Það er eðlilegt að eldgosið á Reykjanesi verði skáldum og hagyrðingum að yrkisefni. Gunnar J. Straumland yrkir Jarðelda: Drynur Heljar druna drýpur glóð á nípu brenndur kviku brandur bleikur liðast reykur

Það er eðlilegt að eldgosið á Reykjanesi verði skáldum og hagyrðingum að yrkisefni. Gunnar J. Straumland yrkir Jarðelda:

Drynur Heljar druna

drýpur glóð á nípu

brenndur kviku brandur

bleikur liðast reykur.

Geigvænlegur gígur

gleiður myndar hreiður

grjóteggja í grýtu

gárast nornahárin.

Ingólfur Ómar Ármannsson yrkir:

Kvikan undir kraumar skæð

kölski illa lætur.

Loksins hefur opnast æð

upp við fjallsins rætur.

Magnús Halldórsson rifjar upp að hann var ungur að vinna í Rvk. og hitti á mann sem vildi kenna honum að nota stangarmél:

Stífa keðju stampast við,

stígur þykkjan.

Afturábak og út á hlið,

álpast bikkjan.

„Gleymdi að segja manninum þessa vísu, nú er það of seint. Þetta var rokugjarn hestur bleikur, sem maðurinn átti.“

Ólafur Stefánsson þakkar kærlega fyrir góðar afmæliskveðjur: „Segi eins og afi minn Árni í viðtali við Matthías Johannessen: „Held að sé enn teymingur eftir.““

Eftir lífsins lull og vos,

og langa ferð,

í burðarminni fæ brennu' og gos,

af bestu gerð.

Helgi Ingólfsson um það hvernig koma skuli bók á framfæri fyrir jólin:

Ef bók mín ei í Bónus fer

og birtist svo á listum,

ég siga á ykkur heilum her

af hörðum feministum.

Páll Jónasson frá Hlíð yrkir limruna Eftirmæli:

Látinn er Brandur á Bóli

bölvaður þverhaus og fóli,

hann átti sér tík

sem var ömmu hans lík

og kött sem var kolsvartur drjóli.

Og hér er limran Postulaástir eftir Pál:

Gunna frá Hásteinahjalla

heillaði í Verinu alla

nema Pétur og Pál

Pálsson frá Skál.

Þeir elskuðu skegg sitt og skalla.

Öfugmælavísan:

Lóan hefur lipra hönd,

leysir marga hnúta,

selur vefur sokkabönd,

svínið vefur dúka.