Óhugnaður Myndlýsing Berglindar við bókina um kennarann ógurlega er einkar vel heppnuð.
Óhugnaður Myndlýsing Berglindar við bókina um kennarann ógurlega er einkar vel heppnuð. — Teikning/Berglind Íris Sævarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Glíma við hinsegin hatur Á eftir dimmum skýjum ★★★★· eftir Elísabetu Thoroddsen. Bókabeitan 2023. 127 bls. innb. Elísabet Thoroddsen sendi frá sér sína fyrstu bók á síðasta ári, Allt er svart í myrkrinu, og sagði frá Tinnu sem lendir í bílslysi með foreldrum sínum á ferðalagi vestur á firði

Glíma við hinsegin hatur

Á eftir dimmum skýjum
★★★★·

eftir Elísabetu Thoroddsen.

Bókabeitan 2023. 127 bls. innb.

Elísabet Thoroddsen sendi frá sér sína fyrstu bók á síðasta ári, Allt er svart í myrkrinu, og sagði frá Tinnu sem lendir í bílslysi með foreldrum sínum á ferðalagi vestur á firði. Þau eru flutt suður á sjúkrahús, en hún fær inni í sjúkrahúsi fyrir vestan, þar sem hún kynnist Dóru, verður ástfangin og lendir í lífshættu.

Á eftir dimmum skýjum er framhald þeirrar bókar, en þó býsna sjálfstætt. Snemma í bókinni kemur í ljós að faðir Tinnu slasaðist illa í áðurnefndu slysi og notar hjólastól til að fara ferða sinna upp frá því. Fjölskyldan flutti sig því í hentugra húsnæði sem kallaði á nýjan skóla og nýja félaga með tilheyrandi tilfinningaflækjum.

Tinna er enn í ástarsambandi við Dóru, fjarsambandi, og á von á henni í heimsókn, sem hún hlakkar mikið til, og þá ekki síst þess að kynna hana fyrir nýjum skólavinkonum. Andrúmsloft í skólanum er þó ekki gott, því stjórn hans gerir ekkert til að taka á vaxandi hinseginhatri og áreiti, sem nær hámarki þegar salerni í unglingadeildinni er sprengt í loft upp. Tinna og vinkonur hennar grípa til sinna ráða að komast að því eða hverjir standa að verknaðinum, enda ljóst að skólastjórnin mun ekki beita sér í því máli. Í æsilegum átökum í lok bókarinnar kemur í ljós að þrjótarnir eru aðrir en við blasti og um tíma er tvísýnt hvernig fer.

Elísabet Thoroddsen hefur vaxið sem höfundur á milli bóka, því Á eftir dimmum skýjum er mun betri bók en fyrri bókin; betur skrifuð með meiri þunga í frásögninni og meira undir. Þetta er fyrirtaks bók sem tæpir á málum sem brenna á mörgum.

Auðn og ógnir

Hættuför í huldubyggð ★★★··

eftir Evu Rún Þorgeirsdóttur.

Myndlýsing Logi Jes Kristjánsson.

Bókabeitan 2023. 165 bls. innb.

Hættuför í huldubyggð er framhald bókarinnar Skrímslin vakna og því önnur bókin í röðinni Heimur framtíðar. Í þeim framtíðarheimi, en sagan gerist árið 2222, hefur mannkyn eytt þorranum af lífi á jörðinni með græðgi sinni og sinnuleysi. Söguhetja bókanna er Kata, tólf ára stúlka, sem undirbýr það að stinga af til að leita að föður sínum sem hvarf sporlaust þegar hún var fimm ára. Í síðustu bók fann hún stálkúlu á Haugunum, gömlum ruslahaugum sem geyma ýmis verðmæti, en sú kúla reyndist skrímsli, skeljaskrímsli, eins konar hreisturdýr, sem dugir henni vel þegar hún heldur í leitina með Jarkó, besta vini sínum.

Þótt Hættuför í huldubyggð sé framhald kemur það ekki svo að sök, því gagnleg samantekt á því sem borið hefur við er fremst í bókinni. Að því sögðu verður söguþráður þessara framhaldsbóka fljótlega mjög snúinn og svo snúinn reyndar að það kemur niður á framvindunni, ekki síst þegar álfar koma við sögu. Inntak bókarinnar er þó gott og Kata vel heppnuð, harðskeytt og ákveðin hetja. Myndlýsing Loga Jes Kristjánssonar er mjög góð og gráminn yfir myndunum er viðeigandi í heimi þeim sem lýst er í bókunum.

