Daníel Reynir Dagsson fæddist í Reykjavík 16. apríl 1945. Hann lést í sumarhúsi sínu í Dagverðarnesi í Skorradal 8. desember 2023. Foreldrar Daníels voru Dagur Daníelsson frá Guttormshaga í Holtum í Rangárvallasýslu, f. 17.10. 1918, d. 27.7. 2001, og Ólína Guðmunda Sigurðardóttir frá Kirkjubóli í Mosdal við Arnarfjörð, f. 8.12. 1917, d. 4.10. 2008. Bróðir Daníels er Kristinn, f. 1.6. 1952. Eftirlifandi eiginkona Daníels er Þorbjörg Stefanía Þorvarðardóttir, f. 14.1. 1952. Fyrri kona Daníels er Guðlaug Snorradóttir sérkennari.

Fyrstu ár ævi sinnar bjó Daníel ásamt fjölskyldu sinni á Grettisgötunni en flutti síðar með þeim í húsið á Álfhólsvegi 82 í Kópavogi, sem faðir hans byggði. Daníel lærði húsasmíði við Iðnskólann í Reykjavík og lauk þaðan sveinsprófi árið 1967. Hann varð meistari í iðninni fáum árum seinna og stundaði alla tíð síðan margvísleg smíðastörf.

Að námi loknu starfaði Daníel við trésmíðar í stærri verkefnum hjá lærimeistara sínum, Guðmundi Jóhannssyni. Á þeim árum sinnti hann um skeið almennri kennslu og smíðakennslu í Heyrnleysingjaskólanum með smíðunum. Hann var líka búsettur og starfandi í Svíþjóð um stund.

Lengst af vann Daníel sjálfstætt sem smiður. Hann byggði nokkur íbúðarhús í Kópavoginum, m.a. sitt eigið í Hvannhólma 18, smíðaði fjölmarga sumarbústaði víða um land, auk þess að sjá um viðgerðir og viðhald á gömlum húsum, og á fasteignum Félagsbústaða í eigu Reykjavíkurborgar.

Daníel kenndi lengi námskeið í trésmíði og útskurði hjá Kvöldskóla Kópavogs í Snælandsskóla og á eigin vegum í Kársnesskóla. Einnig var hann leiðbeinandi á samskonar námskeiðum í félagsstarfi eldri borgara í Smiðjunni í Garðabæ til desember 2023 og um tíma að Norðurbrún 1 í Reykjavík.

Síðustu æviárin átti Daníel heimili með Stefaníu á Álfhólsveginum, en þau dvöldu jafnframt löngum stundum í sumarhúsunum við Skorradalsvatn og á Hyrningsstöðum í Reykhólasveit. Bæði mikið hagleiks- og handverksfólk.

Útför hans fer fram frá Hjallakirkju í dag, 21. desember 2023, klukkan 13.

„Lífið er stutt … dauðinn er vís … og þér vitið ekki nær eð húsbóndinn kemur.“

(Úr Vídalínspostillu)

„Þú færð 9,5 fyrir þessa lökkunarvinnu,“ sagði Daníel R. Dagsson við mig fimmtudaginn 7. desember 2023 kl. 11.30. Við vorum að virða fyrir okkur nýlakkaðan baðherbergisglugga uppi á lofti hér heima. Við áttum svo erindi í svefnherbergið við hliðina til að taka ákvörðun um bráðabirgðaviðgerð mína á glugga, sem hann hugðist endurbæta næsta vor þegar hann kæmi til að lagfæra smáskemmd í útitröppum.

Nú var klukkan að verða tólf. Daníel hafði hringt í mig um morguninn vegna litaprufa fyrir borðstofustól sem hann var búinn að líma upp fyrir mig. Að vanda hugðumst við nota tækifærið og fá okkur hádegisfrúkost, síld, rúgbrauð og snafs, þegar hann kæmi. En nú lá leiðin ofan í kjallara. Daníel hafði farið í fótaaðgerð og var í sérstökum skó utan um umbúðirnar. Ég hafði áhyggjur af þessum stigaferðum og opnaði því fyrir honum útikjallaradyrnar til að gera ferðina niður auðveldari. Förgun asbestplatna sem ég hafði rifið úr kyndiklefanum barst í tal en hann hafði ráðlagt mér að vera með grímu og bleyta staðina þar sem ég myndi losa um naglana. Nú skoðuðum við illa farið þilið sem komið hafði í ljós þegar asbestið var fjarlægt og réðum ráðum okkar varðandi nýjan vegg sem þyrfti að smíða þarna í staðinn. Hann „myndi kannski ná því áður en hann færi til Kanarí í janúar“. Tvö stór en ónotuð heitavatnsrör þvældust þarna fyrir. Hann sagðist eiga sverðsög sem hann myndi lána mér á mánudaginn svo ég næði þeim út. Við ræddum um fyrirhugaða flotun kjallaragólfsins: „Þú skalt nota staurasteypu til að fylla upp í dældir en gæta þess að hreinsa vel undir og jafnvel kústa með sementsblöndu.“

