f. 1964, maki Sigríður H. Lárusdóttir, þau eiga þrjú börn, og Hólmfríður, f. 1966, maki Bjarki Sigurðsson, þau eiga þrjú börn. Fyrir átti Valgerður dótturina Guðrúnu Guðmundsdóttur, f. 1951, maki Gísli Halldórsson, þau eiga þrjú börn.

Langömmubörnin eru 29 og afkomendur 46.

Valgerður og Jónas bjuggu öll sín búskaparár á Héðinshöfða. Valgerður flutti á hjúkrunarheimilið Skógarbrekku í mars 2020 og lést þar 11. desember sl.

Útför Valgerðar fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 21. desember 2023, klukkan 11.

Það er vor. Ég vakna við söng hrossagauksins og sest upp í rúminu, rúmfötin eru straujuð. Ég trítla fram í eldhús og þar situr amma Valla við eldhúsgluggann með ristað brauð og te. Ferna af Húsavíkurjógúrti með blönduðum ávöxtum bíður mín á borðinu ásamt skál og skeið. Mér líður vel.

Þessi minning er ein af mörgum góðum minningum mínum af ömmu Völlu. Ég átti alltaf í sérstöku sambandi við hana, en strax í barnæsku fann ég fyrir ákveðnum tengslum við hana sem erfitt er að útskýra frekar. Kannski skýrist það af því að í frændsystkinaröðinni voru bara strákar í kringum mig, og það kom því oft fyrir, þegar við vorum öll samankomin í sveitinni hér áður fyrr, að ég nennti ekki að leika við þá eða þeir ekki við mig. Þá var mjög gott að flýja inn til ömmu, sem alltaf tók mér opnum örmum, lék við mig, söng með mér, sýndi mér útsaum og dúka og stundum var meira að segja gripið í spil, þó að seinna hafi hún sagt mér að hún hefði nú aldrei haft sérstaklega gaman af því að spila. En ég held að af þessari ástæðu hafi ég átt alveg einstaklega margar góðar samverustundir með henni í barnæsku.

Amma var einstaklega góður bakari. Ósjaldan flæddi bakkelsi um bæði eldhús- og borðstofuborðið í Héðinshöfða og þar voru pönnukökurnar hennar í mestu uppáhaldi, en þetta var allt saman ósköp lítið og ómerkilegt að hennar mati. Amma var líka mjög fær í höndunum og reyndi oft að koma listahæfileikum sínum yfir á mig, reyndi að kenna mér að hekla, sauma og mála, en hafði ekki erindi sem erfiði.

Þegar ég var í menntaskóla átti ég mjög margar góðar samverustundir með ömmu. Þá var Subaru-inn reglulega fylltur af bensíni og haldið á rúntinn. Það komu bara fjórir staðir til greina, Tjörnes, Aðaldalur, Reykjahverfi eða Mývatnssveit. Þá var keyrt um sveitirnar og alltaf stoppað í kaffi einhvers staðar, oftast í Ystahvammi, Lækjarhvammi eða á Litlu-Reykjum. Þar tók á móti okkur skyldfólk með fermingarhlaðborð og ég naut þess að sitja til borðs með ömmu og hennar fólki og hlusta á þau tala um daginn og veginn og rifja upp æskuminningar sínar. Eftir menntaskólann flutti ég suður og þá hitti ég ömmu sjaldnar, en ég náði sem betur fer að bæta það upp síðustu fimm árin, eftir að ég flutti aftur norður, og fyrir það er ég þakklát.

Amma var alltaf fín og vel til höfð, en buxur fór hún nánast aldrei í, og gekk yfirleitt alltaf í pilsi og hælaskóm, hvort sem hún stóð í eldhúsinu eða var á leið út úr húsi, og þetta breyttist ekki þegar hún fór á Skógarbrekku. Hárið passaði hún alltaf vel upp á og var alltaf með spreybrúsa við höndina til að leggja hárið rétt, þó að hún væri bara á leið út á snúru. Heimili hennar og afa var líka mjög fallegt og hlýlegt og á hverju sumri sýndi hún mér fallegu rósirnar sínar sunnan við hús sem hún var svo stolt af, en rósir voru uppáhaldsblómin hennar.

Elsku amma Valla, takk fyrir allar góðu samverustundirnar. Ég mun sakna þín.

„En sama rósin sprettur aldrei aftur, þótt önnur fegri skreyti veginn þinn.“ (Guðmundur Guðmundsson).

Þín

Bryndís.