Vígslubiskuparnir tveir, sr. Kristján Björnsson í Skálholti og sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup á Hólum, hafa lokið við staðfestingu ráðningarsamninga presta og annars starfsfólks kirkjunnar sem gerðir voru eftir 30

Vígslubiskuparnir tveir, sr. Kristján Björnsson í Skálholti og sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup á Hólum, hafa lokið við staðfestingu ráðningarsamninga presta og annars starfsfólks kirkjunnar sem gerðir voru eftir 30. júní 2022, en 1. júlí sama ár þraut umboð sr. Agnesar M. Sigurðardóttur biskups til að taka stjórnsýslulegar ákvarðanir fyrir hönd kirkjunnar.

Vígslubiskuparnir tókust á hendur þetta verkefni á grundvelli samþykktar kirkjuþings í október sl. þar sem ákveðið var að vígslubiskupar færu með allar stjórnsýslulegar ákvarðanir biskupsembættisins sem lögfylgjur kynnu að hafa, þar til nýr biskup hefur verið kjörinn. Þetta var ákveðið að gera til að stjórnsýslustörf kirkjunnar væru hafin yfir allan vafa.

„Það er búið að staðfesta alla ráðsningarsamingana frá 1. júlí 2022,“ segir Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti í samtali við Morgunblaðið.

Kristján segir að samningarnir sem staðfestir hafi verið séu rúmlega 60 talsins.

„Þetta eru samningar við presta og starfsfólk Biskupsstofu. Við staðgenglarnir erum með mannauðsmálin á okkar könnu,“ segir Kristján.