Almar Guðmundsson
Almar Guðmundsson
Við í Garðabæ rísum undir okkar stefnu. Við leggjum lágar álögur á íbúana og ætlum að gera það áfram.

Almar Guðmundsson

Garðabær hefur lengi verið í fararbroddi sveitarfélaga þegar kemur að gæðum í þjónustu, sterkri fjárhagsstöðu, ráðdeild í rekstri og lágum álögum á íbúa. Það rataði því eðlilega í fréttirnar þegar við tilkynntum um hækkun á álagningarhlutfalli útsvars í nýsamþykktri fjárhagsáætlun. Það sem rataði hins vegar minna í umfjöllunina er að hækkun útsvarsins er aðeins hluti af aðgerðaáætlun við að verja sterka fjárhagsstöðu bæjarins og að eftir sem áður eru álögur á íbúa mjög lágar. Þá hafa ýmsir dregið þá röngu ályktun að fjárhagur sveitarfélagsins sé í slæmri stöðu, enda er fremur sjaldgæft á meðal sveitarfélaga að gripið sé til aðgerða í rekstri tímanlega.

Fyrirhyggja í fjármálum

Sveitarfélagið Garðabær hefur verið rekið með hagnaði undanfarin ár. Það skiptir miklu máli. Skuldahlutfallið er lágt en hefur hækkað undanfarin misseri samfara vaxtarskeiði í bænum. Undanfarið hefur myndast nokkurt ójafnvægi í grunnrekstri bæjarins og samhliða hefur jákvæð afkoma verið borin að nokkru leyti uppi af óreglulegum tekjum eins og sölu byggingarréttar.

Ástæður fyrir versnandi grunnrekstri eru kunnuglegar og flestar ekkert öðruvísi en í öðrum íslenskum sveitarfélögum.

•Mikil óvissa í efnahagsmálum og langvinnar hækkanir á vöxtum og verðbólgu hafa mikil áhrif. Sama má segja um miklar launahækkanir.

•Mikil aukning útgjalda í þjónustu þar sem fjármögnun verkefna frá ríkinu er ónóg eða í óvissu. Dæmi um þetta eru málaflokkur fatlaðs fólks og málefni flóttafólks. Þótt nýgerður samningur ríkis og sveitarfélaga um málaflokk fatlaðs fólks lagi stöðuna mun Garðabær enn bera hundraða milljóna kostnað árlega sem með réttu ætti að vera borinn af ríkinu.

•Mikil íbúafjölgun hefur verið í Garðabæ undanfarin misseri og mikil fjölgun barnafólks. Það er ánægjulegt og gerist alls ekki í sama mæli annars staðar. Meiri þjónusta og uppbygging fylgir íbúafjölgun og fjölgun barna. Því viljum við mæta af metnaði og það hefur áhrif á rekstur sveitarfélagsins til skamms tíma.

Markvissar aðgerðir

Við vinnum nú markvisst að því að styrkja grunnrekstur bæjarins og takmarka þörf á lántökum.

Þetta gerum við með þríþættum aðgerðum:

Fyrst ber að nefna viðamikla hagræðingu í rekstri, sem ekki hefur hlotið mikla umfjöllun. Það er alltaf verkefni okkar að nýta þá fjármuni sem sveitarfélagið hefur til ráðstöfunar sem best og slíkar aðgerðir eru eðlilega framar í forgangsröðuninni hjá okkur en hækkun skatta. Hagræðingaraðgerðirnar eiga að skila 500 m.kr. bata í rekstri eða sem samsvarar 2% af rekstrarútgjöldum. Þær eru af fjölbreyttum toga, m.a. á sviði innkaupa, hagræðingar í stjórnsýslu auk almennra aðhaldsaðgerða. Þær eru þannig vel skilgreindar og framsettar í fjárhagsáætlun.

Í öðru lagi var ákveðið að hækka útsvar og sú aðgerð ásamt hagræðingu mun skila um 1.000 m.kr. bata á grunnrekstri bæjarins.

Í þriðja lagi leggjum við áherslu á að draga úr framkvæmdum. Við teljum þó mikilvægt að uppbygging skólamannvirkja, endurbætur skólahúsnæðis og fleiri mikilvæg mál njóti áfram forgangs. Á móti er dregið úr öðrum framkvæmdum.

Álögur á íbúa mjög lágar í Garðabæ

Þegar litið er á álagningarhlutfall útsvars hjá stærri sveitarfélögum í landinu er niðurstaðan skýr. Nær öll þeirra innheimta hámarksútsvar eða lítið eitt lægra. Þrátt fyrir hækkun hlutfallsins í Garðabæ er það enn mun lægra en víðast þekkist og þá stöðu ætlum við að verja. Það er aðeins Seltjarnarnes sem innheimtir lægra útsvar en Garðabær þegar litið er til 12 stærstu sveitarfélaga landsins.

Í fjárhagsáætlun næsta árs gerum við ráð fyrir lækkun fasteignaskatts, vatnsgjalds og fráveitu. Þannig verjum við íbúa fyrir því að áhrif hækkunar fasteignamats komi fram í stórhækkuðum fasteignagjöldum og þeir bera aðeins eðlilega verðlagshækkun gjaldanna. Það er einnig mikilvæg staðreynd að álagningarhlutfall fasteignaskatta er lægst í Garðabæ þegar litið er til 12 stærstu sveitarfélaga landsins.

Krónur fara betur í vasa íbúa en bæjar

Meginmálið er að við í Garðabæ rísum undir okkar stefnu. Við leggjum lágar álögur á íbúana og ætlum að gera það áfram. Við höfum sett í forgrunn að vernda þjónustuna, sem er framúrskarandi og okkar þjónustuloforð. Um leið stöndum við vörð um ábyrgan rekstur og sterka stöðu bæjarins. Við sýnum fyrirhyggju á óvissutímum.

Höfundur er bæjarstjóri Garðabæjar.