Þessu næst var sest til borðs uppi. En áður en dreypt skyldi á snafsinum með Ásdísi voru litaprufurnar skoðaðar. Við hjónin urðum sammála um að tekkbæs færi stólnum best. Við vorum ekkert að hugsa um „húsbóndann mikla“ sem sá til þess að þetta yrði okkar síðasta máltíð saman og að stóllinn yrði ekki kláraður. En kveðjuveislan sem honum var nýverið haldin í kvöldskólanum í Garðabæ, þar sem hann hafði kennt fólki smíðar og útskurð í þrjá áratugi, barst í tal. Hann hafði verið kvaddur með virktum og leystur út með gjöfum. Hann átti eftir að sækja nokkur verkfæri þangað og ganga frá. Smiðurinn var ekki hættur. Eftir hádegið ætlaði hann samt með Stefaníu sinni í bústaðinn þeirra í Skorradalnum en stólinn fengjum við bæsaðan fyrir jól. Þegar við kvöddumst um eittleytið átti þessi öðlingur aðeins rúma tuttugu og eina klukkustund eftir ólifaða. Hann var burtkallaður klukkan hálfellefu næsta morgun.

Tómið sem hann skilur eftir sig er stórt í okkar lífi og fjölda annarra sem hann þjónaði af sömu alúð og okkur. Árin okkar urðu 21 við endurbætur og viðhald hússins okkar. Enginn verkþáttur var of lítilfjörlegur til að honum skyldi ekki sinnt. Hann var óspar á uppörvun, ráðgjöf og hrós.

Það er með ósegjanlegu þakklæti sem við kveðjum þennan fjölskylduvin. Hans skarð verður ekki fyllt.

Erlendur Sveinsson.

Elsku Daníel.

Við minnumst þín með mikilli hlýju og söknuði. Þú varst áhugaverður, skemmtilegur og velviljaður maður með fallega nærveru og sterkan persónuleika. Gaman var að hitta og spjalla við þig, enda þú vel fróður um menn og málefni. Ávallt var stutt í grínið hjá þér og þú kunnir svo sannarlega að segja margar gamansamar sögur með þínum einstaka hætti.

Gott var að leita til þín með mál tengd smíðum og ýmsu fleiru því þú varst alltaf tilbúinn að aðstoða okkur í þeim efnum. Sérstaklega ánægjulegt var að heimsækja þig og Stefaníu í sumarbústað ykkar í Skorradalnum. Þar varst þú á heimavelli, tókst ætíð vel á móti fólki og naust þín vel í samræðunum.

Við þökkum þér fyrir afar góð kynni og margar gæðastundirnar í gegnum árin. Minning þín lifir í hjörtum okkar.

Hvíl í friði okkar kæri.

Rós, Hallsteinn, Guðlaug, Ísleifur og Stefanía.

Þolinmóður, ljúfur og hjálpsamur var hann Daníel, sem var með smíðahópinn okkar öll þriðjudagskvöld í mörg ár. Fyrstu árin í Kvöldskóla Kópavogs en síðan þegar skólinn var lagður niður fékk hann aðstöðu fyrir okkur í Safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ. Hver nemandi með sitt gæluverkefni, oft mjög metnaðarfullt og óraunsætt, en við gátum þó alltaf reitt okkur á fullan stuðning hans. Þarna voru því smíðuð kynstrin öll af flottum smíðagripum, heilu garðhýsin, stólar og borð, gamalt gert upp og ef einhverjum datt í hug að bólstra, þá var gengið í það.

Og Daníel kunni allt og vissi allt. Hann gaf góð ráð við smíðarnar, einnig varðandi viðhald á heimilum okkar og sumarhúsum, lagði jafnvel hönd á plóg, tók að sér verkið eða kallaði til vandfundna iðnaðarmenn.

Dýrmætast allra djásna var hann.

Við söknum hans óendanlega mikið og sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Ingibjörg Pétursdóttir, Aðalbjörg Ólafsdóttir, Ragnheiður Ólafsdóttir, Vilborg Sverrisdóttir, Einar Baldvin Stefánsson og Iðunn Leifsdóttir.

Allir deyja en alltaf er það áfall, sérstaklega ef það er snöggt. En að Daníel sé kominn yfir á græna grundu svona fljótt, aðeins 78 ára, er erfitt að meðtaka. Daníel var með einhverja krankleika en hann hefði átt að verða 98 ára. Þvílíkur viskubrunnur sem Daníel var. Aldrei var komið að tómum kofunum hjá honum. Aðstoð hans við okkur hjónin var alltaf vel metin, handlaginn eins og hann var þekktur fyrir. Þegar hann mætti niður í vinnu spurði hann alltaf: Hvernig hefur þú það svo? Það var mikið spjallað, glens og gaman. Ég mun ætíð minnast hans með miklum hlýhug.

Kær samúðarkveðja til Þorbjargar og fjölskyldu og blessuð sé minningin um Daníel.

Auðbjörg og Halldór.