Spenna og átök í gröfinni

Kennarinn sem sneri aftur
★★★★½

eftir Bergrúnu Írisi
Sævarsdóttur.

Bókabeitan 2023. 173 bls. innb.

Kennarinn sem sneri aftur er fimmta bókin í bókaröðinni um sex krakka í BÖ-bekknum sem lenda í ýmsu eftir að nýr kennari, sem kallar sig Gátumeistarann, ákveður að beita vægast sagt óhefðbundnum kennsluaðferðum til að fá þau til að leggja frá sér farsímana. Hljómar kannski sakleysislegt, en þegar í fyrstu bókinni kemur í ljós að hugmyndir Arnþrúðar, en það er raunverulegt nafn Gátumeistarans, eru ekki bara frumlegar heldur beinlínis hættulegar og verða hættulegri með hverri bók.

Í bókunum fylgjumst við með sex nemendum, og hver bók með einn í aðalhlutverki nema ein, þar sem aðalpersónurnar eru tvær. Þannig er Hekla í sviðsljósinu í Kennarinn sem hvarf, Sara í Kennarinn sem hvarf sporlaust, Fannar í Kennarinn sem kveikti í, Óli Steinn og Axel í Kennarinn sem fuðraði upp og svo loks Stefanía Huld í Kennarinn sem sneri aftur. Hægt er að lesa bækurnar stakar, en með því að lesa þær allar fá nemendur að kynnast ólíkum persónum með ólíkar áskoranir í daglegu lífi og í einkalífinu.

Í Kennarinn sem sneri aftur er Stefanía Huld í aðalhlutverki en stjúpi hennar er virkur alkóhólisti og móðir hennar í fullkominni afneitun, sem gerir lífið nær óbærilegt. Við þetta bætist að hún er leitandi í kynvitund sinni sem gerir hana óörugga í samskiptum við skólafélaga sína og ýtir enn undir vanlíðan. Einn helsti kostur þessarar fyrirtaks bókaraðar er hve samskipti barnanna eru sannfærandi og það hvernig þeim eykst umburðarlyndi og skilningur eftir því sem þau kynnast betur.

Spennan er ekki eins mikil í Kennarinn sem sneri aftur og í síðustu bók til að mynda (engin logandi bein), en nóg af spennu samt og átökin í kirkjugarðinum eru óhugnanleg í meira lagi. Myndlýsingin er framúrskarandi að vanda.

Hjátrú og hindurvitni

Gling Gló og spegillinn ★★½··

Gling Gló og regnhlífin ★★½··

Gling Gló og kötturinn ★★★½·

eftir Hrafnhildi Hreinsdóttur.
Myndlýsing Diandra Hwan.

Gimbill bókasmiðja 2022, 2023. Allar 43 bls. innb.

Hrafnhildur Hreinsdóttir hefur skrifað þrjár bækur um Gling Gló, tvær þeirra komu út á síðasta ári, Gling Gló og spegillinn og Gling Gló og regnhlífin, en nú fyrir stuttu kom út þriðja bókin, Gling Gló og kötturinn. Gling Gló er hnáta sem fer oft í pössun hjá ömmu sinni og leikur sér þá jafnan við Óbó, hnokka sem býr í blokkinni hennar ömmu.

Gling Gló er lífsglöð og kát stúlka og amma hennar er besta skinn, en hefur þann galla að hún er mjög hjátrúarfull, svo hjátrúarfull reyndar að það skapar vandræði eins og rakið er í bókunum. Í þeim gerist ýmislegt, en í hverri bók er tekin ein birtingarmynd hjátrúar, eins og að ólán elti þann sem brýtur spegil, svartir kettir séu uppspretta ógæfu og að ef regnhlíf er opnuð innan dyra sé það ávísun á ófarnað. Fullorðnir henda gaman að slíku og þvílíku, en það skapar óhug hjá Gling Gló, til að mynda, þegar hún kemst að því að hennar bíði sjö ára ógæfa fyrir það eitt að hafa brotið spegil í ógáti.

Þetta eru afskaplega vel heppnaðar bækur og vel til fundið að taka fyrir gamla hjátrú á þennan hátt, sem er þá í senn tenging við horfinn hugsunarhátt og tíðaranda en gefur einnig börnum innsýn í það að kannski eru fullorðnir ekki eins alvitrir og þeir vilja vera láta. Textinn er þó full fullorðinslegur á köflum, ef svo má segja. Það hefði mátt stytta hann og einfalda fyrir minn smekk, enda er sumt sagt í myndunum sem er þá óþarfi að tíunda í texta.

Myndlýsing Diöndru Hwan á bókunum er hreinasta afbragð.