Viktor Eyjólfsson, kerfisfræðingur og sushi-meistari, fæddist 7. ágúst 1986. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu, Vesturgötu 50a í Rvík, 10. desember 2023.

Foreldrar hans eru Eyjólfur Brynjar Guðmundsson, matreiðslumaður og fasteignasali, f. 31.7. 1964, búsettur í Flórída, kona hans er Ídanía Guðmundsson. Móðir hans er Hjördís Vilhjálmsdóttir, f. 17.10. 1965, húsmóðir, aukaleikari og verslunarkona, búsett á Seltjarnarnesi. Stjúpfaðir Viktors var Anton Sigurðsson pípulagningameistari, f. 17.12. 1955, hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 19. janúar sl. Viktor mun hvíla við hlið stjúpa síns í Fossvogi. Viktor á eineggja tvíburabróður, Fannar, B.Arch. frá Konunglega háskólanum í Khöfn, grafískur hönnuður með eigið fyrirtæki, kona hans er Sonja Thorberg Bergsdóttir, f. 3.6. 1990, flugfreyja hjá Play. Fannar á þrjár dætur: Viktoríu Dögg, f. 1.9. 2009, Ísabellu Nótt, f. 27.12. 2012, og Aþenu, f. 22.1. 2022. Synir Sonju eru Logi, f. 29.10. 2010, og Hjörtur, f. 10.6. 2015. Viktor á tvær dætur, Ellý, f. 3.3. 2016, og Antoníu, f. 1.6. 2017. Móðir þeirra er Sigrún Erla Sæmundsdóttir, f. 29.7. 1982. Viktor og Sigrún gengu í hjónaband í St. Louis í Bandaríkjunum 29.4. 2015, þau slitu samvistum í des. 2021. Systkin Viktors samfeðra eru: 1) Guðmundur Kristján, lögmaður á Manhattan N.Y., f. 15.7. 1982, kona hans er Lindsey De Stronie Gudmundsson húsmóðir, sonur þeirra er Gunnar Kirwan, f. 16.3. 2012. 2) Brynjar, B.S. í sports media, starfar sem lögreglumaður í Flórída, f. 15.7. 1993. 3) Alexandra, f. 10.5. 1996, B.S. í sálfræði og starfar sem innkaupastjóri hjá lyfjafyrirtæki í Flórída.

Viktor ólst upp hjá foreldrum sínum ásamt tvíburabróður sínum Fannari og bjuggu þau í Brekkutúni 23 í Kóp. Fjölskyldan fluttist á skíðahótel í Sälen í Svíþjóð 1989, þegar Viktor var þriggja ára og bjuggu þau þar einn vetur, faðir hans starfaði sem kokkur á Högjällshotellet. Þá fluttust þau til Landskrona í Svíþjóð til ársins 1994, er hann flutti í Kópavoginn á ný með móður sinni og bróður. Foreldrar hans slitu sambúð 1992.

Viktor var í Dammhagsskolan í Landskrona í Svíþjóð 1993-1994, æfði þar íshokkí frá fimm ára aldri. Eftir að hafa flutt aftur til Íslands gekk hann í Hjallaskóla í Kópavogi 1994-2002. Hann hélt áfram að æfa íshokkí, markmaður með íshokkífélaginu Birninum og stundaði einnig nám í Myndlistaskóla Kópavogs. Viktor bjó í Bandaríkjunum um tíma, alls 15 ár, var með tvöfalt ríkisfang, íslenskt og bandarískt, gekk í Wellington High School í Flórída og útskrifaðist þaðan 2004. Meðan hann bjó í Tallahassee í Flórída var hann í bandaríska flughernum ásamt því að ljúka grunnnámi, Associate of Arts, frá Tallahassee Community College 2011. Hann var heiðursfélagi í Arnold Air Society sem er bræðrafélag innan flughersins, þar sem inntökuskilyrði eru mjög erfið. Hann stundaði nám í University of Missouri Saint Louis þaðan sem hann útskrifaðist með B.Sc.-gráðu í kerfisfræði. Hann fluttist til Íslands 2015 og starfaði m.a. sem kerfisfræðingur hjá Advania, en lengst af hjá Sushi Social sem yfir-sushi-kokkur. Hann kom einnig að því að setja upp tvo sushi-staði í Reykjavík, Osushi og Umami í Kringlunni. Áhugamál hans voru fjölmörg, m.a. íshokkí, tónlist, kvikmyndir, tölvur, tækni, sushi-gerð, ferðalög, sundferðir og að eyða tíma með fjölskyldu og vinum og mest af öllu dætrunum sínum tveimur sem hann bjó með í Vesturbænum.

