Auður Ava Ólafsdóttir
Auður Ava Ólafsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Miðstöð íslenskra bókmennta (MÍB) hefur úthlutað 8,3 milljónum króna í 25 styrki í síðari úthlutun ársins til þýðinga á íslensku

Miðstöð íslenskra bókmennta (MÍB) hefur úthlutað 8,3 milljónum króna í 25 styrki í síðari úthlutun ársins til þýðinga á íslensku. Í tilkynningu frá MÍB kemur fram að sígild verk, myndríkar barna- og ungmennabækur og ný skáldverk séu meðal þess sem er styrkt að þessu sinni og þýdd verði verk úr frönsku, ensku, þýsku, búlgörsku og spænsku. Meðal verka sem hlutu þýðingastyrki eru Las Malas eftir Camilu Sosa Villada sem Birta Ósmann Þórhallsdóttir þýðir og Benedikt bókaútgáfa gefur út; Deaf Republic eftir Ilya Kaminsky sem Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson þýðir og Dimma gefur út; Las memorias de Mamá Blanc eftir Teresu de la Parra sem Kristín Guðrún Jónsdóttir þýðir og Karíba ehf. gefur út og Changer l'eau des fleurs eftir Valérie Perrin sem Kristín Jónsdóttir þýðir og Forlagið gefur út.

MÍB veitti einnig nýlega 38 styrki til þýðinga á íslenskum verkum á 17 erlend tungumál í seinni úthlutun ársins. Þýtt er á m.a. ensku, þýsku, ítölsku, japönsku, spænsku, norsku, dönsku og sænsku. Sem dæmi má nefna að Eldarnir eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur er væntanleg á frönsku og dönsku á árinu; Eden eftir Auði Övu Ólafsdóttur kemur út á norsku og katalónsku; Sextíu kíló af kjaftshöggum eftir Hallgrím Helgason kemur senn út á dönsku; Lungu eftir Pedro Gunnlaug Garcia er væntanleg á þýsku, frönsku og portúgölsku; ljóðabækurnar Síðasta vegabréfið og Draumstol eftir Gyrði Elíasson verða þýddar á dönsku á árinu og barnabókin Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur kemur út á eistnesku.