Jenný Jóhannsdóttir fæddist í Hnausakoti í Austurárdal í Miðfirði 3. ágúst 1946. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 11. desember 2023 eftir skammvinn veikindi.

Foreldrar Jennýjar voru þau Jóhann Helgason, f. 1914, d. 2001, og Jóhanna Dagbjört Jónsdóttir, f. 1923. d. 2023. Tengdaforeldrar hennar voru þau Björgvin Benediktsson og Guðný S. Sigurðardóttir.

Systkini Jennýjar eru þau Ólafur Helgi, f. 1943, Jón Unnar, f. 1945, Ragna Guðrún, f. 1948, Bryndís, f. 1949, Jóhannes, f. 1953, d. 2015, Kristín, f. 1955, Oddfríður, f. 1957, og Skafti, f. 1960.

Jenný ólst upp í Hnausakoti þar sem foreldrar hennar stunduðu búskap til ársins 1968 er þau fluttu til Reykjavíkur. Jenný gekk í farskóla í Fremri-Torfustaðahreppi frá 10 ára aldri til fullnaðarprófs.

Þrettán ára gömul fór hún til Reykjavíkur til gagnfræðanáms í Kvennaskóla Reykjavíkur. Þaðan lýkur hún prófi árið 1963 með einkunnina 9,37, hæstu einkunn sem hafði verið gefið við skólann, met sem stóð í áratugi. Hún hélt til hjá Marinó föðurbróður sínum og Ástu konu hans.

Árið 1962 kynntist Jenný Sigurði Björgvinssyni, eftirlifandi manni sínum, en þau giftu sig 7. ágúst árið 1965. Í júní sama ár fæddist elsti sonur þeirra.

Fyrstu mánuðina bjuggu þau Jenný og Sigurður hjá Guðrúnu föðursystur Jennýjar en eftir það hjá foreldrum Sigurðar í Skeiðarvoginum til ársins 1969 er þau festu kaup á sinni fyrstu íbúð í Jörfabakka í Breiðholti. Þar bjó fjölskyldan til ársins 1975 er hún flutti í Dalsel. Í árslok 1976 fluttu þau inn í Búrfellsvirkjun þar sem Sigurður hóf störf sem vélfræðingur.

Í Búrfelli bjó fjölskyldan til ársins 1984 er hún flutti fram að Skarði, en þremur árum áður festu þau kaup á jörðinni Skarði í Gnúpverjahreppi ásamt hjónunum Jóni Áskatli Jónssyni og Guðbjörgu Kristinsdóttur. Í Skarði bjuggu þau æ síðan.

Jenný tók stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 1985 en námið stundaði hún við öldungadeild skólans innan úr Búrfelli. Í kjölfarið hóf hún nám við Kennaraháskóla Íslands og brautskráðist þaðan 1989. Eftir það tók við farsæll ferill við kennslu í grunnskólum í Reykholti, á Flúðum, í Brautarholti og í Árnesi.

Jenný og Sigurður stunduðu hestamennsku alla sína búskapartíð. Þau fóru í fjölda hestaferða og ræktuðu reiðhross í Skarði. Þá var Jenný afburða handavinnukona og tók ríkulegan þátt í félagsstörfum af ýmsu tagi.

Synir þeirra Sigurðar og Jennýjar eru þeir Jóhann, f. 1965. d. 2019, maki Sigurrós Ingimarsdóttir, Björgvin Guðni, f. 1970, maki María Ragna Lúðvígsdóttir, Sigurður Unnar, f. 1972, maki Vilborg María Ástráðsdóttir, og Davíð, f. 1979, maki Agnes Rós Jónsdóttir. Barnabörnin eru 15 talsins og barnabarnabörnin sjö.

Útför Jennýjar fer fram frá Skálholtskirkju í dag, 21. desember 2023, klukkan 13. Streymt er frá útför:

mbl.is/go/76y2u

Þeir voru fáir dagarnir sem vantaði upp á 61. árið frá því að leiðir okkar Jennýjar lágu saman í Breiðfirðingabúð á annan í jólum 1962. Síðan hafa sporin okkar legið saman.

Hún var einstaklega umhyggjusöm móðir og eiginkona sem bar velferð strákanna okkar fjögurra ávalt fyrir brjósti. Það var ákaflega þungbært þegar Jóhann, elsti sonur okkar, lést úr krabbameini fyrir fjórum árum. Eftir lát hans fór að bera verulega á einkennum Parkinsonsjúkdómsins, sem að lokum náði yfirhöndinni.

