Ástríðukokkurinn Maria Jimenez Pacifico á góðar bernskuminningar frá jólunum í Kólumbíu þar sem hún lærði af mömmu sinni að elda tamales sem lítur út eins og gjöf frá matarguðunum.
Ástríðukokkurinn Maria Jimenez Pacifico á góðar bernskuminningar frá jólunum í Kólumbíu þar sem hún lærði af mömmu sinni að elda tamales sem lítur út eins og gjöf frá matarguðunum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hún heldur í jólaminningarnar frá bernsku sinni í Kólumbíu þar sem siðir og hefðir eru öðruvísi en á Íslandi. Um jólin er til að mynda hefð fyrir því að matreiða tamales sem er kólumbískur frumbyggjajólamatur sem á sér langa sögu

Sjöfn Þórðardóttir

sjofn@mbl.is

Hún heldur í jólaminningarnar frá bernsku sinni í Kólumbíu þar sem siðir og hefðir eru öðruvísi en á Íslandi. Um jólin er til að mynda hefð fyrir því að matreiða tamales sem er kólumbískur frumbyggjajólamatur sem á sér langa sögu.

„Jólin í Kólumbíu eru tíminn þar sem fjölskyldur koma saman, þau eru svipuð jólunum á Íslandi nema þar eru jólin bara rauð en ekki hvít jörð eins og við Íslendingar getum vænst en þó eru undantekningar frá því og jólin okkar eru þá rauð eins og í Kólumbíu. Ég verð að játa að uppáhaldsjólin mín eru hér heima á Íslandi þar sem snjórinn, ljósin og kuldinn gefa töfrandi blæ eins og í jólamyndunum sem ég horfði á sem barn frá fjarlægri sólríkri Kólumbíu,“ segir Maria dreymin á svipinn.

Jólagjafirnar eingöngu fyrir börn

Maria segir að hefðirnar kringum jólahaldið í Kólumbíu séu ólíkar þeim sem eru viðhafðar á Íslandi. „Eftir því sem ég man frá barnæsku minni voru jólagjafirnar eingöngu fyrir börn og fjölskyldan mín í Kólumbíu kenndi mér að einmitt á þessum tíma ætti ekki að huga að efnislegum gjöfum heldur þakklætistilfinningunni fyrir allar þær blessanir sem við höfum, þar sem mörg heimili í Kólumbíu og í heiminum búa ekki öll við þann lúxus að hafa mat á borðum sínum.“

Bananablöðin einkennandi fyrir tamales

Einn ákveðinn réttur sem á sér langa sögu er ávallt á boðstólum hjá mörgum fjölskyldum um jólin í Kólumbíu. „Tamales á komandi jólatímanum er réttur sem má ekki vanta á borð margra fjölskyldna í Kólumbíu, og þá sérstaklega við strendur Karíbahafsins, en í flestum löndum Suður-Ameríku er tamales hluti af matargerð hvers svæðis. Þess vegna langar mig við deila með ykkur hvernig á að elda dýrindis ekta kólumbískt tamales. Í Kólumbíu er mikið úrval af tamales-uppskriftum, þær heita mismunandi nöfnum eftir svæðum og þeim hráefnum sem eru notuð, en á endanum hafa þær flestar eitt einkennandi, bananablöðin. Kólumbískt tamales er venjulega búið til með kjúklingi og svínakjöti, en það er líka hægt að nota bara kjúkling eða nautakjöt. Ég elda þessa uppskrift að kólumbísku tamales með mömmu minni sem deildi með mér uppskrift sem hún lærði hjá afa sínum. Uppskriftin hefur því fylgt fjölskyldunni í áratugi og við höldum áfram að deila henni áfram um ókomna tíð. Það getur verið mjög tímafrekt fyrir marga að undirbúa tamales, ef þið fylgið hverju skrefi verður það mjög fljótlegt og auðvelt. Tamales lítur út eins og gjöf frá matarguðunum,“ segir Maria að lokum.

Kólumbískt tamales með
kjúklingakjöti og svínakjöti

500 g bananalauf

1 spóla eldhúsgarn

500 g forsoðið maísmjöl

3 gulrætur, sneiddar

1 kg kjúklingur (leggir, úrbeinuð læri, bringur eða lundir)

1 kg svínahnakkar skornir í teninga

vatn eftir þörfum, þarf mikið vatn

salt eftir smekk

kúmenduft eftir smekk

6 stk. vorlaukur

4 hvítlauksrif, afhýdd

3 tómatar, skornir í bita

1 laukur

5 lárviðarlauf

2 msk. gulur matarlitur

Byrjið á því að marínera kjúklinginn og svínahnakkana. Setjið saman saxaðan vorlauk, hvítlauksrif, matarlit, kúmenduft, eina teskeið af salti og fimm lárviðarlauf í blandara. Blandið öllu mjög vel saman og bætið við skvettu af vatni. Þegar blandan er tilbúin setjið kjúkling og svínakjötið í gott ílát og hellið blöndunni yfir, þannig að blandan nái vel utan um kjötið. Látið kjötið hvíla í að minnsta kosti 1 klukkustund. Setjið 1 matskeið af ólífuolíu á pönnu og hitið vel. Bætið við tómötum og söxuðum lauk og látið steikjast þar til laukurinn hefur fengið gylltan og örlítið gagnsæjan tón. Kryddið til með smá salti eftir smekk og takið til hliðar þegar þetta er tilbúið.

Tamale-deigið

Byrjið á því að setja maísmjöl í ílát, bætið við smá salti og tveimur bollum af volgu vatni. Blandið vel saman þar til þið fáið slétt og fallegt deig, það á hvorki að vera of vatnskennt né of þykkt, þið ættuð að finna miðpunktinn. Þið getið gert tilraunir með magn vatns til að ná réttri áferð. Ef þið viljið getið þið skipt út vatninu fyrir kjúklingasoð.

Hreinsið næst bananablöðin og skerið þau í ferninga sem eru um það bil 40 x 40 sentimetrar. Til að mýkja laufblöðin skuluð þið láta þau liggja í bleyti í heitu vatni í nokkrar mínútur.

Til að setja saman tamales skuluð þið setja bananablað á borð eða á bretti. Glansandi hliðin á að snúa upp. Bætið næst við skeið af tómat- og laukmaukinu og dreifið aðeins úr því. Bætið næst við matskeið af maísdeiginu, bita af maríneruðum kjúklingi og nokkrum gulrótarsneiðum. Að lokum bætið aftur við smá af maísdeiginu og smá af tómat- og laukmaukinu. Vefjið síðan bananalaufinu þannig að það sé ferningur og bindið saman með eldhúsgarni. Þið eigið að pakka því inn eins og þetta sé gjöf, en þið getið líka pakkað þessu inn með álpappír til að koma í veg fyrir að tamales opnist.

Til að elda tamales þurfið þið að við bæta vatni í aðeins meira en helming potts svo að allt tamales komist fyrir; bætið síðan við tveimur matskeiðum af salti út í vatnið og látið sjóða. Þegar vatnið er að sjóða, bætið þá tamales út í, setjið lok á pottinn, lækkið hitann og leyfið þessu að malla í eina og hálfa klukkustund. Önnur leið til að gera það er í bain-marie til að koma í veg fyrir að það verði of blautt. Ef þið velið að vefja tamales líka með álpappír verða koddarnir betur varðir. Þegar eldunartíminn er liðinn takið þá tamales úr pottinum, klippið eldhúsgarnið, opnið laufið og berið fram þetta dýrindis kólumbíska tamales á bananalaufinu og njótið.