Þuríður Ólafsdóttir, Dússý, fæddist í Reykjavík 19. febrúar 1935. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut í Reykjavík 12. desember 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Ólafur Þórðarson, vélstjóri og rafvirki, f. 30. janúar 1911 í Reykjavík, d. 1. janúar 1996 í Vestmanneyjum, og Jóna Pálsdóttir, f. 24. júlí 1913 á Skúmstöðum, Eyrarbakka, d. 27. október 1942 í Reykjavík.

Alsystur Þuríðar eru: Þuríður, f. í október 1933, d. í mars 1934, og Ásta, f. 1936. Systkini sammæðra eru: Sverrir Gíslason, f. 1931, d. 2015, og Ásthildur Sigurðardóttir, f. 1940. Faðir Þuríðar, Ólafur, kvæntist Önnu Svölu Árnadóttur Johnsen frá Vestmannaeyjum, f. 1917, d. 1995, árið 1941. Við andlát móður Þuríðar tóku hjónin hana að sér. Börn þeirra eru: Árni Óli, f. 1945, d. 2021, Jóna, f. 1946, d. 2008, og Margrét Marta, f. 1960.

30. ágúst 1958 giftist Þuríður Jóni Svan Sigurðssyni prentsmiðjustjóra, f. 1931, d. 2017. Einkadóttir þeirra er Svala Hrönn, f. 1959, gift Sverri Salberg Magnússyni, f. 1958. Börn þeirra eru: 1) Jón Svan, f. 1981, maki hans er Sigurbjörg Magnúsdóttir. Dóttir þeirra er Svala, f. 2012. 2) Þuríður, f. 1984, maki hennar er Andri Þór Sturluson. Dóttir Þuríðar er Bríet Katla Einarsdóttir, f. 2010. Börn Þuríðar og Andra eru: Jörfi, f. 2014, Björt, f. 2015, og Sverrir Styrkár, f. 2021. 3) Salbjörg Kristín, dýralæknir í Noregi, f. 1994, maki hennar er Hilmar Yngvi Birgisson.

Þuríður fæddist í húsi föðurömmu sinnar á Njálsgötu 37 og bjó þar ásamt foreldrum sínum og ömmu fyrst um sinn. Árið 1937 skildu foreldrar hennar og flutti þá Jóna ásamt börnum sínum að Eyrarbakka. Síðar dreifðist systkinahópurinn en Þuríður flutti ásamt móður sinni aftur til Reykjavíkur. Jóna féll frá 1942 þegar Þuríður var aðeins sjö ára gömul. Hún hélt þá til Vestmannaeyja til föður síns og Svölu konu hans, sem gekk henni í móðurstað. Í Eyjum tók stórfjölskyldan henni opnum örmum og myndaði hún sterk tengsl við staðinn og fólkið þar sem héldust alla tíð.

Sautján ára gömul fluttist Þuríður til Reykjavíkur í vist til föðurbróður síns og vann í kjölfarið hin ýmsu störf, þar á meðal við saumaskap, afgreiðslu og innheimtu. Hún kynntist Jóni Svan Sigurðssyni setjara ung að árum en þau giftust árið 1958 og ári síðar fæddist þeim einkadóttir þeirra, Svala Hrönn. Þau hjónin ráku saman Prímapylsur við Nýja bíó og gerði sá rekstur þeim kleift að kaupa sína fyrstu prentvél. Prentsmiðjan Svansprent hóf rekstur 1967 og ráku þau hjónin fyrirtækið í sameiningu þangað til Þuríður varð sjötug. Þá fannst henni kominn tími til að beina kröftum sínum að öðrum hugarefnum.

Hún ræktaði frændgarðinn vel og tók öflugan þátt í ýmsu félagsstarfi, þ. á m. í Kvenfélaginu Hringnum og Kvenfélaginu Heimaey. Seinni ár var hún virkur meðlimur Garðakórsins. Tilkoma samfélagsmiðla opnaði henni svo ný tækifæri til að rækta gömul tengsl og mynda ný á jákvæðan og uppbyggjandi hátt.

Þuríður verður jarðsungin frá Vídalínskirkju í dag, 21. desember 2023, klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni.

