Ingibjörg Axelsdóttir fæddist í Gunnarshúsi á Eyrarbakka 13. desember 1926. Hún andaðist á Liltu-Grund í Reykjavík 7. desember 2023. Foreldrar hennar voru hjónin Stefanía Stefánsdóttir, f. 9.11. 1903, d. 1.6. 1970, og Valdimar Axel Gunnarsson, f. 26.11. 1899, d. 1.8. 1975. Systkini Ingibjargar voru Gunnar, Unnur og Axel Stefán.

Ingibjörg giftist 28. febrúar 1948 Árna Byron, f. 24.8. 1923 á Krosseyrarvegi 3 í Hafnarfirði, d. 21.12. 2021. Foreldrar hans voru Hermannía Sigríður Anna Markúsdóttir, f. 5.11. 1901, d. 19.5. 1995, og Pétur Jón Sigurðsson Njarðvík, f. 8.10. 1897, d. 28.11. 1957.

Börn þeirra eru þrjú:

1) Árni Árnason Njarðvík, f. 8. mars 1952. Árni eignaðist dæturnar Evu Björk og Dagrúnu með Hafdísi Brandsdóttur. Eva Björk á þrjú börn: Veru Jóhönnu Frost, Rósu Matildu Frost og Stefán Nicolas Frost. Maður Dagrúnar er Páll Gestsson og eiga þau þrjá syni: Hallgrím kvæntur Elínu Sigurðardóttur, Gest og Kára.

Fyrri eiginkona Árna var Dagrún Erla Hauksdóttir, f. 9.4. 1953, d. 14.4. 1989, en þau eiga dótturina Rósu Hrönn. Synir hennar eru Arnar Freyr og Hallgrímur Árni. Hrefna Rebekka Ólafsdóttir er kona Arnars Freys og eiga þau Kamillu Rós og Atlas Elí.

Kona Árna er Helga Árnadóttir en hún á börnin Fríðu Gylfadóttur og Gunnar Þorberg Gylfason. Kona Gunnars Þorbergs er Þórunn Halldóra Þórðardóttir og eiga dæturnar Finnborgu Helgu og Gerði Theódóru.

2) Stefanía Anna Árnadóttir Njarðvík, f. 17. desember 1959. Eiginmaður Stefaníu er Lawrence John Heberle Jr. Maður hennar var Magnús Steinn Loftsson, þau skildu. Börn Stefaníu eru fimm: Ingibjörg Njarðvík og á hún fjögur börn, Veigar Örn, Guðrúnu Eddu, Steinunni Birtu og Filip Örn. Maður hennar Gunnar Örn Árnason. Hlín Magnúsdóttir Njarðvík. Maður hennar er Gunnar Lár Gunnarsson og eiga þau þrjú börn: Hlyn Lár, Anítu Björk og Jökul Lár. Árni Dagur Magnússon Njarðvík. Ásta Magnúsdóttir Njarðvík. Maður hennar er Aron Wei Quan og eiga þau soninn Líam. Katrín Magnúsdóttir Njarðvík. Maður hennar er Jesse Waterhouse og eiga þau dæturnar Éowyn Ástu og Aylesh Eleanor. 3) Axel Árnason Njarðvík, f. 2. maí 1961, kvæntur Sigþrúði Jónsdóttur. Börn þeirra eru Pálína og Jón Karl. Kona Pálínu er María Kristín Árnadóttir og eiga þær Eddu Maríu Njarðvík. Kona Jóns Karls er Nanna Sveinsdóttir. Afkomendur Árna Byrons og Ingibjargar eru 34.

Ingibjörg starfaði nánast alla starfsævina hjá Íslenskri endurtryggingu og sinnti þar ýmsum ábyrgðarstörfum.

Útför Ingibjargar verður frá Neskirkju í dag, 21. desember 2023, klukkan 13.

Útförinni er streymt á: https://skjaskot.is/edda

Edda amma var einstök kona og hefur verið stór hluti af lífi mínu alla tíð. Ég á henni margt að þakka og það eru mikil forréttindi að eiga ömmu sem hefur fylgt manni í 51 ár. Foreldrar mínir voru ungir foreldrar og áður en þau voru orðin tvítug vorum við Eva systir mættar til ömmu og afa, fyrstu barnabörnin.