Útför verður frá Grafarvogskirkju í dag, 21. desember 2023, klukkan 11.

Nú er ég að hlusta á ofurfallega og tilfinningaríka lagið, Viktor minn, lagið sem þú lagðir svo ákveðið að mér að gefa mér tíma með þér í sófanum inni í stofu heima hjá þér og hlusta vel. Þú sagðir mér að höfundur þess hefði samið það til konu sinnar sem var deyjandi og að það heyrðist svo vel hversu mikið og innilega hann elskaði hana, heyrðist svo vel hvernig líf hennar fjaraði út og svo stopp. „Mamma, heyrirðu? Pældu í hvað hann er mikill snillingur að semja svona flott.“ Þetta var síðasta eða næstsíðasta sinn sem ég hitti þig. Fannari bróður þínum tókst eftir lýsingu frá mér að finna lagið sem heitir „On the nature of daylight“ og er eftir Max Richter. Mamma er að reyna að finna leið svo hægt sé að flytja lagið í kirkjunni þegar ég kveð þig, en ef það tekst ekki mun tæknin bjarga okkur og það verður þá spilað nákvæmlega eins og þú spilaðir það fyrir mig í hljómgóðu græjunum þínum í hljóðkerfinu sem þú varst svo ánægður með að hafa sett upp á nýja fallega heimilinu ykkar Ellýjar og Antoníu. Íbúðinni sem þú málaðir svo flotta, íbúðinni á Vesturgötu 50a, sem þú sagðir mér að þú elskaðir og vildir alltaf búa í. Í næstu götu við mínar æskuslóðir á Brekkustígnum.

Ekki vissum við þá að eineggja tvíburabróðir þinn kæmi svo að þér stuttu eftir þetta, þar sem þú svafst með dásamlegu sængina þína frá Ameríku ofan á þér, með annan handlegginn uppi á sófabakinu, en svafst þá svefninum langa og þess vegna tókst honum ekki að vekja þig. Sami sófinn, sama stofan, þar sem þú og ég sátum saman stuttu áður að hlusta á þetta ofurfallega lag. Mömmuhjartað varð órólegt því þú svaraðir mér ekki, svo var slökkt á símanum, þá brunaði ég heim til þín og hringdi dyrabjöllunni niðri, ekkert svar. Þá ákvað bróðir þinn að koma og athuga með þig, ég vonaði auðvitað að þetta væru óþarfa áhyggjur, sem ég er svo milljón sinnum búin að hafa frá því þú fæddist. En því miður ekki þetta kvöld og inn í nóttina 10. desember. Nóttina dimmu, sáru, erfiðu og ofurlöngu og því vel við hæfi að kveðja þig á lengstu nótt ársins, 21.12.

Það er eins og hjarta mitt sé núna alveg dáið, ég hef engar tilfinningar í því og varla græt nema hljótt og táralaust í sál minni. Ég vona að þú heyrir lagið alla leið til himna og vitir að það verður spilað í kirkjunni fyrir mig til þín. Vona að þú heyrir það og skynjir jafn vel og þú og ég líka gerðum þegar þú spilaðir það fyrir mig, að þú heyrir og skynjir um leið hversu ofurmikið og innilega af öllu mínu hjarta ég elska þig, elsku yndislegi fallegasti yngsti sonur minn. Vona að þú heyrir það þó nú sé hjarta mitt alveg frosið og tilfinningalaust í fullkominni afneitun um að þú sért nú fluttur til Guðs. Ég hef fallega lagið núna til að tjá ást mína, umhyggju, sorg mína og söknuð til þín.