Við sem eftir stöndum drúpum höfði í djúpri sorg. Takk fyrir samferðina. Hvíl í friði.

Sigurður (Siggi).

Það er bjart yfir minningum bernskuáranna úr Víðidalnum, Breiðholtinu, Búrfelli, Skarði og Hnausakoti. Stórar og samheldnar fjölskyldur mynduðu traust bakland en vinahópar foreldra minna eru margir og fjölbreyttir.

Vináttan við Brauðfótarfjölskyldurnar var alla tíð einstök og hestamennskan yfir og allt um kring.

Búferlaflutningar úr Reykjavík í Búrfell mörkuðu þáttaskil í lífi okkar. Búrfellsárin voru engu lík. Gullár í orðsins fyllstu merkingu. Mamma og pabbi rétt liðlega þrítug og blómi lífsins fram undan. Með í för voru hestarnir Tvistur, Kreppa og Ábóti. Fljótlega bættust Frændi frá Urriðaá, Gjafar, Tígull, Gola, Frigg og Freyja í hópinn. Tíkin Hekla varð síðan ein af fjölskyldunni á Skeljastöðum 3 haustið 1978 og ári síðar fæddist yngsti sonurinn Davíð.

Þjórsárdalurinn í allri sinni tign myndaði stórbrotið umhverfi. Svartir vikrarnir og þorpið við virkjunina sem vin í eyðimörk.

Í Búrfelli mynduðust vinabönd sem stóðu ævina út. Fjölskyldurnar undir hálendisbrúninni urðu sem ein. Meðal þeirra var fjölskylda Jóns Áskels og Gauju, sem bjuggu í næsta húsi við okkur, og saman keyptu þau jörðina Skarð í Gnúpverjahreppi árið 1981. Þangað fluttum við vorið 1984 og þar bjuggu mamma og pabbi alla tíð síðan.

Skarð var upp frá því okkar samastaður í tilverunni. Með kaupunum á jörðinni var teningunum kastað og framtíðarheimilið komið. Þar leið mömmu vel og hún vildi hvergi annars staðar vera.

Þegar dró af henni og heilsan ýtti á að hugað væri að heppilegu heimili nálægt þjónustu, og íbúð var keypt á Selfossi, þá vildi hún hvergi fara. Í Skarði var hennar heimili. Þar var öryggið, hringiða vina og afkomenda og fögur náttúran allt um kring.

Síðasta verkefnið var að byggja Jóhannshús í Skógarskarði, til heiðurs og minningar um elsta bróður minn. Af því húsi var mamma afar stolt og fékk að sjá það rísa fyrr í haust.

Oft heyrði ég mömmu nefna það að ekkert þætti henni mikilvægara en hvað það var mikil vinátta og gott samkomulag á milli okkar bræðra. Enda eitt af því sem við fengum í farteskið frá henni; komdu eins fram við alla og af virðingu. Láttu smáatriðin liggja á milli hluta. Það er ekki okkar að dæma.

Að baki er farsæl ævi, skemmtileg og litrík. Mamma lifði lífinu vel og vandlega allt fram á síðasta dag. Vinsæl og vel liðin af samferðafólkinu.

Það er sárt og ótímabært að kveðja og takturinn í tilverunni breytist verulega.

Farðu í friði með þakklæti fyrir umhyggju og vináttu ævina út.

Björgvin.

Elsku Jenný okkar er nú fallin frá.

Hún var einstök manneskja, alltaf að sýsla eitthvað, úti að tína blóðberg, sveppi eða annað ætilegt, inni við að baka og elda og ef hún settist niður var hún með prjónana. Ég hef ekki tölu á peysunum sem hún prjónaði á mig í gegnum tíðina. Það eru ótal góðar minningar sem ég og börnin mín eigum um ömmu Jenný, góðar stundir í Skarði, Hnausakoti og Kaupmannahöfn, ferðlög bæði um Ísland og Danmörku og Þýskaland. Hún Jenný var líka algjör súperamma. Þegar ég kom inn í fjölskylduna fyrir rúmlega 30 árum með Þórhildi mína þá þriggja ára voru þau Siggi algjörlega tilbúin í ömmu- og afahlutverkið. Þau tóku Þórhildi inn í hjarta sitt á stundinni og Þórhildi leið hvergi betur en í sveitinni. Amma og afi höfðu endalausan tíma og það mátti allt í sveitinni. Þórhildur var eina barnabarnið lengi en seinna bættist í hópinn og þrátt fyrir að börnin yrðu fleiri átti amma alltaf tíma, kökur og frostpinna fyrir alla. Hún var líka með hárbeittan dökkan húmor alla tíð og þegar ég heimsótti hana á Borgarspítalann fyrir ekki svo löngu eftir að hún hafði farið í tvær aðgerðir sagði ég við hana: Þetta er nú meira vesenið, og hún svaraði: Já, mig vantaði bara athygli, sem er fyndið í ljósi þess að Jenný var ekkert mikið gefin fyrir athygli. Jennýjar verður sárt saknað og við hérna megin munum passa vel upp á að varðveita góðar minningar, hvert annað og sérstaklega tengdapabba.

