Þjálfari Halldór Árnason tók við þjálfun Breiðabliks hinn 8. október.
Þjálfari Halldór Árnason tók við þjálfun Breiðabliks hinn 8. október. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lengsta tímabili íslensks knattspyrnuliðs frá upphafi lauk á dögunum þegar karlalið Breiðabliks lék lokaleik sinn í B-riðli Sambandsdeildar UEFA gegn Zoryu Luhansk frá Úkraínu í Lublin í Póllandi. Alls léku Blikar 48 mótsleiki frá 4

Fótbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Lengsta tímabili íslensks knattspyrnuliðs frá upphafi lauk á dögunum þegar karlalið Breiðabliks lék lokaleik sinn í B-riðli Sambandsdeildar UEFA gegn Zoryu Luhansk frá Úkraínu í Lublin í Póllandi.

Alls léku Blikar 48 mótsleiki frá 4. apríl og í kringum 60 leiki ef undirbúningstímabilið síðasta vetur er talið með.

Halldór Árnason tók við stjórnartaumunum hjá Blikum hinn 8. október þegar Óskar Hrafn Þorvaldsson lét nokkuð óvænt af störfum en Halldór, sem er 39 ára gamall, hefur verið aðstoðarþjálfari Óskars Hrafns undanfarin sex ár, fyrst hjá Gróttu og síðar Breiðabliki.

„Það er ákveðið spennufall í gangi núna en maður finnur líka fyrir ákveðinni tómleikatilfinningu,“ sagði Halldór í samtali við Morgunblaðið.

„Við erum nánast búnir að vera að spila fótboltaleiki á þriggja daga fresti alveg frá því í júní. Það er skrítið að allt í einu sé tímabilinu lokið og maður er hálfpartinn ennþá að átta sig á því. Þetta voru ansi margir leikir sem við spiluðum á árinu og það er sérstakt að vera allt í einu í einhverju fríi og þurfa ekki að undirbúa næsta leik,“ sagði Halldór.

Deildin í annað sætið

Blikar unnu Íslandsmótið árið 2022 með miklum yfirburðum en liðið var hins vegar í miklum vandræðum í ár og endaði í fjórða sætinu með 41 stig, 25 stigum minna en Íslandsmeistarar Víkings.

„Þegar maður horfir til baka þá færist fókusinn hjá okkur, algjörlega ómeðvitað, yfir á Evrópukeppnina. Víkingar byrja mótið af þvílíkum krafti og eftir því sem leið á varð alltaf erfiðara og erfiðara að elta þá. Eftir fyrstu tíu umferðirnar vorum við með 20 stig sem hefði á einhverjum tímapunkti dugað til þess að vera á toppnum en þá voru Víkingar samt með fimm stiga forskot á okkur. Eftir á að hyggja þá færist fókusinn okkar alveg yfir á Evrópukeppnina eftir leikinn gegn Shamrock Rovers þar sem við eigum allt í einu alvöru möguleika á sæti í riðlakeppni.

Við spilum einhverja 16 Evrópuleiki allt í allt að forkeppninni í Meistaradeildinni meðtalinni, það er ekkert mjög langt frá leikjafjöldanum í venjulegri 10 liða deild eins og þetta var einu sinni þegar spilaðir voru 18 leikir á tímabili. Evrópukeppnin var svakalega stórt og mikið mót, við spiluðum sitt á hvoru liðinu í Evrópu og í deildinni hérna heima og deildin var allt í einu komin í annað sætið. Það var alls ekki planið en svona æxluðust hlutirnir bara.“

Mættu þremur stórliðum

Flestir spáðu Breiðabliki Íslandsmeistaratitilinum í ár en lítur þjálfarinn á tímabil Blika sem vonbrigði?

„Þetta tímabil var ekki vonbrigði að mínu mati þar sem við urðum fyrsta karlaliðið til þess að tryggja okkur sæti í riðlakeppni í Evrópukeppni. Vissulega fengum við engin stig í riðlakeppninni en það vill samt gleymast í umræðunni að við vorum að mæta þremur stórliðum. Það voru einhverjir sem reyndu að tala þessa mótherja niður, sem mér fannst sérstakt.