Ég bið þig um að vera mér styrkur þegar hjarta mitt þiðnar, sem ég vona að það muni gera og ég geti grátið með hjartanu á ný, þá þarf mamma súperhlýtt og þétt Viktorsknús. Það er mér dýrmæt sáraplásturshuggun að þú munir sofa í flottu kistunni þinni sem bróðir þinn hefur hannað og græjað svo fallega og af einlægri ást til þín, við hlið elsku Antons míns í Fossvoginum, Þ-989. Ég kem svo til ykkar þegar Guð vill það.

Megi góður Guð styrkja fallegu dætur þínar, Ellý og Antoníu, mömmu þeirra og hennar fólk, tvíbura þinn og hálfsystkin þín, pabba þinn og hans fólk, frændur þína og frænkur, ömmu og afa og alla vini þína og alla aðra sem elska þig og sakna og líka mig, við erum öll í milljón molum af sorg.

„Vertu nú yfir og allt um kring, með eilífðri blessun þinni, sitji Guðs englar saman í hring, sænginni yfir þinni, í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda, Amen.“ Góða nótt, elsku sonur minn, sofðu rótt og verndaðu áfram fullkomnu dætur þínar sem þú ert svo góður og traustur pabbi, missir þeirra er gríðarlega þungt, erfitt og sárt högg. Og mundu að mamma elskar þig um eilífð alla, veri góður Guð ávallt með þér. Þín ávallt elskandi sem á milljón fallegar minningar um þig og endalausa ást til,

mamma.

Elsku besti Viktor minn. Hvað ég sakna þín og vildi að þú værir hér hjá okkur. Langar að þakka þér fyrir að hafa verið besti vinur minn alla ævi mína, verið mér ómetanlegur stuðningur í gegnum erfiða tíma, veitt mér innblástur þegar ég þurfti á því að halda og umfram allt fyrir að elska mig alveg nákvæmlega eins og ég er líkt og ég elska þig nákvæmlega eins og þú ert. Ég trúi því og treysti að þú sért nú þegar kominn í góðra vina hóp, enda aldrei vandamál fyrir þig að kynnast nýju fólki. Minningarnar með þér eru endalausar; öll ferðalögin, útilegurnar, tónleikar, leikhús, elda saman, út að borða, ísbíltúr, spila hokkí, bíóferðir, spila, skemmtigarðar og listinn heldur áfram. Allar sundferðirnar okkar voru orðnar að daglegri rútínu hjá okkur, sem mér þótti afskaplega vænt um. Þú munt alltaf eiga stað í mínu hjarta og verður alltaf partur af mér. Ég elska þig, Viktor minn.

Þinn tvíburi,

Fannar.

Það er afar þungbært að skrifa þessi kveðjuorð um elsku Viktor sem hefur kvatt alltof snemma. Nærvera hans var afar hlý, hann var góðhjartaður, lét sér annt um aðra og var stórkostlegur faðir litlu stúlknanna sinna, þeirra Ellýjar og Antóníu. Hann var tryggur, örlátur og æðrulaus gagnvart lífinu en æðruleysisbænin átti sérstakan stað í huga hans. Það var ávallt stutt í bros og glens hjá Viktori enda húmoristi mikill. Hann var meistarakokkur og hafði smitandi ástríðu fyrir matargerð. Eftir sitja minningar af ljúfum samverustundum undanfarin ár og erum við fjölskyldan öll þakklát fyrir að hafa fengið að fylgja þessum mæta manni þennan alltof stutta spöl í gegnum lífið. Viktor skilur eftir stórt skarð í hjörtum okkar. Hugur okkar dvelur hjá dætrum hans og fjölskyldu í sorg þeirra og söknuði því þeirra missir er mikill. Hvíl í friði fallegi bróðir minn.

Þau ljós sem skærast lýsa,

þau ljós sem skína glaðast

þau bera mesta birtu

en brenna líka hraðast

og fyrr en okkur uggir

fer um þau harður bylur

er dauðans dómur fellur

og dóm þann enginn skilur.

En skinið loga skæra

sem skamma stund oss gladdi

það kveikti ást og yndi

með öllum sem það kvaddi.