Farðu í friði, vinur minn kær,

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Hvíl í friði, elsku tengdamamma.

Sigurrós Ingimarsdóttir.

Líttu sérhvert sólarlag

sem þitt hinsta væri það.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Þessar ljóðlínur komu í hugann er ég keyrði Skeiðin á Selfoss í svo fallegu sólarlagi til að kveðja þig hinstu kveðju elsku vinkona. Við vissum að hverju dró. Kallið var komið, ekkert hægt að gera eftir erfiðan uppskurð. Sólarlagið þitt, elsku Jenny, var svo fallegt en allt of fljótt, svo óvænt og snöggt.

Minningar hrannast upp. Við vorum nágrannar, þú á næsta bæ en samt með heilt fjall á milli, Skarðsfjallið. Þó var svo stutt á milli og vináttan svo góð, djúp og sterk.

Við áttum svo margar góðar samverustundir í kvenfélaginu, zontaklúbbnum, í jóga og nú síðast í félagi eldri borgara og eldriborgarakórnum okkar. Allar skemmtilegu ferðirnar okkar á Selfoss á zontafundi, ferðalög og herbergisfélagar á zontaþingum og kvenfélagsferð til Barcelona.

Sameiginlegur húmor okkar, hvað við gátum hlegið að ýmsum uppákomum sem við lentum í, ég gæti talið upp svo mörg fyndin atvik. Jógatímarnir, þú varst svo mikill jógi, mættir alltaf ef hægt var og brosið þitt í setningunni okkar „anda, teygja, slaka“.

Elsku Jenny, þú fórst allt of fljótt. Takk fyrir okkar góðu hlýju vináttu, ég mun sakna þín.

Elsku Siggi, missir þinn er mikill. Þú hefur staðið sem klettur við hlið hennar í veikindunum og alla tíð. Synir, tengdadætur og barnabörn, mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ég læt hér fylgja með jógavísuna mína sem þér var líka svo kær:

Ég endurtek í anda

þrjú orð við hvert mitt spor:

Fegurð, gleði, friður--

mitt faðirvor.

(Kristján frá Djúpalæk)

Þín vinkona,

Rosemarie Brynhildur.

Það er erfitt að skrifa minningargrein um hana Jenný í Skarði. Við vorum alltaf góðar vinkonur, fórum í margar hestaferðir um allt land og meira að segja til Vestmannaeyja. Hestahópinn okkar kölluðum við „söfnuð séra Sigurðar“ af því að það voru tveir Siggar, annar var sérann, hinn var hringjarinn. Einn úr hópnum dó fyrir nokkrum árum, hann Grímsi okkar, en hann var að sjálfsögðu meðhjálparinn. Áttum okkar safnaðarfána, sem voru gamlar ullarföðurlandsbuxur frá Grímsa. Við hittumst alltaf á fæðingardegi Grímsa í febrúar í sumarhúsum um allt land. Það var fastur liður í matarstússinu að Jenný kom með sviðasultu og heimabakað og við átum saltað hrossakjöt. Mikið sungið alltaf og tekinn „gammel“ og uppáhaldslagið hennar var „Kiddi á Ósi“ og þá var nú mín komin í stuð. Hún var vel ríðandi á leirljósu merinni henni Kreppu og hennar afkvæmum, Ábóta, Nunnu og Abbadís.