Virkan hlekk má finna á: www.mbl.is/andlat

Elsku amma mín leit lífið alveg einstökum augum. Sem lítil stúlka gekk hún í gegnum ansi margt og ekki nema sjö ára gömul missti hún móður sína. Þegar amma var áttræð gaf hún út minningakver um æskuár sín og varpaði sínu einstaka ljósi á bernskuna og móðurmissinn. Hún setti lesendur inn í hugarheim barns í Reykjavík árið 1942 þegar hún flutti með pabba sínum sem hún þekkti ekkert og nýju konunni hans, Svölu sem gekk henni í móðurstað, alla leið til Vestmannaeyja. Í Suðurgarði var fjöldinn allur af fólki, amma bara á áttunda ári og þekkti ekki sálu í húsinu. Hún talaði oft um hugrekkið sem Svala sýndi, einungis 25 ára gömul að taka hana að sér við þessar aðstæður. Amma mín var ekki síður hugrökk lítil stúlka á þessum tíma þegar myrkrið og sorgin var við það að buga hana. Ástin og hlýjan sem hún fékk í Eyjum var henni algjör lífsbjörg og mótaði hennar lífsviðhorf til frambúðar. Þetta viðhorf fengum við fjölskyldan svo í vöggugjöf.

Amma var vinamörg og ræktaði sambönd sín af mikilli kostgæfni. Hún kom sér vel fyrir hvar sem hún fór með ljúfri nærveru og umvafði alla sem henni þótti vænt um miklum kærleika. Rétt eins og langamma mín Svala hafði amma nægt hjartarúm fyrir öll börn sem tengdust henni á einn eða annan hátt. Við fjölskyldan erum afar fá og samheldni okkar er engin tilviljun. Amma hafði stórbrotið lag á því að sjá fegurðina í hversdagsleikanum og allt fram á síðasta dag náði hún að skapa fallegar fjölskylduminningar.

Orð ömmu hittu mig oft beint í hjartastað. Hún hafði alveg sérstakt lag á tungumálinu, náði með fáeinum orðum að fanga flestallar tilfinningar og setja hlutina í fallegt samhengi. Eins og hún sjálf, sem fór á Njálsgötuna til ömmu sinnar og nöfnu að sækja sér styrk, gerði ég það nákvæmlega sama þegar ég kom á Strandveginn til hennar. Auðvitað hélt hún að ég væri einungis að koma til að hjálpa henni með hitt og þetta, en svo var nú aldeilis ekki raunin. Amma færði mér einstaka hlýju inn í daginn og veitti mér ofurkrafta til að takast á við lífið.

Elsku amma mín, ég ber nafn þitt með miklu stolti og áhrif þín eru yfir og allt um kring í minni tilveru. Það er sárt að sakna en gleðin er aldrei langt undan því góðar minningar um allt það sem þú gafst mér verma hug og hjarta.

Guð geymi þig og afa í eilífðinni, ég veit að þú stendur við orð þín um að vaka yfir mér.

Þín nafna,

Þuríður (Dússý).

Þuríður Sverrisdóttir.

Dússý frænka var einstök gæðamanneskja sem dreifði kærleika og jákvæðni á allt sitt samferðafólk. Við systkinin vorum alltaf stolt af athafnafólkinu Dússý og Svan. Ófá skiptin heimsóttum við þau í Svansprent, sem þau höfðu byggt upp með tvær hendur tómar, en er nú ein myndarlegasta prentsmiðja landsins.

Um tíma rak Dússý einnig pylsubar í Austurstræti. Þar fengum við bræður það verkefni að þrífa portið við pylsubarinn. Sem aukabónus bauð frænka upp á pylsu að vinnu lokinni. Þetta voru einhverjar þær bestu pylsur sem við höfðum smakkað.

Nú þegar athafnahjónin Dússý og Svan hafa kvatt horfum við

frændfólkið stolt á afkomendur þeirra fylgja í fótspor þeirra og standa að fjölbreyttri athafnasemi með sama myndarskap og gleði sem einkenndi alla tíð lífsstarf hjónanna.