Þótt burt úr heimi hörðum

nú hverfi ljósið bjarta

þá situr eftir ylur

í okkar mædda hjarta.

(Friðrik Guðni Þórleifsson)

Þinn

Halldór (Doddi),
Sigrún, börn og
barnabörn.

Elsku yndislegi Viktor, það er ólýsanlega sárt að hugsa til þess að minningarnar verði ekki fleiri. Þið bræður voruð svo tengdir enda eineggja tvíburar. Það er svo skrítið að hugsa til baka hvað dagarnir fyrir andlát þitt voru skrítnir. Eins og Fannar hefði fundið á sér að eitthvað slæmt væri í vændum. Síðustu dagar hafa verið þungir fyrir okkur hin sem sitjum eftir. Enda missirinn mikill. Þú varst yndislegur mágur með faðminn ávallt opinn og húmorinn á réttum stað. Barngóður húmoristi, lýsir þér vel. Stelpurnar þínar voru einstaklega heppnar með pabba, þú hugsaðir svo vel um þær og vildir þeim allt það besta. Við munum vanda okkur við að standa við bakið á fallegu dætrunum þínum og halda uppi minningunni um þig.

Síðustu dagar hafa farið í að skoða myndir og rifja upp skemmtilegar sögur af þér. Það er áberandi hvað þú ert með börn í fanginu eða hangandi utan í þér á mörgum myndum, algjörlega þú í hnotskurn. Strákarnir mínir voru alltaf svo spenntir þegar þeir vissu að þú ætlaðir að koma og vera með okkur. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að vera smá partur af yndislega fríinu ykkar stelpnanna og fyrir að hafa náð að búa til dásamlegar minningar með þér. Takk fyrir að taka svona vel á móti mér þegar ég kynntist Fannari og takk fyrir þær minningar sem við eigum saman. Ég mun gera mitt allra besta í að styðja við bróður þinn (hinn helminginn þinn) og fjölskyldu á þessum erfiða tíma. Ég sendi hlýja strauma til allra þeirra sem fengu þann heiður að kynnast þér og eiga um sárt að binda vegna fráfalls þíns. Þangað til næst, minn kæri.

Sonja, Logi og Hjörtur.

Með ægilega sorg í hjarta kveð ég þig, elsku frændi minn. Engin orð fá lýst áfallinu er mamma þín hringdi til að færa mér þær sorglegu fregnir að þú værir látinn, því að sams konar símtal fékk ég fyrir rúmum tíu mánuðum þess efnis að elsku Anton væri látinn. Jafn fyrirvaralítið og skyndilega.

Ég bið góðan Guð að gefa styrk, blessa og varðveita dætur þínar Ellý og Antoníu, pabba þinn, mömmu þína sem á sama árinu er að jarða eiginmann sinn og son, systkin þín og þá sérstaklega Fannar tvíburabróður þinn, sem og aðra ástvini og aðstandendur. Takk fyrir góð kynni en alltof stutt.

Þó í okkar feðrafold

falli allt sem lifir

enginn getur mokað mold

minningarnar yfir.

(Bjarni Jónsson frá Gröf)

Dýpsta sæla og sorgin þunga,

svífa hljóðlaust yfir storð.

Þeirra mál ei talar tunga,

tárin eru beggja orð.

(Ólöf Sigurðardóttir)

Hafsteinn Þór
Hafsteinsson.

Minn kæri systursonur, Viktor Eyjólfsson, kvaddi snöggt hinn 10.12. 2023, aðeins 37 ára, faðir tveggja yndislegra dætra, Ellýjar og Antoníu. Eineggja tvíburi, stórt skarð höggvið í hjartað hans Fannars og fjölskyldu. Frá fæðingu 1986 var ég mjög tengd þeim, þó mest fyrstu árin, var svo lánsöm að fá að vera viðstödd fæðingu þeirra, stórir og sterkir drengir. Viktor var ætíð lífsglaður og smá prakkari og uppátækjasamur. Framúrskarandi í íshokkíi og æfði og keppti með íshokkífélaginu Birninum. Agnar minn heitinn, sem lést langt fyrir aldur fram 12.9. 2018, og Viktor voru mjög nánir og miklir vinir í blíðu og stríðu. Brölluðu ýmislegt saman í gegnum árin. Viktor missti sinn besta trúnaðar- og frændvin, saknaði hans ætíð mikið.