Hún stendur alltaf upp úr ferðin sem við fórum fyrir 40 árum eða svo. Við áttum að koma ríðandi í hlað í Hnausakoti þaðan sem Jenný var, og ríða í Dalina þaðan sem Arngrímur var ættaður. Þá var nú ekki verið að keyra hrossin, riðum úr Gnúpverjahreppnum upp í Tungur, þaðan í Hlöðufell, Húsafell, Arnarvatnsheiði og norður af í Hnausakot. Mikið var dásamlegt að koma þar. Jenný hafði svo oft sagt okkur sögur frá uppvexti sínum og fólkinu í sveitinni. Og vísuna góðu um „Lóuna“ og Hauk á Haugi. Frá Hnausakoti riðum við Hrútafjarðarhálsinn, Haukadalsskarð og í Dalina að Harrastöðum. Þaðan Sópandaskarðið og að Stóra-Fjalli til móðursystur Grímsa með viðkomu í Tandraseli. Svo lá leiðin í Skorradalinn, Síldarmannagötur, Leggjabrjót og Þingvöll. Og þaðan heim í sveitina góðu.

Takk, elsku kerlingin mín, fyrir samfylgdina. Elsku Sigga og fjölskyldu votta ég mína dýpstu samúð.

Ég vil gjarnan lítið ljóð

láta af hendi rakna.

Eftir kynni afargóð

ég alltaf mun þín sakna.

(Guðrún V. Gísladóttir)

Sigrún Fossnesi.

Það var hópur ungra stúlkna sem mætti í Kvennaskólann haustið 1959. Í hópnum var stúlka frá Hnausakoti í Vesturárdal. Ég settist við hliðina á henni en grunaði ekki að með tilkomu þessa sessunautar míns væru lífsþræðir okkar spunnir saman.

Jenný sagði gjarnan frá því að hún hefði verið með eindæmum feimin og óframfærin, svo hefði ég sparkað í rassinn á henni og þar með hefði hún hrokkið í gang.

Það kom fljótlega í ljós að Jenný var afburða námsmaður.

Seinna lá leið hennar í Kennaraskólann og þaðan útskrifaðist hún með láði og stundaði síðan kennslu um árabil.

Í jólafríinu í 4. bekk unnum við við að salta síld á Kirkjusandi. Á annan dag jóla skelltum við okkur í Breiðfirðingabúð.

Ég tók Sigga vin minn með og það var eins og við manninn mælt, hann heillaðist strax af norðanstúlkunni og bauð í dans. Og áttu þau eftir að stíga dansinn saman allar götur síðan. Seinna tók Siggi vin sinn Bassa með í Búðina og þar réðust örlögin. Samvera okkar fjögurra og vinátta hefur síðan varað alla tíð.

Ég man svo vel þegar Jenný átti von á sínu fyrsta barni. Ég sé okkur í anda fara í Valborgu í Austurstræti um hver mánaðamót að kaupa samfellu á barnið „okkar“ hann Jóhann. Seinna bættust fleiri börn í hópinn okkar og samveran þéttist. Börnin okkar tengdust vinaböndum og margt var brallað.

Mér er minnisstætt þegar við lionsmenn vorum að selja rauða fjöður á Selfossi að Björgvin Guðni kemur inn og við heilsumst mjög innilega. Þá snýr einn lionsmaður sér að mér og spyr hvort við séum skyld og ég svaraði um hæl: „Já við erum tvenn hjón og eigum saman átta börn.“

Jenný var mikið náttúrubarn og hestakona. Ég sé hana í anda þeysandi um á Kreppu sinni. Það er engin brekka of brött og áin er ekki fyrirstaða. Hún geislar af gleði, með glampa í augum og það styttist í að hún bresti í söng.

Það var hestamennskan sem leiddi okkur saman vinina átta í Brauðfæti, minnsta og frægasta hestamannafélagi á Íslandi, sem stofnað var á Faxaborg árið 1974.

Ferðalög innanlands og utan, hestaferðir, menningarferðir, ættarmót. Endalaust fundin ástæða til þess að hittast, gleðjast og syngja saman. Þar var Jenný okkar enginn eftirbátur. Hafði fallega söngrödd, kunni alla texta og var stuðboltinn mesti og besti.

Eftirminnileg er ferðin okkar í Hnausakot um árið.

Jenný situr við borðsendann svo falleg og stolt segir hún okkur sögur af bernsku sinni og æsku. Hún leynir sér ekki ást hennar á æskustöðvunum. Við hlustum hugfangin á. Það logar kerti í stjaka á gamla eldhúsborðinu og úti á hlaði kraumar lambalæri í holu.

Þetta eru töfrar.

Þegar líður á kvöld er gítarinn tekinn fram og við syngjum. Það er langt liðið á nótt þegar blásið er á kertið. Á morgun skal kíkt á hesta á nærliggjandi bæ og hugsanlega gerð hestakaup.

Við kveðjum Hnausakot og tökum með okkur verðmætar minningar sem aldrei gleymast.

