Sara Rún Hinriksdóttir, leikmaður Cadi La Seu á Spáni, og Elvar Már Friðriksson, leikmaður PAOK í Grikklandi, hafa verið valin körfuknattleikskona og körfuknattleikskarl ársins 2023 af KKÍ

Sara Rún Hinriksdóttir, leikmaður Cadi La Seu á Spáni, og Elvar Már Friðriksson, leikmaður PAOK í Grikklandi, hafa verið valin körfuknattleikskona og körfuknattleikskarl ársins 2023 af KKÍ. Elvar Már er nú að fá tilnefninguna í þriðja sinn og Sara Rún er að hljóta nafnbótina í fjórða sinn og fjórða árið í röð.

Magni Fannberg er hættur störfum sem íþróttastjóri norska knattspyrnufélagsins Start en frá þessu er greint á heimasíðu félagsins. Magni kom til Start í febrúar 2022 og var samningsbundinn til ársloka 2024. Formaður félagsins, Magnus Skisland, segir að ekki hafi lengur verið forsendur fyrir hendi til þess að samstarfið gæti haldið áfram og því hafi verið sameiginleg niðurstaða að slíta því núna.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, er líklegastur til að hreppa þjálfarastöðuna hjá sænska knattspyrnuliðinu Norrköping en hann er einn af þremur sem koma til greina til að taka við karlaliði félagsins núna um áramótin. Þetta fullyrti staðarblaðið Norrköpings Tidingar í gær en Jóhannes Karl Guðjónsson, aðstoðarþjálfari karlalandsliðs Íslands, og Peter Wettergren, aðstoðarþjálfari sænska karlalandsliðsins, eru hinir tveir sem koma til greina.