Umhverfisráðherra Náttúra á þessum slóðum er óvenjuleg og falleg, segir Guðlaugur Þór um Dali og aðstæður þar.
Umhverfisráðherra Náttúra á þessum slóðum er óvenjuleg og falleg, segir Guðlaugur Þór um Dali og aðstæður þar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þjóðgarður á þessu einstaka svæði vestur við Breiðafjörð er mjög áhugaverð hugmynd. Hvað svo verður gert ræðst af frumkvæði heimamanna og hvaða leiðir þeir vilja og velja

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Þjóðgarður á þessu einstaka svæði vestur við Breiðafjörð er mjög áhugaverð hugmynd. Hvað svo verður gert ræðst af frumkvæði heimamanna og hvaða leiðir þeir vilja og velja. Stuðningur ráðuneytisins við góðar hugmyndir sem af svæðinu koma er skýr,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu á dögunum var settur á laggirnar starfshópur á vegum ráðuneytis Guðlaugs Þórs sem samkvæmt erindisbréfi er ætlað að leita leiða sem eflt geta samfélagið í Dalabyggð. Er þá leitað hugmynda í verkefnum á áherslusviði ráðuneytisins og af nægu er að taka. Bollaleggingar um þjóðgarð eru aðeins eitt af mörgu.

Virkja sjávarföll og efla ferðaþjónustu

„Virkjun vinds og sjávarfalla, jarðhitaleit, aukið afhendingaröryggi, hringrásarhagkerfi, nýjar og umhverfisvænar áherslur í landbúnaði og ferðaþjónustu. Þetta og fleira verður skoðað af starfshópnum sem á að skila tillögum um miðjan mars á næsta ári. Ég vænti mikils af því starfi sem nú er hafið,“ segir ráðherra við Morgunblaðið.

Svæðið sem nú stendur til að skoða með tilliti til stofnunar þjóðgarðs nær yfir Fellsströnd, Klofning og Skarðsströnd sem liggja að Breiðafirði. Víða á þessum slóðum er talsvert skóglendi sem nær frá fjalli til fjöru. Ýmsir sögustaðir eru á svæðinu, svo sem Hvammur, Staðarfell og Skarð á Skarðsströnd, en þar á bæ hefur sama ættin setið síðan á 11. öld. Úti fyrir Klofningsnesi eru Klakkseyjar, þar sem Eiríkur rauði hafði viðdvöl áður en hann lagði í haf áleiðis til Grænlands og svo til vinninga í vestri. Þarna eru með öðrum orðum rætur landafunda norrænna manna í Ameríku.

„Ég fór nýlega um þetta fallega svæði í Dölunum í fyrsta sinn og er heillaður. Náttúran á þessum slóðum er óvenjuleg og falleg. Þjóðgarður á þessum slóðum kemur vel til greina og gæti eflt svæðið. Á dögunum fór fólk úr Dölum og kynnti sér starfsemi Snæfellsnessþjóðgarðs sem hefur breytt miklu þar á nesinu og eflt margt. Vinna við stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum, sem ná myndi yfir Vatnsfjörð, Dynjanda og Hrafnseyri, þokast áfram. Og nú horfum við í Dalina, þar sem ýmis tækifæri gætu leynst. Allt tekur þetta sinn tíma í starfi þar sem samráð við heimafólk verður að ráða,“ segir Guðlaugur Þór.