Viðurkenning Örlygur Hnefill Jónsson, t.h., afhendir sendiherra viðurkenninguna góðu.
Viðurkenning Örlygur Hnefill Jónsson, t.h., afhendir sendiherra viðurkenninguna góðu.
Indverska geimvísindastofnunin ISRO hlaut nú í vikunni Landkönnunarverðlaun Leifs Eiríkssonar þegar þau voru veitt í níunda sinn af Könnunarsafninu á Húsavík. Indverjarnir fengu verðlaunin fyrir Chandrayaan-3-leiðangur sinn að suðurpóli tunglsins

Indverska geimvísindastofnunin ISRO hlaut nú í vikunni Landkönnunarverðlaun Leifs Eiríkssonar þegar þau voru veitt í níunda sinn af Könnunarsafninu á Húsavík. Indverjarnir fengu verðlaunin fyrir Chandrayaan-3-leiðangur sinn að suðurpóli tunglsins. Sendiherra Indlands á Íslandi, Balasubramanian Shyam, tók við verðlaununum frá safninu fyrir hönd ISRO. Sreedhara Somanath forstjóri stofnunarinnar flutti að því loknu yfir netið ávarp frá Bangalore á Indlandi.

Leiðangur ISRO var farinn í ágúst síðastliðnum og þykir hafa mikla þýðingu. „Indverjar eru mjög að sækja í sig veðrið á sviði geimvísinda og eru þar að komast í hóp forystuþjóða,“ segir Örlygur Hnefill Örlygsson forstöðumaður könnunarsafnsins. Verðlaun fékk sömuleiðis geimfarinn Kellie Gerardi, ung bandarísk kona sem sem flaug í síðasta mánuði í geimfari Virgin Galactic.

Einnig fékk verðlaun Húsvíkinga geimfarinn Bill Anders. Hann var þátttakandi í leiðangri Apollo 8 til tunglsins árið 1968; fór þá meðal annars með félögum sínum tíu hringi umhverfis mánann. Hafði fyrir geimferðina komið til Íslands í æfingaskyni. Heillaðist þá af landinu og í Apollo-ferjunni, nærri tunglinu, var hann með íslenska smámynt í vasanum, eins og frægt varð á sínum tíma. sbs@mbl.is