Eftir tæpar þrjár vikur í Danmörku og Noregi að flytja fréttir af íslenska kvennalandsliðinu í handbolta er ofanritaður ansi glaður í bragði þessa dagana að soga í sig jólastemninguna hér á landi eftir vel heppnaða ferð

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Eftir tæpar þrjár vikur í Danmörku og Noregi að flytja fréttir af íslenska kvennalandsliðinu í handbolta er ofanritaður ansi glaður í bragði þessa dagana að soga í sig jólastemninguna hér á landi eftir vel heppnaða ferð.

Af fimm íslenskum fjölmiðlum sem sóttu HM voru aðeins tveir sem fylgdu liðinu alla leið til Frederikshavn í Forsetabikarinn, sem íslenska liðið vann með glæsibrag. Þeirra missir og vel gert landsliðskonur!

Vegna verkfalla og óveðurs tók það heila 26 tíma að komast heim í Laugardalinn frá hinum ágæta bæ sem Frederikshavn í Norður-Danmörku er. Hófst hún klukkan 3 um nótt og lauk klukkan 5 næsta morgun.

Lestin til Álaborgar og flugið til Köben gekk eins og í sögu en vegna verkfalls flugumferðarstjóra, sem nú er hlé á, stefndi í að ofanritaður þyrfti að bíða um sjö tíma á Kastrup-flugvellinum góða.

Til að gera langa sögu stutta urðu þeir klukkutímar mun fleiri, þar sem óveður skall á ofan á verkfallið. Því þurfti að fljúga fyrst til Lundúna og þaðan heim, með tilheyrandi aukabiðum. Þegar loks var heim komið tók við bið í vélinni á Keflavíkurflugvelli því óveðrið var of mikið til að hleypa okkur úr vélinni.

Eftir 26 klukkutíma, þrjár flugferðir, lestarferð, endalausa bið, engan svefn og keyrslu heim man bakvörður dagsins lítið eftir því hvað tók við þegar heim var komið.

Allt var þetta 100% þess virði til að gefa glæsilegu landsliði okkar, sem er á mikilli uppleið, þá umfjöllun sem það á skilið. Lítum líka á björtu hliðarnar; það varð til bakvörður úr ferðasögunni minni.