Viktor lærði kerfisfræði og starfaði við það í nokkur ár með góðum árangri en fannst ekkert voða skemmtilegt að sitja fastur við tölvu allan daginn. Hann var ástríðukokkur og meistari í sushi-matargerð og vann við það í nokkur ár á Sushi social. Hann elskaði það starf og naut þess í botn með frábæru starfsfólki. Hann bjó með barnsmóður sinni í nokkur ár og áttu þau dæturnar saman. Lífið fór ekki mjúkum höndum um þau í sinni sambúð og lágu leiðir þeirra í sundur í desember 2021. Innst inni þótti þeim vænt hvoru um annað en ýmislegt var að sem tók á að vinna úr.

Viktor varð enn nánari mér eftir sambúðarslit þeirra, nánast daglega. Í sumar þurfti Viktor að finna sér nýja íbúð eftir búsetu í íbúð í 107 Reykjavík. Við fundum fallega íbúð í 101 Reykjavík og keyptum bíl fyrir fjölskylduna. Viktor var orðinn langvarandi þreyttur og gaf ég honum tveggja vikna ferð til mín á Gran Canaria þar sem ég ætlaði að búa og jafna mig eftir alvarlegt slys sem ég lenti í í júní síðastliðnum. Þau komu út 1. nóvember og nutu svo innilega sólarinnar og strandlífsins, fóru í dýragarð og áttu frábæran dag, þar stóðu upp úr höfrungarnir, kossar og knús sem þau þrjú fengu að upplifa. Fóru í risasundlaugarennibrautargarð sem þeim fannst geggjað. Alla daga var gert eitthvað skemmtilegt ásamt skyldum að sinna dætrum og námi þeirra sem var sinnt samviskusamlega. Perlað, málað, dansað, karókí og margt fleira. Tíminn var bara allt of fljótur að líða. Það var erfitt að kveðja þau 15. nóvember og taka myndir og vídeó á eftir bílnum með tárin í augunum eftir dásamlega samverudaga.

Ekki hefði mig grunað að það yrði síðasta knúsið og myndir þá. Óbærilega sárt að fá fréttir út að elsku Viktor minn hefði kvatt lífið hér á jörðu svona snöggt. Eftir sitja margir harmi slegnir, dætur hans föðurlausar og skilja ekkert í þessu skrítna lífi sem er svo óútreiknanlegt.

Mig dreymdi draum þar sem þeir frændur voru sameinaðir á himnum og Agnar minn að „sjæna“ þig, Agnar hafði mikið gaman af að klippa vini sína og gera sæta vini sætari.

Hvíldu í friði elsku besti frændi minn umvafinn englum og þínu fólki á himnum. Hafðu þökk fyrir allt sem þú gafst mér.

Ég votta dætrum þínum Ellý og Antoníu, Fannari, foreldrum, vinum og ættingjum mína innilegustu samúð.

Lára frænka.

Elsku frændi, uppáhaldsfrændi eins og þú kallaðir mig alltaf. Okkur Elsu langar að þakka fyrir allar sætu samverustundirnar sem við áttum með ykkur bræðrum, þá sérstaklega þegar þið voruð litlir sprelligosar. Dásemdar endalaust fjörugir tímar sem við áttum þegar þið voruð hjá okkur í Kambaselinu sumarlangt, fjölmargar hátíðir um jól og áramót, margar fjörugar útilegur og sumarbústaðaferðir með okkur fjölskyldunni gegnum árin sem og sérstaklega minnisstæð útileguferð í Húsafell þegar þið bræður voruð um sjö ára gamlir ásamt Villa Þorra okkar á sama aldri og Kristófer okkar tveggja ára. Þið sænskumælandi, Villi Þorri norskumælandi og Kristófer tjáði sig á táknmáli svo þetta var verulega skrautleg ferðahelgi fyrir okkur hjónin með alla þessa fjöruga flottu gaura, ógleymanleg minning!