Við Halldóra kveðjum einstaka manneskju og minnumst góðvildar hennar og lífsgleði. Innilegar samúðarkveðjur til Svölu Hrannar og allrar fjölskyldunnar. Megi góður guð geyma minningu Dússýjar frænku.

Þór Sigfússon.

Hjónin Þuríður Ólafsdóttir og Jón Svan Sigurðsson, Dússý og Svan, voru eins konar vörumerki í hæsta gæðastaðli. Svan lést 11. desember 2017 og 12. desember sl. barst okkur sorgarfregn af andláti Dússýjar.

Eftir móðurmissi ólst Dússý upp hjá föður sínum Ólafi Þórðarsyni og seinni konu hans Önnu Svölu Johnsen í Vestmannaeyjum, fyrst niðri í bæ og síðar fyrir ofan hraun, í Suðurgarði. Þetta varð til þess að Bubba, móðir þeirrar sem þetta skrifar, kynntist Dússý. Þær urðu frænkur, nágrannar og ævarandi vinkonur.

Stutt leið var á milli Dússýjar í Suðurgarði og Bubbu í Þorlaugargerði eystra, og Gunna, mamma Bubbu, fór daglega og oftar en ekki með börnunum Bubbu, Sigurgeir og Önnu yfir túnin að æskuheimili sínu Suðurgarði. Fyrir ofan hraun var stundaður sjálfsþurftarbúskapur auk fugla- og eggjatöku um vor og sumur. Mannlífi Ofanbyggjara lýsir Dússý vel í kverinu sem hún tók saman um bernskuárin.

Með foreldrum mínum, Bubbu og Garðari, og Dússý og Svan ríkti djúpstæð vinátta sem ekkert fékk haggað.

- Enga er eins gott að heimsækja og Dússý og Svan, sögðu foreldrar mínir alltaf og minnast þess enn. Skilyrðislaus vináttan byggðist á svipuðum forsendum og viðhorfum; verslunarmaðurinn Garðar og prentarinn Svan voru Eyfirðingar, húsmæðurnar Bubba og Dússý voru Ofanbyggjarar og Vestmannaeyingar. Áhugamálin voru framan af átthagarnir, laxveiði, golf, bissness, fjölskyldan, stórfjölskyldan, já og samveran í sinni fegurstu mynd.

Dússý og Svan voru barnagælur og við systkinin fengum sannarlega að njóta þess í glaðværðinni á Ljósvallagötunni með Svölu Hrönn og kettlingnum ImbaPimba, sem hakkaði í sig vínber á meðan við borðuðum yfir okkur af dönskum vínarbrauðum úr Björnsbakaríi í morgunmat.

Príma-pylsur í porti Nýja bíós tóku allt með trompi og á þjóðhátíðum úti í Eyjum afgreiddi Dússý Príma-pylsur ofan í allan Dalinn með sólbrúna vanga og sumar í augum. Svansprent dafnaði og blómstraði gegnum árin með ómældri vinnusemi þeirra beggja og vex enn með hæfni fjölskyldumeðlima og starfsliðs.

Dússý var gyðja og fyrirmynd kvenhetju: Dugnaðarforkur, ósérhlífin, félagslynd, umhyggjusöm, ástúðleg, glaðlynd, brosmild, blíðlynd, skilningsrík, vandvirk, handlagin, gestrisin og gjafmild.

Dússý var bókhneigð og ljóðelsk, stundaði tónleika og kórsöng, lét sér annt um alla, mátti ekkert aumt sjá, var fyrst til að fyrirgefa og efna til sátta.

Dússý var hvers manns hugljúfi og það birti yfir samkomum þegar Dússý sté í stofu. Fagurkerinn Dússý gat laðað fram fegurð lífsins og framkallað fegurðina í hjarta allra þeirra sem á vegi hennar urðu af slíkum innileika að samveran glitraði.

Við minnumst Dússýjar og Svans með þakklæti og leyfum minningunum að leiða okkur áfram í lífsgleði, ást og friði. Fjölskyldu og ástvinum færum við okkar samúðarkveðjur.

Fyrir foreldra mína Ingibjörgu Jónsdóttur og Garðar Arason, systkinin Gunnu, Friðrik, Fríðu, Sirrý og fjölskyldur.

Guðrún Garðarsdóttir.