Bókaverslun Þýddar skáldsögur eiga undir högg að sækja þessa dagana.
Bókaverslun Þýddar skáldsögur eiga undir högg að sækja þessa dagana. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Mikil fækkun hefur orðið í útgáfu á þýddum skáldsögum hér á landi síðustu ár. Samkvæmt tölum frá Félagi íslenskra bókaútgefenda hefur þeim fækkað um 45% frá árinu 2021 og fram á þetta ár. Formaður Félags íslenskra bókaútgefenda telur að hið opinbera þurfi að grípa inn í þessa þróun.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Mikil fækkun hefur orðið í útgáfu á þýddum skáldsögum hér á landi síðustu ár. Samkvæmt tölum frá Félagi íslenskra bókaútgefenda hefur þeim fækkað um 45% frá árinu 2021 og fram á þetta ár. Formaður Félags íslenskra bókaútgefenda telur að hið opinbera þurfi að grípa inn í þessa þróun.

Árið 2021 var 201 þýtt skáldverk gefið út hér, samkvæmt tölum úr Bókatíðindum. Árið 2022 hafði þeim fækkað í 193 og í ár eru aðeins 110 þýdd verk skráð í Bókatíðindi. Nemur fækkunin á þessu þriggja ára tímabili 45%. Einhver skekkja kann að vera í skráningum milli ára en þróunin er skýr. Sér í lagi þegar horft er á tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna sem kynntar voru á dögunum. Á síðasta ári barst 81 tilnefning til verðlaunanna frá 23 forlögum en í ár barst aðeins 51 tilnefning frá 16 forlögum. Nemur fækkunin 37% milli ára.

„Þessi þróun er mikið áhyggjuefni,“ segir Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, þegar þessar tölur eru bornar undir hann.

Hann segir að miklar breytingar hafi orðið á lestri og aðgengi að bókum á síðustu árum sem skýri þessa þróun að einhverju leyti. „Hér í eina tíð voru þýddar bækur mjög algengar á jólabókamarkaðinum. Bækur eftir metsöluhöfunda á borð við Alistair MacLean og fleiri. Svo færðust þýðingar yfir í kiljur og kiljuútgáfa dreifðist yfir allt árið,“ segir Heiðar en á síðustu misserum hefur svo sala á kiljum dregist hratt saman eins og áður hefur komið fram í Morgunblaðinu. Tala margir um hrun í því samhengi.

„Ofan á þetta bætist betra aðgengi að erlendum skáldsögum, svo sem í gegnum Amazon og innflutning bóksala. Þú getur pantað nýútkomna bók til dæmis á ensku og fengið hana heim eftir tvo daga eða einfaldlega keypt hana sem rafbók eða hljóðbók. Þetta er auðvitað alþjóðleg þróun.“

Heiðar Ingi segir að í nágrannalöndunum sé lögð áhersla á að styðja við tungumálin til að þau fái áfram þrifist. „Víða er mikill stuðningur við bókaútgáfu til að styðja tungumálið. Þetta þarf auðvitað að gera betur hér þar sem er örtungumál. Ég geri ráð fyrir að þetta komi inn í vinnu við bókmenntastefnu sem nú stendur yfir. Þetta er vandi sem þarf að taka á. Við hljótum að skoða einhverjar mótvægisaðgerðir, til að mynda aukinn stuðning við þýðingar.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon