Jólabarn Þorkell Guðfinnsson skreytir mikið í kringum sig.
Jólabarn Þorkell Guðfinnsson skreytir mikið í kringum sig. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Víða er hefð fyrir því að setja upp jólaskreytingar á aðventunni en Þorkell Guðfinnsson hefur ekki biðlund svo lengi. „Ég hef verið jólabarn frá upphafi, bíð eftir jólunum, byrja að skreyta í byrjun nóvember en er ekki með jólin lengur en rétt …

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Víða er hefð fyrir því að setja upp jólaskreytingar á aðventunni en Þorkell Guðfinnsson hefur ekki biðlund svo lengi. „Ég hef verið jólabarn frá upphafi, bíð eftir jólunum, byrja að skreyta í byrjun nóvember en er ekki með jólin lengur en rétt fram yfir þrettándann, þá byrja ég að taka dótið niður,“ segir Þorkell Guðfinnsson.

Þegar inn í íbúðina er komið hjá þessum eldri borgara blasa skreytingarnar við hvert sem litið er. Jólahús, ljós og hvaðeina sem tengist jólum, í öllum regnbogans litum. „Ég er líka með jólasveina á klósettsetunni,“ upplýsir hann og lýsir upp stemninguna. Uppsetningin er greinilega margra daga verk og Þorkell segir að hann haldi sér í líkamlegu formi og styrki sig reglulega með eldri borgurum. „Ég er í Virkni og vellíðan, gamalmennaleikfimi hér í Kópavoginum.“

Bætir við á hverju ári

Þorkell er frá Vestmannaeyjum og þar hófu þau Edda Snorradóttir, sem var frá Þórshöfn, búskap saman 1971, en fluttu upp á land eftir gosið 1973. „Ég var svo lánsamur að konan var jólabarn líka,“ segir hann en eftir að hún lést 2010 hafi hann haldið áfram uppteknum hætti, ekki síst fyrir börnin og barnabörnin. „Þetta hefur aukist ár frá ári,“ heldur hann áfram, en ætla má að erfitt verði að bæta við úr þessu.

Frá Eyjum lá leið ungu hjónanna í Voga á Vatnsleysuströnd, þar sem þau bjuggu í þrjá mánuði. „Þá ætluðum við að skjótast til Þórshafnar, en vorum þar í 23 ár, fluttum til Reykjavíkur 1995,“ segir Þorkell. Jólaskreytingarnar hafi byrjað fyrir austan en í smáum stíl. „Þar vorum við fyrst og fremst með músastiga úti um öll loft.“ Alvaran hafi í raun tekið öll völd eftir að þau fluttu í Núpalind í Kópavogi 2005. „Hér hófst jólafjörið.“

Jólaskrautið er geymt í 15 stórum plastkössum auk þess sem jólahúsin tólf eru hvert í sínum kassa. „Ég byrja á því að skreyta skenkinn í stofunni, set „snjó“ á plötuna og raða síðan nokkrum jólahúsum, trjám og ýmsu öðru í plássið.“ Amerísku jólasveinarnir eigi sinn stað í gluggum og víðar. „Ég dreifi stórum og smáum ljósahúsum og kirkjum á alla borðfleti hjá mér, set jólaseríur í glugga og hengi upp jólagardínur í eldhúsið.“

Þorkell starfaði hjá Pósti og síma í Eyjum frá 1967 til 1973, en var svo fulltrúi í kaupfélaginu á Þórshöfn og síðar starfsmaður hjá sparisjóðnum. Eftir að þau fluttu suður vann hann hjá Íslenskum sjávarafurðum og síðan hjá Sambandi íslenskra fiskframleiðenda. Þaðan lá leiðin í Osta- og smjörsöluna og Mjólkursamsöluna eftir sameiningu fyrirtækjanna. „Þar var ég í 20 ár og lauk starfsferlinum.“

Þorkell segir að undanfarin ár hafi hann sagt við börnin og barnabörnin að nú væri komið nóg, en enginn hafi tekið undir það. „„Já, já, við höfum heyrt þetta oft,“ segja þau, „en þegar fer að nálgast október fer pabbi gamli að huga að þessu á ný.“ Þau vilja að ég bæti stöðugt í og eru svo sannarlega til í að hjálpa mér. Það fá þau ekki. Ég vil dunda mér aleinn við þetta og leyfa þeim svo að sjá herlegheitin þegar allt er tilbúið.“