Á H62, eins og Hjarðarhaginn var gjarna kallaður, bjuggu amma og afi alla mína ævi. Þau, ásamt ömmu og afa á Reynimelnum, voru fasti punkturinn í lífi okkar systra alla tíð. Það var alltaf kært á milli þeirra en ömmur mínar þekktust síðan í barnæsku á Eyrarbakka. Við gerðum margt saman. Fyrir örfáum árum mættu þær eftir sunnudagsmessu í Neskirkju og tóku þátt í sláturgerð. Sátu því afar prúðbúnar að sauma vambir, í gullskóm og með perlufestar.

H62 hefur líka gengið undir nafninu Hótel Edda og hafa mörg okkar afkomenda notið góðs af því. Ég og Eva systir bjuggum þar í hálft ár þegar ég var 10 ára, lærði margt sem hefur fylgt mér í gegnum lífið. Þá komu afkomendur í Hagaskóla við, fengu hressingu hjá ömmu og tóku eina skák við afa.

Ég hef alltaf litið mikið upp til ömmu. Hún er af þeirri kynslóð kvenna sem er að byrja að fara út á vinnumarkaðinn eftir barneignir, þær sem höfðu tök á því. Kynslóðin sem lagði grunninn að meira jafnrétti. Amma var alla tíð glæsileg. Hún var einmuna blíð og góð við alla, og fyrir mér dálítill töffari. Hún vann lengst af hjá Íslenskri endurtryggingu, var farsæl í ábyrgðarstarfi í heimi þar sem karlar voru allsráðandi. Það var spennandi fyrir litla stelpu að koma á skrifstofuna hennar á Suðurlandsbrautinni. Sjá allar bækurnar á borðinu sem hún var að vinna með, fyrstu tölvuna og horfa yfir Laugardalinn. Hún var sjálfstæð kona og ögraði tíðarandanum nokkrum sinnum. Til dæmis ákvað hún að kaupa sér bíl í staðinn fyrir nýtt eldhús, sem hún var búin að safna fyrir lengi. Það hefur verið glöð kona sem fór á nýju Fiestunni til vinnu en ekki í strætó eins og hún hafði alltaf gert.

Fyrir tveimur árum, eftir að afi féll frá, bjó amma hjá okkur í nokkrar vikur, vegna framkvæmda. Þetta var dýrmætur tími. Gamlir og ungir ræddu saman, drengirnir okkar og hún kynntust betur. Hún fylgdist alltaf vel með og skemmtilegar umræður voru við matarborðið. Hún átti góð samtöl við vini okkar sem komu í heimsókn sem þótti gaman að hitta þessu einstöku og fróðu konu. Hún var orðin vel kunn rútínu okkar og spurði alltaf hvernig gengi. Hvort Palli hefði t.d. ekki bakað föstudagspítsuna sína. Hún hélt mikið upp á Palla og það var aldeilis gagnkvæmt. Það var mjög kært á milli þeirra alla tíð. Henni fannst reyndar plastpítsuspaðinn hans ekki nógu fallegur og við fyrsta tækifæri færði hún honum silfurspaða úr skúffunni sinni.

Elsku amma leiddi mína litlu hendi þegar ég lítil, og ávallt ef ég þurfti á að halda. Mér þótti vænt um að leiða hennar þegar hún kvaddi í síðasta skiptið að kvöldi 7. desember friðsæl.

Við fylgjum henni í dag síðasta spölinn en eftir sitja dýrmætar minningar um ömmu eins og þær hljóta að gerast bestar. Hvíl í friði elsku amma mín!

Dagrún Árnadóttir.

Ég var að kveikja á þriðja kertinu á aðventukransinum okkar. Eddamma var komin langleiðina með að gefa öllum barnabörnunum aðventukrans og sagði að við ættum að hugsa til hennar þegar við kveiktum á honum. Þetta virkar vel hjá henni því ég hugsa alltaf til hennar þegar ég kveiki á kertunum.

Það er skrítið að Eddamma sé dáin, hún var svona stólpi í lífinu, alltaf til staðar. Hótel Edda grínuðumst við stundum með, því þar voru alltaf allir velkomnir. Það var alltaf pláss á Hjarðarhaga, hvort sem það þurfti gistingu, kaffi eða stað til að búa á. Amma var góð, skemmtileg, fyndin og alveg rosalega jákvæð. Ég held að ástartungumál ömmu hafi verið þjónusta því hún vildi alltaf allt fyrir okkur öll gera. Hún var alltaf að hjálpa til og gefa manni að borða (líka þó ég væri ekki svöng). Amma og afi voru oft hjá okkur í sveitinni á jólunum og tvær af sterkustu jólaminningunum mínum eru af ömmu og afa að renna í hlað á Þorláksmessu og amma að strauja.

