Tímamót Jón Snædal er nánast hættur á spítalanum en sinnir enn þróunarvinnu af ýmsu tagi. Ný lyf við alzheimer virðast handan við hornið.
Tímamót Jón Snædal er nánast hættur á spítalanum en sinnir enn þróunarvinnu af ýmsu tagi. Ný lyf við alzheimer virðast handan við hornið. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Kristján Jónsson kris@mbl.is Ný lyf við alzheimersjúkdómnum sem hafa verið nokkuð í umræðunni síðasta árið gætu verið fáanleg á Íslandi eftir liðlega ár að mati Jóns Snædals öldrunarlæknis.

Viðtal

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ný lyf við alzheimersjúkdómnum sem hafa verið nokkuð í umræðunni síðasta árið gætu verið fáanleg á Íslandi eftir liðlega ár að mati Jóns Snædals öldrunarlæknis.

„Samkvæmt því sem ég les út úr þessari lyfjaþróun og leyfisveitingum þá gætu nýju lyfin verið aðgengileg hér á landi veturinn 2024-2025. Evrópska lyfjastofnunin tekur ákvörðun í mars gæti ég trúað, mögulega í apríl. Þá taka löndin við sér en þau eru þegar farin að undirbúa sig varðandi kostnaðarþátttökuna og skilyrði fyrir notkun lyfjanna,“ segir Jón í samtali við Morgunblaðið og er um talsverð tímamót að ræða í baráttunni við sjúkdóminn óhugnanlega.

„Við erum að fara inn í nýja tíma varðandi meðferð við sjúkdómi þar sem engin áhrifarík meðferð hefur verið til. Hún virðist vera áhrifarík og menn eru því nokkuð bjartsýnir. Á heildina litið hefur umræðan farið alveg frá því að gera lítið úr áhrifunum yfir í að lofsyngja nýju lyfin. Yfirleitt er útkoman einhvers staðar þar á milli.“

Skýrari mynd að birtast

Jón Snædal sótti alþjóðlega ráðstefnu í október sem iðulega er haldin seint á ári hverju. Eðlilega voru nýju lyfin þar á dagskrá og hvernig á að vinna úr stöðunni sem upp er komin.

„Ekki voru kynnt stórtíðindi á ráðstefnunni en ýmislegt er að skýrast betur. Staðan er sú að við eigum von á nýjum líftæknilyfjum við alzheimersjúkdómnum. Þá þurfum við að vita mjög vel í hvernig tilvikum á að nota lyfin, hvernig eftirfylgnin á að vera og fleira í þeim dúr. Upphaflegu rannsóknirnar hafa ekki endanlega svarað slíkum spurningum en ýmsar upplýsingar í sambandi við þetta er verið að veita á ráðstefnum sem þessum. Allmörg lyf hafa verið skoðuð og einkennin sem fólk er komið með ganga þó ekki til baka nema að litlu leyti en miklu fleiri verða óbreyttir meðan á meðferðinni stendur. Þar er því ávinningur þótt hann sé minni en við hefðum viljað sjá.“

Minnihátttar aukaverkanir

Spurður út í mögulegar aukaverkanir á þessu stigi málsins segir Jón dæmi vera um minniháttar aukaverkanir og í fáum tilfellum alvarlegar.

„Lyfin eru gefin í æð og einn af hverjum fjórum eða fimm finnur fyrir óþægindum vegna þess en það eru ekki hættulegar aukaverkanir. Þegar varnarfrumur heilans eru að hreinsa þessar útfellingar þá myndast stundum bjúgur og það er ágætlega þekkt aukaverkun. Um fimmtungur fær þess háttar breytingar sem sjást á mynd en fæstir finna nokkuð fyrir því og yfirleitt gengur þetta til baka. Þessi tvö dæmi flokkast ekki undir stór mál en við þurfum að vita af því og bregðast við á viðeigandi hátt. Það sem getur hins vegar verið hættulegt eru blæðingar. Mjög fáir verða fyrir því en hvert tilvik er alvarlegt. Þá þarf að forðast að gefa þeim lyfin sem eru í áhættuhópi fyrir slíku en það er smám saman að skýrast og verður vonandi orðið skýrt þegar hægt verður að gefa þessi lyf hér á landi.“

Jón segir að lögð sé áhersla á að finna út úr því hverjir muni virkilega hafa gagn af nýju lyfjunum en í tilraunum og rannsóknum sé aðallega unnið með meðaltöl og hugsanlegt er að einhverjir hafi fengið nýju lyfin í tilraunaskyni sem aldrei hefðu haft gagn af þeim hvort sem er og það dregur meðaltöl niður.

