Brjóstmyndir „Andlit til sýnis er í senn krefjandi og ögrandi aflestrar, en einkar áhugaverð,“ segir rýnir.
Brjóstmyndir „Andlit til sýnis er í senn krefjandi og ögrandi aflestrar, en einkar áhugaverð,“ segir rýnir. — Ljósmynd/Kristín Loftsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fræðirit Andlit til sýnis: Íslendingar og aðrir á Kanarísafninu ★★★★· Eftir Kristínu Loftsdóttur. Sögufélag, 2023. Innb., 328 síður, skrár, enskur útdráttur.

Bækur

Sölvi

Sveinsson

Í inngangi segir höfundur: „Brjóstmyndirnar fyrir framan mig … eru afsprengi gifsmóta sem voru búin til á Íslandi árið 1856. Þessi bók fjallar um tilurð og samhengi brjóstmyndanna og hvernig þær urðu hluti af safnkosti á þremur stöðum: í Frakklandi, á Kanaríeyjum og meginlandi Spánar“ (9). En þetta er einungis yfirborðið: „Í þessari bók nota ég brjóstmyndirnar til að varpa ljósi á söguleg tengsl milli ólíkra heimsálfa og rek ástæður þess að finna má brjóstmyndir af fólki frá ólíkum heimshornum samankomnar á Kanaríeyjum“ (14). Allt tengist þetta landafundum (eða „hernámi“ Evrópubúa (21, 27)), kynþáttahyggju, vísindaleiðöngrum, stjórnmálum, nýlendustefnu, þrælasölu o.fl. Meira að segja koma loftslagsmál við sögu (21, 23, 26, 167, 268), óþekkt hugtak fyrr á tíð. Hér er fjallað um „furðustofur“ (m.a. 32-33) efnaðra manna á meginlandi Evrópu o.v. þar sem fólk var „til sýnis“, ýmist vegna afbrigða í líkamsvexti (Jóhann risi, Ólöf Sölvadóttir; þau voru að vísu á vegum fjölleikahúsa) eða var ólíkt heimamönnum; „frumbyggjar“ frá ókunnum slóðum. (Að breyttu breytanda er Gísli á Uppsölum grein af sama meiði). Það sem er ,framandi‘ kallar á athygli. Auk þess var safnað verkfærum, gripum og líkamspörtum (hrollvekjandi dæmi mörg, t.d. 216). Furðustofurnar eru grunnur að glæsilegum söfnum nútímans (16, 71).

Krufningar voru í senn læknisfræðilegar og til að ,skemmta‘ þeim sem gátu borgað sig inn; í mörgum borgum voru sérstök „krufningaleikhús“ (75) og hörð samkeppni var um líkin. Augljóst er að yfirráð og atferli Evrópubúa víðs vegar um veröld öldum saman hafa fremur valdið nútímamönnum sársauka og vandræðum en farsæld. Sóknin í auðlindir var harður hvati (269). Sumir skammast sín (30) og skrifa þá söguna með sólgleraugum til að hlífa nýjum kynslóðum við óhugnaðinum. Í krafti kynþáttahyggjunnar sýndu hvítir menn öðrum kynþáttum ótrúlega grimmd (23 o.áfr.). Evrópskir sjúkdómar drápu fleiri en byssukúlur, nokkrar pestir fluttu landvinningamenn síðan með sér heim og hrjá enn landslýð. En ávinningurinn var kannski einkum sá að ræktun margvíslegra jurta færðist milli heimsálfa og margfaldaðist; hveiti, rúgur, maís, sykur að ógleymdum kartöflum (27) o.s.frv.

Í krafti kynþáttahyggju var fólki skipað í goggunarröð þar sem hvítir karlar trónuðu á toppnum, þeldökkar konur skipuðu neðsta sætið; hvítar konur sátu líklega á bekk með þeldökkum körlum. „Höfuðlagsfræði“ urðu vinsæl síðla á 18. öld, kostuleg fræðigrein (60 o.áfr.); tengsl áttu að vera milli höfuðlags og persónueinkenna (60 o.áfr.). Þessu tengdust mannkynbætur; margir jaðarsettir voru gerðir ófrjóir. Sú stefna náði hingað út. Samið var frumvarp um vananir og greinar skrifaðar í blöð og tímarit; ýmsir gengust undir aðgerð, sumir óafvitandi.

Landkönnuðir o.fl. létu móta brjóstmyndir af því fólki sem bjó þar sem þeir stigu á land; flestar gerðar um miðja 19. öld (264). Þær voru „hvort tveggja listmunir og vísindaleg gögn“ (137). Fjölmargar myndir eru af þessum líkneskjum í bókinni og má glögglega greina að mörg eru afar vel gerð (128, 138, 198, 240 o.fl.). Saga einstaklinganna sem myndaðir voru með þessum hætti er rakin eftir því sem heimildir leyfa og eru það býsna fjölbreyttar frásagnir, enda kemur við sögu fólk frá mörgum þjóðlöndum og úr margvíslegum hópum. Í þessum sögum blasa við margvíslegir fordómar, niðurlæging, útskúfun og deilur fræðimanna, svo nokkuð sé nefnt. Við fyrsta lestur virðist þetta óreiðukennt efni, en umfjöllun höfundar límir þetta saman svo úr verður einkar læsileg frásögn, blanda af mannfræði, sögu og persónulegri túlkun; ferill Bjarna Johnsens er t.d. einkar áhugaverður (180 o.áfr.). Í nokkrum frásögnum er lýst örlögum „frumbyggja“, t.d. indjána, Eldlendinga, Grænlendinga. Víða er nótin dregin til nútímans.

Andlit til sýnis er í senn krefjandi og ögrandi aflestrar, en einkar áhugaverð; hér er mikil saga hnituð í kringum brjóstmyndir. Þar haldast í hendur fjörlega skrifað meginmál og afar áhugaverður og merkilegur myndabálkur með ríkulegum texta. Útlit bókar er mjög of hið sama smekklega far og Farsóttar sem Sögufélag gaf út í fyrra; á breiðum spássíum eru margir myndatextar, leturstærð þægileg. Prófarkalestur er vandaður; rýnir hnaut einungis um ,nokkra‘ í stað nokkurra (139) og eina ranga línuskiptingu (151).