Forystumenn Jóhanna Sigurðardóttir og Wen Jiabao á Þingvöllum 2012.
Forystumenn Jóhanna Sigurðardóttir og Wen Jiabao á Þingvöllum 2012. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslendingar fluttu inn vörur frá Kína fyrir 95 milljarða á fyrstu tíu mánuðum ársins. Það er annar mesti innflutningur á einu ári frá upphafi og vantar þó nóvember og desember í tölurnar. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar en innflutningurinn frá aldamótum er hér sýndur á grafi

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Íslendingar fluttu inn vörur frá Kína fyrir 95 milljarða á fyrstu tíu mánuðum ársins. Það er annar mesti innflutningur á einu ári frá upphafi og vantar þó nóvember og desember í tölurnar.

Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar en innflutningurinn frá aldamótum er hér sýndur á grafi. Tölur eru á verðlagi hvers árs.

Árið í fyrra var metár í innflutningi frá Kína. Þá fluttu Íslendingar inn vörur frá Kína fyrir 122,2 milljarða. Það er rúmlega 32 sinnum meiri innflutningur að nafnvirði en árið 2000 þegar innflutningur nam tæplega 3,8 milljörðum króna. Sú upphæð er um 11,3 milljarðar að núvirði, lauslega núvirt samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofunnar, og hefur innflutningurinn því tæplega ellefufaldast að raunvirði.

Innflutningurinn miðast við svonefnt Cif-verð; Fob-verð að viðbættum kostnaði sem fellur á vöruna þar til henni er skipað upp í innflutningslandi.

Tímamótasamningur

Tímamót urðu í viðskiptasögu ríkjanna þegar fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína var undirritaður 15. apríl 2013. Það var eitt af síðustu embættisverkum Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra en vinstristjórnin fór frá völdum nokkrum vikum síðar.

Innflutningurinn jókst í kjölfar samningsins. Hann var tæplega 48 milljarðar 2013, eða 69 milljarðar á núvirði samkvæmt sömu lauslegu aðferð, en sem áður segir 122,2 milljarðar í fyrra.

Útflutningur frá Íslandi til Kína hefur ekki aukist jafn mikið í krónum talið en þó meira hlutfallslega.

Hann var þannig rúmir 7 milljarðar árið 2013, eða um 10 milljarðar á núvirði, en 21,4 milljarðar í fyrra. Hann er tæpir 18 milljarðar fyrstu tíu mánuði þessa árs og gæti metið því fallið á árinu, að nafnvirði. Tölur um útflutning miðast við svonefnt Fob-verð; verðmæti vörunnar komið um borð í flutningsfar. Gengissveiflur hafa áhrif á verðmætið í krónum.

Hófust árið 2007

Á vef Stjórnarráðsins er fjallað um tilurð fríverslunarsamningsins:

„Samningaviðræður um fríverslunarsamning milli Íslands og Kína hófust með samningalotu í apríl 2007. Áður hafði farið fram viðamikill undirbúningur milli embættismanna. Hér innanlands var haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila um gerð fríverslunarsamningsins. Önnur samningalota var haldin í júní 2007, þriðja í október sama ár og loks sú fjórða í apríl 2008. Þegar fjórðu lotunni sleppti lágu eiginlegar fríverslunarviðræður milli ríkjanna niðri allt til ársins 2012 sökum dvínandi áhuga Kínverja, og voru ýmsar ástæður upp gefnar. Nokkuð bar þá í milli í samningaviðræðunum og önnur ríki höfðu bæst í hóp þeirra ríkja sem vildu semja við Kína, m.a. félagar Íslands úr EFTA, Sviss og Noregur.

Málið komst á nýtt stig í apríl 2012 með opinberri heimsókn Wen Jiabao, þáverandi forsætisráðherra Kína, til Íslands. Meðal niðurstaðna forsætisráðherra Íslands og Kína var að flýta viðræðum um fríverslunarsamninginn. Sammæltust þau um að leiða þær til lykta innan árs.

Jólalota í Reykjavík

Við tók undirbúningur fyrir frekari samningalotur og áður en lota var haldin í Reykjavík fyrir jól 2012 voru haldnir nokkrir undirbúningsfundir embættismanna. Sjötta og síðasta lota samningaviðræðna var svo haldin í Peking dagana 22.-24. janúar 2013. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Gao Hucheng utanríkisviðskiptaráðherra Kína undirrituðu samninginn 15. apríl 2013,“ segir þar m.a. Þá er á sama vef að finna upplýsingar um hvaða önnur ríki Kína hefur gert fríverslunarsamninga við en þau eru: Hong Kong og Makaó (2004), Samband Suðaustur-Asíuríkja (ASEAN) (2005), Síle (2006), Pakistan (2007), Nýja-Sjáland (2008), Singapúr (2009), Perú (2010), Kosta Ríka (2011) og Sviss (2013), Ástralía (2015), Suður-Kórea (2015) og Georgía (2017).

Niðurfelling tolla

Varðandi tolla og fríverslunarsamninginn við Kína segir á vef Stjórnarráðsins að líkt og í öðrum fríverslunarsamningum sé gert ráð fyrir að Ísland felli niður tolla á öllum vörum, að undanskildum ákveðnum landbúnaðarafurðum, einkum kjötvörum og mjólkurafurðum.