Ég bjó hjá ömmu og afa í fjóra og hálfan vetur og alltaf vorum við vinkonur. Amma talaði oft um það síðustu árin og okkur þótti greinilega báðum vænt um þennan tíma. Fyrsta daginn minn í Kvennó rataði ég, sveitabarnið, ekki frá Hjarðarhaga í Kvennó. Amma tók strætó með mér, pikkaði í mig við Kvennóstoppið og sagði „ég fer niður á Lækjartorg, það þarf enginn að sjá að amma fylgir þér í skólann fyrsta daginn“. Hún passaði vel upp á mig, sendi mig með nesti í skólann og við spiluðum rommí á kvöldin. Það var gott að búa hjá ömmu og afa.

Þegar ég sagði ömmu í byrjun árs að við María ættum von á barni sagði hún að hún yrði að vera dugleg að lifa. Sem betur fer tókst það hjá henni og það er mér svo dýrmætt að hún og Edda María hittust og að ég gat sagt henni að barnið héti Edda í höfuðið á henni. Amma var alltaf kölluð Edda, þó að hún héti Ingibjörg. Frekar skrítið, enda engin augljós tenging milli nafnanna. Hún sagði að það væri gott að heita Edda. Amma fylgdist vel með á meðgöngunni, eftir hvern sónar fór ég til ömmu og hún skoðaði svarthvítar sónarmyndir með stækkunargleri og sagði falleg orð við barnið og sendi því fingurkossa.

Þegar ég var lítil sagði ég víst að ég héldi að Eddamma hlakkaði til að deyja og bætti svo við „það væsir víst ekki um þá sem eru hjá Guði“. núna er amma komin til Guðs og ekki væsir um hana, afi hefur allavega tekið vel á móti Eddu sinni.

Pálína Axelsdóttir Njarðvík.

Ingibjörg Axelsdóttir, ávallt kölluð Edda, kom inn í líf okkar systkinanna þegar Helga móðir okkar tók saman við Árna, frumburð Eddu. Þrátt fyrir að eiga fjölda barnabarna sjálf tóku hún og afi Árni okkur opnum örmum og létu okkur ávallt líða eins og við tilheyrðum fjölskyldunni.

Amma Edda var öllum þeim eiginleikum gædd sem prýða framúrskarandi ömmu. Hún var einstaklega jákvæð, hlý og góð. Það smitaði út frá sér og það var alltaf góður andi á Hjarðarhaganum. Amma studdi vel við bakið á sínu fólki og var áhugasöm um hvað allir í fjölskyldunni voru að gera.

Það var alltaf gaman að koma í heimsókn, amma reiddi fram glæsilegar veitingar á meðan við tókum tafl við afa. Við munum sakna þessara heimsókna og sérstaklega hinnar skemmtilegu jólahefðar að mæta í afmælið hennar 13. desember þar sem hún safnaði saman sínu fólki og bauð til veislu á aðventunni.

Amma Edda var fagurkeri fram í fingurgóma, hélt fallegt heimili og var ávallt vel til höfð. Er okkur minnisstætt að fyrir nokkrum árum, þegar amma var kominn vel á tíræðisaldur, gat hún ekki hugsað sér að taka á móti sumrinu án þess að kaupa sér nýjar bleikar buxur, því bleikur væri litur sumarsins.

Þá er Gunnari sérstaklega minnisstætt þegar amma Edda kom í heimsókn til Kaupmannahafnar árið 2007 þegar hann var þar í skiptinámi. Áttu þau þar saman góðan tíma og var ferðin oft rifjuð upp árin á eftir.

Hvíldu í friði, elsku amma Edda. Takk fyrir allar samverustundirnar og fallegu minningarnar.

Við kveðjum þig elsku amma mín,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvödd í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

(Halldór Jónsson frá Gili)

Fríða og Gunnar.

Fyrir um það bil níutíu árum, upp úr 1930, bundust tvær litlar telpur vináttuböndum í Miðbæjarbarnaskólanum við Tjörnina. Önnur hét Fríða Björg en hin Ingibjörg, alltaf kölluð Edda. Þær voru ólíkar um sumt en áttu þó fleira sameiginlegt. Báðar bjuggu yfir dugnaði og seiglu, sem oft kom sér vel þegar á móti blés, og báðar höfðu fengið létta lund í vöggugjöf – ávallt stutt í bros og hlátur, sama á hverju gekk.

Æskuvinkonurnar gengu samstiga í áttatíu ár og aldrei var langt á milli þeirra í neinum skilningi. Á tímabili leigðu þær meira að segja saman, ásamt Árna eiginmanni Eddu og Stefaníu, dóttur Fríðu. Lengst af bjuggu þær þó í návígi í Vesturbæ Reykjavíkur, Fríða með sína fjölskyldu við Neshaga og Edda með sína handan við hornið, við Hjarðarhaga.

Ég held að það séu engar ýkjur að aldrei hafi borið skugga á vináttu þeirra. Þær áttu trúnað hvor annarrar alla tíð, studdu hvor aðra og gáfu sér alltaf tíma til að hittast þótt fjölskyldurnar stækkuðu og vinna utan heimilis og fleiri skyldur kölluðu. Og þegar vel gekk hjá annarri gladdist hin, sama hvernig á stóð hjá henni sjálfri.

Fyrir tíu árum, í janúar 2014, lést Fríða Björg og Edda dró ekki dul á söknuðinn sem fylgdi því að missa svo nána vinkonu, enda voru þetta mikil kaflaskil. Líf þeirra hafði jú verið samfléttað og aldrei liðið margir dagar án þess að þær hittust í alla þessa áratugi.

Nú hefur Edda einnig kvatt jarðlífið. Langri og farsælli lífsgöngu er lokið. Hin eina, sanna, jákvæða og káta Edda er horfin af sjónarsviðinu og við, Fríðubörn og fjölskyldur, sendum ástvinum hennar innilegar samúðarkveðjur. Við minnumst Eddu með bros á vör, yl í hjarta og þakklæti fyrir trausta vináttu.

Jónína Leósdóttir.

Edda var besta vinkona ömmu Fríðu, alveg frá því að þær voru litlar stelpur. Eddu hafði ég því þekkt alla ævi, hún og amma voru svo miklar vinkonur að hún var einhvern veginn hluti af okkar fjölskyldu líka. Hún var alltaf með okkur á tyllidögum í fjölskyldunni, í fermingar- og stúdentsveislum og þvíumlíku auk þess sem oft mátti auðvitað rekast á hana á Neshaganum.

Ég var svo heppin að kynnast Eddu enn betur fyrir allmörgum árum þegar ég var endurtekið í fæðingarorlofi og labbaði mér svo oft niður Hofsvallagötuna og í heimsókn til ömmu. Þar hitti ég gjarnan þær vinkonur sem höfðu þann sið um langt skeið að hittast alltaf eftir hádegi á þriðjudögum. Stundum gerðu þær eitthvað skemmtilegt sér til upplyftingar, fóru í bæjarferð eða á kaffihús og stundum fékk ég að fara með. Í einni slíkri ferð á kaffihús sem þá var í húsi Þjóðminjasafnsins létu þær eins og unglingar. Hlógu og flissuðu yfir þeirri staðreynd að þær tvær væru komnar yfir áttrætt! Það fannst þeim alveg ótrúlega furðulegt! Þarna áttaði ég mig á því að hugurinn breytist lítið þó að árin verði fleiri og fleiri! Þær vinkonur voru sannarlega ungar í anda og allaf glaðar, jákvæðar og skemmtilegar. Töluðu svo fallega um og við hvor aðra og augljóst að vinskapurinn var innilegur.

Eftir að amma lést hitti ég Eddu sjaldnar en af og til þó, nú síðast á Grund í sumar. Hún var sjálfri sér lík, skörp og minnug og spurði mikið um mig og mína eins og hennar var von og vísa. Edda hugsaði einstaklega vel um fólkið í kringum sig og ég man að hún átti iðulega von á fjölda manns í mat og oftast bjó hjá þeim einhver afkomandinn. Enda var fullt út úr dyrum í litla herberginu á Grund og mig grunar að svo hafi verið flesta daga sem hún dvaldi þar.

Ég mun ávallt minnast þessarar einstöku konu með mikilli hlýju. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég til hennar stóru fjölskyldu.

Ingunn Jónsdóttir.