„Eitt sem hefur styrkt okkur í trúnni er að margar rannsóknir hafa farið fram og ef upplýsingar eru allar teknar saman þá hafa nýju lyfin verið prófuð á mörgum þúsundum manna. Það er munur á þeim sem fá lyfin og þeim sem fá lyfleysu. Eftir því sem hraðar er hreinsað út úr heilanum, því meiri árangri nærðu miðað við upplýsingarnar sem við höfum og tilgátan er að því leytinu rétt,“ segir Jón og ítrekar að ekki sé um að ræða lausn fyrir þá sem séu komnir með alvarlega heilabilun.

„Það er auðvitað miður en ef þú ert með einstakling þar sem sjúkdómurinn uppgötvast nokkuð snemma þá gæti viðkomandi verið í ágætu horfi í nokkur ár jafnvel þótt sá væri að horfa fram á sjúkdóm sem fram til þessa getur lagt líf fólks í rúst. Þar af leiðandi værum við að tala um áhrifaríka meðferð en þar skiptir auðvitað máli að fá greininguna nokkuð snemma.“

Hægir ferðina

Jón Snædal er meðal kunnustu öldrunarlækna landsins eftir langan feril. Hann er 73 ára og farinn að hægja ferðina þótt hann sé ekki hættur störfum. Hann útskrifaðist úr læknisfræðinni í HÍ árið 1976 og lauk námi í lyflækningum og öldrunarlækningum í Svíþjóð árið 1984. Frá árinu 1995 segist hann hafa starfað alfarið við að greina og annast sjúklinga með heilabilun og alzheimer sem læknir á öldrunardeild Landspítalans. Þá hefur Jón unnið að ýmsum rannsóknum ásamt erlendum og innlendum vísindamönnum sem of langt mál væri að fara út í hér.

„Ég tek þátt í þróunarvinnu af ýmsu tagi í samstarfi við erlenda kollega sem er ein ástæða þess að ég hef haldið áfram störfum þótt ég sé nánast hættur á spítalanum. Þessi verkefni munu dvína þegar líður á næsta ár,“ útskýrir Jón en Læknafélagið hélt málþing honum til heiðurs í síðasta mánuði.

„Eitt af því eftirminnilegasta á ferlinum er árangur sem náðist í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu en þá fundum við fyrstu arfgerðina sem er verndandi fyrir sjúkdómnum. Mjög fáir þeirra fá alzheimer. Niðurstöðurnar voru birtar árið 2012 og vöktu mikla athygli. Höfðu þau áhrif að styrkja tilgátuna sem nú hefur skilað nýjum lyfjum og varð til þess að lyfjafyrirtækin héldu áfram. Það var ekki opinbert þá en greint hefur verið frá því síðar. Þetta er einn af þeim áföngum sem skipt hafa máli á alþjóðavísu. Einnig verð ég að minnast á minnismóttökuna sem við settum á laggirnar á Landspítalanum árið 1995. Henni hefur verið mjög vel tekið og heimilislæknar vita allir af henni og senda fólk til okkar. Þar hefur verið veitt góð þjónusta að mínu mati.“

Skortur á öldrunarlæknum

Nú þegar styttist í starfslok hjá Jóni Snædal ríkir hæfileg bjartsýni um að vísindin geti veitt einhverja vörn gegn alzheimer eins og hér hefur komið fram. Jón segist einu sinni áður hafa upplifað svipaða bjartsýni og það hafi verið á tíunda áratugnum. Þá hafi verið þróun í lyfjamálunum og lyf frá þeim tíma séu enn í notkun en í millitíðinni hafi verið deyfð í liðlega tvo áratugi á alþjóðlegum vettvangi. Jón bendir á að þörf sé fyrir fleiri öldrunarlækna hérlendis. Nú þegar framfarir eiga sér stað í lyfjaþróuninni ættu læknisfræðinemar að velta þessari sérhæfingu fyrir sér.

„Ég myndi gjarnan vilja sjá fleiri lækna leggja þetta fyrir sig. Við erum of fá. Læknar sem eru að huga að sínu sérnámi ættu að velta þessum valmöguleika fyrir sér. Við erum á svipuðum stað og hjartalækningar voru fyrir fjörutíu árum og krabbameinslækningar voru fyrir þrjátíu árum, þegar fáar aðferðir voru til að rannsaka fólk almennilega og þaðan af síður margir möguleikar varðandi meðferð. Það hefur hins vegar gerbreyst og við sjáum vonandi fram á að veruleg framþróun verði á sviði öldrunarlækninga en okkur vantar fleiri starfskrafta.“