Elsku besta vinkona mín, ég mun alltaf minnast stúlkunnar að norðan, sem ég settist hjá í Kvennó forðum daga, með þakklæti í hjarta, kærleika og ást.

Ég mun sakna þín alltaf.

Guðríður (Gauja).

Góð æskuvinkona hefur kvatt. Hennar verður sárt saknað af okkur sem höfum haldið saman, hist reglulega og brallað ýmislegt í rúm 60 ár.

Kynni okkar hófust þegar við settumst í 1. bekk í Kvennaskólanum í Reykjavík haustið 1959. Nokkrar í bekknum höfðu áður verið saman í skóla, en aðrar komu hver úr sinni áttinni og sumar utan af landi.

Það fór ekki mikið fyrir þessari rólegu stúlku úr Miðfirðinum, en fljótlega kom í ljós að þarna var afburðanemandi á ferð. Það var hvorki að sjá né heyra að þessi stúlka hafði áður aðeins gengið tvo vetur í skóla. Og það var ekki bara bóknámið, það verklega lék líka í höndunum á henni, hvort heldur sem var prjónaskapur, útsaumur eða fatasaumur. Jenný var bæði samviskusöm og vandvirk og við nánari kynni kom í ljós að henni var í blóð borið að ganga í hlutina og gera þá, án þess að þurfa að hafa mikið fyrir því. Þótt sumum hafi ekki tekist að klára einn krosssaumsdúk yfir veturinn fór Jenný létt með að ljúka fínum dúk með harðangurs- og klausturssaumi.

Eftir fjögurra ára skólagöngu dreifðist hópurinn, en ef eitthvað var jókst samheldnin með árunum og alltaf var gaman að hittast. Jenný hafði þá kynnst Sigga sínum og þau festu síðar kaup á jörðinni Skarði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, þar sem þau bjuggu rausnarbúi. En hugur Jennýjar stefndi til meiri mennta, svo seinna dreif hún sig í að ljúka stúdentsprófi og síðan kennaraprófi og var um árabil kennari auk þess að stunda búskapinn. Það var gaman að heimsækja Jenný að Skarði, ganga um landið og njóta útsýnisins auk gómsætra veitinga og góðs spjalls.

En minnisstæðust verður ferðin sem við fórum á æskuslóðir Jennýjar, Hnausakot í Miðfirði. Þarna langt uppi undir jöklum sleit hún barnsskónum og þar má segja að við höfum fundið sterk tengsl hennar við landið. Hún lýsti því hvernig faðir hennar hafði flutt þau systkinin á sleða yfir hálsana yfir í þar næsta dal, þar sem skólinn var. Við sáum kelduna þar sem dýjamosi var tekinn til litunar á ull og svo mætti lengi telja. Og svo sátum við á kvöldin yfir krásum og töluðum og hlógum langt fram á nótt. En það skal tekið fram að þetta var mikil menningarferð um Húnavatnssýslurnar og allir helstu staðir heimsóttir svo sem kirkjan á Þingeyrum og Þrístapar, staldrað við á Bjargi að minnast Ásdísar, móður Grettis Ásmundarsonar, og við leiði Vatnsenda-Rósu í kirkjugarðinum á Efra-Núpi. En að öllum þessum ágætu stöðum ólöstuðum er Hnausakot allra minnisstæðast.

Árin hafa liðið og við höldum áfram að hittast þótt fækkað hafi í hópnum. Núna síðast í haust áttum við eftirminnilega samveru í Kjósinni í óveðri og rafmagnsleysi, en það hafði engin áhrif á systraþelið og selskapinn. Og ekki lét Jenný sig vanta þar.

Við þökkum vinkonu okkar og bekkjarsystur fyrir löng og góð kynni og sendum fjölskyldu hennar innilega samúðarkveðju með þessu ljóði Jóhanns Jónssonar:

Þey, þey og ró,

þögn breiðist yfir allt.

Hnigin er sól í sjó,

sof þú í blíðri ró.

Við höfum vakað nóg,

værðar þú njóta skalt.

Þey, þey og ró,

þögn breiðist yfir allt.

4. bekkur Z,

Anna Kristófersdóttir, Edda Magnúsdóttir,
Erla Þórarinsdóttir,
Fríða Bjarnadóttir,
Guðríður Þ. Valgeirsdóttir,
Hulda Þorsteinsdóttir, Ingibjörg S. Gísladóttir, Sigríður Magnúsdóttir.