Öll árin höfum við blessunarlega fylgst með uppvexti þínum og séð þig þroskast og dafna og stofna eigin fjölskyldu. Þú varst einstaklega iðinn við að leyfa okkur að fylgjast með dásamlegu dætrunum þínum og erum við þakklát fyrir að hafa fengið að vera samferða þér gegnum árin. Þú varst einlæglega kærleiksríkur og faðmlag þitt var svo einstaklega hlýtt og gott. Okkur þykir afar sárt að vita til þess að þú komir ekki til með að fylgja gullmolunum dætrum þínum vaxa og dafna. Við munum svo sannarlega sakna samverustundanna og þess hlýja faðmlags sem þú gafst svo fallega og hjartanlega af þér.

Hvíldu í friði, elsku Viktor okkar, minningin um þig mun fylgja okkur alla ævi. Biðjum alla góða vætti að styrkja ástvini þina á þessum sorgartímum. Takk fyrir samfylgdina, elsku frændi og vinur, Guð geymi þig og hvíldu í ást og friði.

Þór og Elsa.

Elsku Viktor minn!

Með sorg í hjarta og miklum söknuði kveð ég þig, elsku frændi. Fráfall þitt er áfall fyrir alla fjölskylduna, vini og vandamenn en ég trúi því að nú séu englar Guðs búnir að taka á móti þér og fylgi þér inn í ljósið og veiti þér frið. Ég trúi því líka að þú vakir yfir okkur, sérstaklega litlu prinsessunum þínum tveimur, Ellý og Antoníu, pabba þínum, mömmu þinni, Fannari tvíburabróður þínum, hinum systkinum þínum, ömmu og afa, frænkum og frændum.

Ég passaði ykkur bræður þegar þið voruð litlir þótt það séu bara tíu ár á milli okkar, þá man ég svo vel að stundum sagðir þú við mig að þér fyndist ég vera eins og stóra systir þín…svo sterk voru vinabönd okkar. Það sem einkenndi þig var fyrst og fremst hlýja, kærleikur og bros. Þú tókst alltaf okkur fjölskyldunni fagnandi með hlýju faðmlagi sem mér þykir svo mikið vænt um. Ég finn fyrir nærveru þinni og treysti á að þú sért kominn með einhvern þér við hlið til að hlýja þér. Alltaf varstu einstaklega góður við börn. Knúsaðir alla frænda og frænkur með hlýhug og gleði og brosi, og ég man sérstaklega eftir því hvað þú frá barnsaldri sýndir ömmu og afa alltaf mikinn hlýhug, og þér var alveg sama þótt þú værir unglingur að knúsa þau í botn fyrir framan alla, meðan öðrum unglingum hefði fundist það „halló“…og þetta er nákvæmlega það sem einkenndi þig, hlýtt hjarta.

Ég óska þér góðrar ferðar inn í sumarlandið, elsku besti Viktor minn, á mjög erfitt með að trúa þessu ennþá að þú sért ekki hérna, þótt við hittumst kannski ekki mjög oft, þá reyndum við að halda sambandi reglulega. Elsku frændi, ég elska þig og sakna þín. Bið góðan guð að senda fjölskyldu þinni styrk og ljós á þessum erfiðu tímum. Kærleikskveðja frá mínu fólki.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

Þín vinartryggð var traust og föst

og tengd því sanna og góða,

og djúpa hjartahlýju og ást

þú hafðir fram að bjóða.

Og hjá þér oft var heillastund,

við hryggð varst aldrei kenndur.

Þú komst með gleðigull í mund

og gafst á báðar hendur.

Svo, vinur kæri, vertu sæll,

nú vegir skilja að sinni.

Þín gæta máttug verndarvöld

á vegferð nýrri þinni.

Með heitu, bljúgu þeli þér

ég þakka kynninguna,

um göfugan og góðan dreng

ég geymi minninguna.

(Höf. ók.)

Kveðja frá Beggu frænku.

Berglind Ósk
Ólafsdóttir.