Kristján Hall
Kristján Hall
Hann gerði stjórnvöldum það ljóst að þarna var til komið vald sem ekki yrði snúið við.

Kristján Hall

„Ég þarf ekki að mæla margt með þessu frumvarpi, því það gerir það sjálft, enda munu allir verða að kannast við, að réttur kvenna vorra var um aldur fyrir borð borinn. Það eru einungis 30 ár síðan systur náðu jafnrétti bróður til arfs.“

Þannig mælti Þorlákur Guðmundsson fyrir frumvarpi sínu til Alþingis sem varð að lögum árið 1882. Og enn sagði hann: „Þegar kjósa á í hreppsnefnd á hreppsþingum, mega konur að vísu koma þar, og telja fram fé sitt, en þegar ganga skal til kosningar, verða þær að standa úti í horni, eins og sá, sem þegið hefur sveitarstyrk, og ekki endurgreitt. Þannig er það einnig, þegar kjósa skal sýslunefndarmann.“

Jón Ólafsson sagði meðal annars: „Ég hef nú svo oft séð það í heiminum, að það, sem rétt er, á örðugt uppdráttar. En ég vil heldur vinna lítið af því, sem ég ætla að rétt sé, en að vinna ekkert á, ef ekki er kostur á að vinna allt.“ Þannig töluðu nú karlarnir.

En hvaða áhrif hafði þessi réttur? Hann hleypti af stokkunum þvílíkum breytingum í okkar samfélagi að þess sér enn þá stað. Hann varð þess valdandi að þótt kosningaréttinum væri ekki beitt, þá var hann alltaf fyrir hendi, og sveitarstjórnarmenn urðu sér meðvitaðir um hversu skynsamlega þeir þyrftu að beita valdi sínu. Hann gerði stjórnvöldum það ljóst að þarna var til komið vald sem ekki yrði snúið við og það liðu ekki nema 20 ár þar til konur fengu kjörgengi og síðan jafnrétti í öllum kosningum 12 árum síðar.

Íslenskar konur í lok 19. aldar stóðu miklu ofar í mannvirðingum en víðast annars staðar. Í Frakklandi (þar sem allar þessar mannréttindabyltingar voru gerðar) voru stúlkur eign feðra sinna og lutu þeim bæði í eignum og arfshlut þar til þeim var ávísað til eignar eiginmanna sinna. Þær ásamt dönskum stallsystrum fengu kosningarétt á 5. áratugnum.

Það sem var erfiðast hér á landi var að átta af hverjum tíu mönnum sem sóttu sjó náðu aldrei landi úr síðustu sjóferðinni. Sjómannsekkjurnar voru því margar og víða var tregt til matar að vinna. Þar á ofan olli vanþekking skorti á hreinlæti og barnadauði var mikill.

Þar komu hinar dönsku hjúkrunarkonur til sögunnar og með dyggilegri hvatningu hins ágæta manns Guðmundar Björnssonar, síðar landlæknis, og frumkvæðis hans að veita hreinu vatni til Reykjavíkur, lærðu þær og kenndu til hjúkrunar og hreinlætis og barnadauðinn hvarf smám saman og landsmönnum fjölgaði.

Það er því sorglegt að heyra konur nú til dags halda því fram að stallsystur þeirra þess tíma hafi verið þrælar og ambáttir einhverra tröllkarla.

Hafa skal það er sannara reynist.

Höfundur er eftirlaunaþegi.