Gent er frábært lið og félög í ensku úrvalsdeildinni hafa verið að bjóða milljónir punda í varamenn liðsins í gegnum tíðina. Þrátt fyrir að þeir séu gríðarlega sterkir enda þeir samt í öðru sæti riðilsins á eftir Maccabi Tel Aviv sem hefur verið eitt sterkasta lið Ísraels undanfarin ár. Zorya Luhansk er líka eitt af sterkustu liðum Úkraínu þó þeim hafi gengið illa í deildinni heima fyrir á tímabilinu en þar eru margir þættir sem spila inn í.“

Dómaramistökin dýr

Er þjálfarinn ánægður með frammistöðu liðsins í Sambandsdeildinni þrátt fyrir dræma stigasöfnun?

„Frammistaðan var góð í flestum leikjanna, það er klárt mál og við vorum nokkrum sinnum nálægt því að taka stig hér og þar. Það er í lagi að segja það núna en í heimaleikjunum gegn Gent og Maccabi Tel Aviv voru það dómaramistök sem kostuðu okkur stig. Við áttum að fá vítaspyrnu gegn Gent, í stöðunni 2:1 yfir, en þeir jafna svo úr vítaspyrnu sem átti aldrei að dæma. Sama á móti Maccabi Tel Aviv þegar þeir skora kolólöglegt mark og vinna 2:1. Hlutirnir féllu einfaldlega ekki með okkur í þessari keppni.

Við fórum inn í þessa keppni með okkar gildi að leiðarljósi, sömu gildi og tryggðu okkur sæti í henni. Mér finnst það mikilvægt og að við höfum verið trúir okkar gildum. Ég held að ef við hefðum farið að spila eitthvað öðruvísi og verið meira varnarsinnaðir, þá hefðum við verið mun svekktari með frammistöðuna eftir á. Við höfum séð íslensk lið kasta sínum gildum út um gluggann og leggjast í vörn í þessum Evrópuleikjum í gegnum tíðina og það hefur ekki skilað góðum árangri. Við vildum fyrst og fremst vera við sjálfir og við getum gengið stoltir frá borði.“

Í góðu sambandi við Óskar

Eins og áður sagði tekur Halldór við liðinu á sérstökum tímapunkti en hann og Óskar Hrafn hafa unnið mjög náið saman undanfarin sex ár.

„Þegar stjórn Breiðabliks leitaði til mín, eftir að Óskar hætti, var þetta aldrei spurning. Það er mikill heiður fyrir mig persónulega að vera treyst fyrir þessu stóra verkefni og þó að úrslitin hafi verið í vonbrigði í þeim leikjum sem ég stýrði liðinu var þetta mjög lærdómsríkur tími. Þú færð ekki stærra próf sem þjálfari en fjóra leiki í Sambandsdeildinni til að byrja með og það var fínt að byrja á þessum leikjum.

Ég og Óskar unnum mjög vel saman og það er eðlilegt, þegar menn hafa starfað saman í sex ár, að maður taki eitthvað frá honum inn í sitt starf. Ég lærði mikið af Óskari en það er líka mikilvægt fyrir mig í framtíðinni að skapa minn eigin stíl og handbragð og yfirfæra það svo á liðið. Ég er hins vegar ekki að fara að umbreyta öllu hjá Breiðabliki enda hafa hlutirnir gengið mjög vel síðan Óskar tók við hérna. Við erum góðir vinir, tölum mikið saman, og ef hann hefði ekki hætt með liðið þá hefði ég að öllum líkindum starfað áfram við hlið hans hjá Breiðabliki.“

Ætlar að styrkja hópinn

Blikar ætla sér stóra hluti á næstu leiktíð og kemur fátt annað til greina en að blanda sér af alvöru í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn.

„Markmiðið hjá Breiðabliki er að berjast um alla þá titla sem í boði eru og fara langt í Evrópukeppninni líka. Við erum með mannskapinn og umgjörðina til þess að berjast á toppnum og það kemur í raun ekkert annað til greina. Við þekkjum það að vinna titla og við vitum líka hvernig það er að tapa honum núna. Við viljum fá Íslandsmeistaraskjöldinn aftur í Kópavoginn og hungrið er mikið.

Ég vil styrkja hópinn fyrir komandi átök og þrátt fyrir að við séum með stóran og breiðan hóp þá er alltaf mikilvægt að fá inn nýja og ferska leikmenn. Við höfum misst leikmenn frá síðustu leiktíð eins og Stefán Inga Sigurðsson og Klæmint Olsen. Davíð Ingvarsson er líklega á förum og þá er mikill áhugi á yngri leikmönnum liðsins eins og alltaf. Við erum alltaf að skoða það hvar við getum styrkt liðið og ég á von á nokkrum nýjum andlitum fyrir næsta tímabil,“ bætti Halldór Árnason við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason