Skrímslakort Íslandskort Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups frá 1595, teiknað af Abraham Ortelius.
Skrímslakort Íslandskort Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups frá 1595, teiknað af Abraham Ortelius.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kenningar og þekking manna á skrímslum Þekking manna á skrímslum er sú sama í dag og á tímum Gamla testamentisins. Við höfum sögur og sjónarvottalýsingar á skrímslum en engar óyggjandi sannanir um að þau séu til

Kenningar og þekking manna á skrímslum

Þekking manna á skrímslum er sú sama í dag og á tímum Gamla testamentisins. Við höfum sögur og sjónarvottalýsingar á skrímslum en engar óyggjandi sannanir um að þau séu til. Sjónarvottalýsingar á skrímslum eru margar frá öllum tímum, allt frá fornöld til nútíma. Margt greint og óljúgfrótt fólk hefur séð skrímsli, sjómenn, bændur, veraldlegir embættismenn og guðsmenn, fólk sem kunni glögg skil á öllum húsdýrum og dýrum í sjó. Það stappar því nærri ósvífni að halda því fram að órannsökuðu máli að sjónarvottar hafi ekki séð það sem þeir sáu heldur hafi þeir séð eitthvað annað. Um tíma var reynt að afgreiða málið með því að skrímslatrú væri hluti hjátrúar og hindurvitna og myndi hverfa með aukinni þekkingu manna á umhverfi sínu. Það hefur ekki gerst. Skrímslin sjást áfram þótt nýjar kynslóðir komi. Ungt fólk sem aldrei hefur leitt hugann að skrímsli eða heyrt skrímslasögu og veit samkvæmt viðtekinni náttúrufræði að engin slík óþekkt dýr eru til sér engu að síður nykur eða orm koma upp úr djúpi stöðuvatna og fjörulalla, skeljaskrímsli eða hafmann feta þarabunka eða ösla sjávarpolla í fáförnum klettavíkum.

Í þessu riti eru skrímslin afmörkuð sem óþekkt stór dýr í sjó og vötnum, sem ekki verði ruglað saman við þekktar dýrategundir. Hins vegar hefur sú skoðun að skrímslin séu ekki til verið opinber og ríkjandi hér á landi og erlendis, haldið fram af vísindamönnum sem sumir hverjir hafa vilja kveða niður svokallaða skrímslatrú. Þrjár meginkenningar eru uppi um hvernig skýra megi skrímsli. Sú fyrsta er að skrímslin séu missýningar og misskilningur, önnur að þau séu andaverur og sú þriðja að þau séu óþekktar dýrategundir.

Kenningin um að skrímslin séu ekki til er viðtekin hér á landi og höfð í hávegum víða um heim. Menn þykist sjá skrímsli þar sem eru þekktar dýrategundir á ferð. Þá er því slegið föstu af þeim sem ekki hafa séð skepnur þessar að þær hafi einungis verið straumrastir, gas og torfur og gróðurrusl á floti í vötnum og ám. Þessi kenning er ósönnuð og ekki betur grunduð en aðrar. Þó að menn sjái lauf eða sprek reka í röstum á Lagarfljóti eða annars staðar og finni gas í setlögum undir vötnum afsannar það ekkert um skrímsli í vötnunum eða ónýtir lýsingar sjónarvotta á óþekktum skepnum þar. Sú kenning að skrímslin séu ekki til hefur síðan hamlað því að nokkur vísindaleg rannsókn hafi farið fram á tilvist þeirra. Fjöldi sagna um skrímsli telst almennt til þjóðsagna. Þar á meðal eru sagnir um hafmeyjar í hafinu og nykra í vötnum og tjörnum. Margar sögur eru um börn sem setjast á bak nykri sem steypir sér í vatn og drekkir börnunum. Nokkrar eftiráskýringar á skrímslum eru ögn langsóttari en aðrar, t.d. hafa menn útskýrt illskeytt skrímsli sem réðist á menn á Látraheiði sem örn þó að menn hafi séð annað. Sumir telja að hægt sé að útskýra skrímsli með því að segja að þar hafi verið otrar á ferð, en sú skýring er vandræðaleg því að otrar hafa aldrei sést hér á landi svo vitað sé. Sama gildir um tilgátu um að menn á Hornströndum hafi séð furðuverur í ofsjónum vegna matar og fjörefnaskorts. Breiðafjörður er matarkista Íslands, þar er fiskur, fugl og selur og þar varð aldrei hungursneyð, ekki einu sinni í móðuharðindunum í Skaftáreldunum 1783. Þar hafa samgöngur verið greiðastar og sigling til útlanda og þar hefur menntun og upplýsing verið með mesta móti fyrr á öldum. Engu að síður er skráður fjöldi skrímslasagna nánast úr hverri ey Breiðafjarðar sem var í byggð. Grínsögum er mjög haldið á lofti um hræðslu fólks við klakabrynjaða seli, kindur eða hesta í fjörum eða sem koma heim á bæi í myrkri og frosti og hringlar í. Þá eru sögur m.a. frá Breiðafirði, Vestfjörðum og frá Katanesi við Hvalfjörð um misheppnaða leiðangra, þar sem menn hafa verið gerðir út til að sjá eða ná skrímsli en ekki haft árangur sem erfiði. Þessar sögur eru oft notaðar til að sýna að það sem menn telji skrímsli sé byggt á misskilningi, fáfræði og jafnvel lygum.

Þórbergur Þórðarson rithöfundur setti fram þá kenningu að skrímslin væru andaverur eða andar forsögulegra dýra. Þórbergur komst að þessari niðurstöðu þar sem skrímslin í Grjótárvatni við mynni Hítardals virtust hafa lítið æti; þar var hvorki gróður né fiskur í vatninu. Það er fátt sem styður kenninguna um að skrímslin séu andaverur eða andar fornsögulegra dýra. Skrímslin haga sér ekki eins og draugar. Þau eru á ferli síðsumars og í skammdegi en þau gufa aldrei upp heldur hverfa öslandi í sjó eða vatn. Þau marka spor í harðan völl og þau skilja eftir sig hár, þara, skeljar, taðhrúgur og slímug bæli. Engin dæmi eru um að draugar eða aðrar andaverur geri slíkt.

Ekkert vit er í því að rengja heilu skipshafnirnar sem sjá skrímsli eða allt heimilisfólk á bæjum þar sem skrímsli hafa sést eins og á Kolfreyjustað og Gelti. Engin ástæða er heldur til að rengja frásagnir óljúgfróðra manna sem sjá skrímsli og segja frá því vitandi að það eina sem þeir hafa upp úr því er vantrú og hæðni samborgaranna. Ekki þýðir að draga fram þá þrætubókarlist að þar sem við þekkjum ekki þessi dýr séu þau ekki til. Nær væri í ljósi allra vísbendinganna að gera ráð fyrir tilvist þeirra þar til annað sannaðist. Þegar litið er yfir sviðið virðist allt benda til þess að skrímslin séu óþekktar dýrategundir. Þegar allar sjónarvottalýsingar eru bornar saman eru mestar líkur á að í sjó og í vötnum á Íslandi lifi dýrategundir sem eru órannsakaðar og ekki hafa enn hlotið sinn sess meðal tegunda í náttúrunni. Óyggjandi sannanir vantar enn, eins og hræ eða beinagrindur til að greina erfðaefni. Skrímslin flokkast því með öðrum óþekktum dýrum sem líklegast eru til, svokölluðum hulinsdýrum, og upplýsingar um skrímslin svokölluð skrímslafræði myndi þá vera hulinsdýrafræði, sem erlendis hefur verið kölluð „cryptozoology“.

Þegar skrímslasögur frá ýmsum landshlutum og frá mismunandi tíma eru bornar saman kemur í ljós að flokka má skrímslin í níu megintegundir. Sex þeirra búa í sjó: faxaskrímsli, fjörulallar, skeljaskrímsli, hafmenn, sæormar og lyngbakar. Þrjár í vötnum: nykrar, kambskrímsli og vatnaormar.