Átakanleg „Vöggudýrabær segir átakanlega og afar persónulega sögu,“ segir um ljóðabókina.
Átakanleg „Vöggudýrabær segir átakanlega og afar persónulega sögu,“ segir um ljóðabókina. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljóð Vöggudýrabær ★★★★· Eftir Kristján Hrafn Guðmundsson. Bjartur, 2023. Innbundin, 88 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Vöggudýrabær hefst á minningu ljóðmælandans, sögumannsins, um sjónvarpsmynd um rúmensk börn sem bönkuðu höfði í vegg á munaðarleysingjahælum. Minninguna tengir hann við átakanlegt viðfangsefni bókarinnar: „Líklega voru börnin ekkert kölluð. Einungis númer á / blaði ef það. Ef ekki einfaldlega eyða í gögnum stjórnvalda, / einsog mamma í gögnum vöggustofa Reykjavíkur fjörutíu / árum fyrr og fram á þennan dag“ (9).

Höfundurinn Kristján Hrafn Guðmundsson er bókmenntafræðingur að mennt og bókina tileinkar hann móður sinni og ömmu. Hann segir þetta vera ljóðsögu og segir hún í ljóðrænu formi, og í fjórum hlutum, átakanlega og erfiða sögu þeirra mæðgna. Fyrir miðju er tveggja ára dvöl móður hans á svokallaðri vöggustofu í Reykjavík um miðja síðustu öld en þær hafa mjög verið í umræðunni á undanförnum misserum, vegna grimmdarlegrar meðferðar á börnunum
sem voru geymd í rimlarúmum og fóru á mis við alla hlýju og snertingu. „Afplánun tók tvö ár. Afleiðingar stóðu ævina á enda,“ segir ljóðmælandinn sem í verkinu veltir fyrir sér hvernig þetta gat átt sér stað. Hann bætir við: „Hvað gerðist þessi ár veit mamma ekki. Hvað gerðist vegna þessara ára veit mamma vel“ (11).

Í ljóðsögunni rekur höfundurinn með endurliti sögu móður sinnar í fjórum hlutum og heiti þeirra endurspegla leik með tilvísanir í önnur bókmenntaverk og orðaleiki sem gengur gegnum verkið. Í fyrsta hlutanum, „Þyngdvellir“, hefst frásögnin í júlí 1948 þar sem amman, „leitandi fljóð úr Öxney sem lét ævintýraþrá teyma sig til Þingvalla sumarlangt“, er í sumarvinnu í hótelinu Valhöll þar sem kvæntur kokkurinn barnar hana. Og unga konan er ein látin bera ábyrgð á þessu vaxandi lífi, þyngingunni frá Þingvöllum. Kokkurinn sjálfan sig „dæmdi í útlegð, frá / ábyrgð á ávexti þeim sem nú óx í Mjóuhlíðarmóður. // En eitt dæmið um sáðmann sem leikur sér og lausum hala“ (16). Og dóttirin fæðist í apríl, og er vísað til T.S. Eliots sem sagði þann mánuð grimmastan, og líka til þess að barnið fæddist rétt eftir inngöngu þjóðarinnar í NATO, „stúlkan stór líktog atburðirnir á Austurvelli þrettán dögum / áður […] / Orrustan sem kölluð var líf var hafin“ (19). Og fyrir einstæða og stuðningslausa móður í baráttu fyrir tilverunni bauð borgin henni að setja barnið á „vöggustofu“, og ljóðmælandinn tekur þá að leika með vísanir í Tímann og vatnið eftir Stein Steinarr: fyrir ömmuna var valið sem hún stóð frammi fyrir eins og „vatnið / og vatnið er steinn og sleggja / einsog skel vitundar minnar“ (27).

Í öðrum hlutanum, „Tíminn og vaggan“, er unnið áfram með markvissum hætti með vísanir í ljóðabálk Steins. Þessi hluti er kjarni bókarinnar og áhrifaríkasti hlutinn. Skáldið teiknar rimlarúmið, búr barnsins úr orðum, með aðferð konkretljóðskálda. Tíminn og kuldinn sem ríkir á íshvítri stofnuninni er táknaður með endurtekinni klifun, þar sem klukka tikkar, síðu eftir síðu, og spurningar eru endurteknar, um ástæður þessarar meðferðar á börnunum, og grimmdina gagnvart þeim og mæðrunum sem einu sinni í viku máttu bara sjá börnin gegnum gler. Engin snerting, engin hlýja. Ljóðmælandinn spyr hvort það hafi verið fólk eða dýr sem lét þetta viðgangast, og vísar í Dýrabæ Orwells, spyr hvort þetta hafi verið vöggu-dýra-bær? Og loksins, eftir þau tvö ár sem mæðgurnar voru aðskildar, „hófst framhaldsnám í skaðaminnkun“ (56).

Þriðji hluti verksins, „Konungrarríki“, fjallar um lífshlaup móður ljóðmælandans og hefst með orðunum „Kvíði, óöryggi, tortryggni; / grunnlitir málverks með titlinum „Lífshlaup““ (59), orðum sem endurtekið eru tengd þeim skorti á trausti og tengslum sem dvöl barnsins í búrinu olli. Stiklað er gegnum líf í baráttu, tveir drengir með tveimur mönnum, alkóhólismi kemur við sögu, og ýmsar vísanir í bókmenntir undirbyggja erfiða stöðuna og tilfinningar, eins og sýnir vísun í heiti skáldsögu eftir Eirík Guðmundsson: „Löng yrði ritgerð sársauka mömmu sem þessu fylgdi“ (67).

Í lokahluta bókarinnar, „Hljóðnaklettar“, þarf móðirin að standa yfir gröf frumburðar síns sem lenti í öðru búri en hún, „tókst ekki að brjóta / sér leið úr búri / Bakkusar“ (77), og svo veikist hún sjálf og hverfur eftirlifandi syninum, ljóðmælandanum, sem lýsir því með áhrifaríkum hætti:

Að venjast móður án máls

er kannski ekki ósvipað því hvernig verður

að venjast Íslandi án jökla

Og hann líkir móðurinni líka við fjall sem missti málið og hún hverfur inn í þögn, „kaldhæðnislega kunnuglega / úr æsku“ (82), það er þögn vantrausts og brotinna tilfinninga barns sem geymt var í búri.

Vöggudýrabær segir átakanlega og afar persónulega sögu sem Kristján Hrafn hefur valið athyglisvert og áhrifaríkt form sem oftast gengur vel upp. Í þessari ljóðsögu er stiklað á stóru yfir líf ömmunnar í byrjun og móðurinnar í seinni hlutanum en meginkaflinn, sem er best skrifaður og mjög þéttur, lýsir grimmri stofnuninni þar sem börnin voru geymd í þessum svokölluðu „vöggustofum“; „„Stofurnar“ mæti kannski kalla forsmekk að rúmensku / hælunum“ segir í byrjun bókarinnar þar sem meðferð á munaðarleysingjum úti í heimi, sem vakti andstyggð hér sem annars staðar, er líkt við það tilfinningalausa og grimma kerfi sem viðgekkst hér um árabil, þar sem börn voru dæmd til tilfinningaskertrar vistunar fjarri mæðrum sem börðust erfiðri baráttu fyrir lífinu.