— Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Brunagaddur, hrímguð tré, fallegar frostrósir og stjörnur á himni. Ég komst algjörlega í jólaskapið með því að fara í Skógarböðin við Akureyri. Eftir tónleika með Friðrik Ómari og innlit á veitingastað var toppurinn á öllu sá að komast í…

„Brunagaddur, hrímguð tré, fallegar frostrósir og stjörnur á himni. Ég komst algjörlega í jólaskapið með því að fara í Skógarböðin við Akureyri. Eftir tónleika með Friðrik Ómari og innlit á veitingastað var toppurinn á öllu sá að komast í böðin,“ segir Kristín Halla Bergsdóttir tónlistarkennari í Skagafirði. Kristín Halla segir að á heimaslóð hennar fyrir norðan sé svipur og hátíðleiki jólanna nú að færast yfir allt.

„Ég var með barnakórana sem ég stjórna á aðventustund í gamla bænum í Glaumbæ fyrir nokkrum dögum. Börnin sungu alveg eins og englar og bræddu hjörtu allra. Þegar við svo stóðum úti á hlaði í Glaumbæ sást til Venusar á himni, sem börnin voru fljót að álykta sem svo að væri Betlehemsstjarnan og við skulum bara segja að svo sé. Skagafjörður stendur alltaf fyrir sínu. Og lyktin, maður minn! Víða er á bæjum verið að reykja hangikjöt og ilm frá reykkofum leggur yfir sveitir svo finnst jafnvel úti á þjóðvegum. Þetta er alvöru.“

„Hjá mér hefur aðventan þetta árið verið tími aðlögunar. Fyrir nokkru hætti ég sem framkvæmdastjóri Kringlunnar og stýri ég þróunarfélagi í eigu Reita um uppbyggingu á Kringlureit. Er þar með kominn úr þessu daglega amstri þar sem desember er jafnan annasamur vertíðarmánuður,“ segir Sigurjón Örn Þórsson.

„Þetta eru mikil viðbrigði eftir tæplega tuttugu ár við stjórnvölinn. Áður var ég raunar sjálfur kaupmaður. En í þessu felast auðvitað mikil tækifæri til þess að njóta með fjölskyldunni; konu, dætrum og afabörnunum þar sem við fengum nýlega tvíbura.“

Jafnhliða daglegum störfum er Sigurjón stjórnarformaður Sólheima í Grímsnesi. Hefur þess vegna haft í ýmsu að snúast við jólamarkað Sólheima sem var í Kringlunni. Fallegt handverk heimilisfólks staðarins fékk þar góðar viðtökur. „Sólheimar og starf þar á sér sess í vitund Íslendinga; slíkt finnum við vel á markaðnum og við ýmis önnur tilefni.“

„Skatan á Þorláksmessu er eitt af því besta í desember,“ segir Eiður Welding, starfsmaður Tryggingastofnunar.

„Í minni fjölskyldu er ómissandi hefð að fólk hittist heima hjá ömmu á Þorláksmessu. Við erum ættuð vestan úr Bolungarvík þar sem skötumenningin á sér sterkar rætur og einmitt að vestan er fiskurinn fenginn. Mér finnst þetta mjög skemmtilegur siður sem ekki má missa sín, ekki frekar en að fara niður í bæ hér í Reykjavík og sjá litríkar ljósaskreytingarnar. Þær setja svo sannarlega svip á umhverfið og hafa stytt skammdegið svo um munar.“

Eiður segist vel settur og eiga flest sem þarf. Jólagjafir skipti sig því ekki miklu, nema sá góði hugur sem þeim fylgir. „Þó get ég nefnt að mig langar í Frasabókina, þar sem er að finna helstu slettur og orðatiltæki sem krökkum í dag eru töm. Sjálfsagt er ég gömul sál. Að fá bók með þessum orðaleikjum mun því yngja mig upp og þó er ég aðeins tvítugur.“

„Best í desember er sá kærleikur sem þá liggur í loftinu. Á þessum tíma verður öllum í raun eðlislægt að hugsa af velvild til ástvina sinna; sem mikilvægt er að eiga góðar samverustundir með,“ segir Jenný Björgvinsdóttir, stöðvarstjóri hjá N1 á Hvolsvelli.

„Hér á stöðinni er alltaf nóg að gera á þessum tíma. Fjöldi ferðamanna og svo fer fólk úr sveitunum í bæinn til að kaupa jólagjafir og fleira. Kemur þá gjarnan við hér í N1. Á þessum tíma er fólk líka mjög farið að hugsa til nýja ársins. Margar minningar frá síðustu mánuðum koma upp í hugann sem gaman er að staldra við. En mikilvægast er að horfa af bjartsýni til framtíðar. Jólin eru í raun á hárréttum tíma. Vetrarsólstöður eru 22. desember og þaðan í frá fer sólin að hækka á lofti. Hvað dagurinn hefur lengst sést að verulegum mun þegar komið er fram í miðjan janúar og þá eru á dagatalinu þorrablót og allskonar skemmtanir. Eitthvað sem svo sannarlega er tilhlökkunarefni og slíkt gefur lífinu gildi.“

„Samveran með fjölskyldunni gerir desember að góðum tíma,“ segir Ragnhildur Kristjánsdóttir, sölumaður hjá Innnesi. „Nú fyrr í desember fluttu dóttir mín og tengdasonur aftur heim til Íslands eftir að hafa búið í meira en áratug í Svíþjóð. Með því endurheimti ég þrjú af barnabörnunum mínum, dásamlega krakka á aldrinum 8-12 ára. Ég hlakka til að geta átt margar gæðastundir með þeim á næstu árum.“

Ragnhildur segir desember vera annatíma í starfi sínu. Fara þurfi víða í verslanir að kynna vörur, selja og raða í hillur – nú sælkeravörum enda vilji fólk gera vel við sig fyrir jólin. Þar sé Innnes með alla flóruna; fullt hús matar svo sem kjötvörur og fleiri krásir.

„Gæðasúkkulaði eins og Toblerone og Anton Berg er fyrir þau vandlátu og rýkur út. Ég raða kynstrunum öllum af svona góðgæti í hillur verslana og hef varla undan. Svo er Innnes líka sterkt í sölu á allskonar ávöxtum, eins og til dæmis appelsínum, eplum og mandarínum en að slíkar séu á jólaboðinu þykir mörgum vera ómissandi.” sbs@mbl.is