Listmálarinn Guðmundur að mála mynd af fjallinu Annapurna í Nepal handa dóttur sinni.
Listmálarinn Guðmundur að mála mynd af fjallinu Annapurna í Nepal handa dóttur sinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Karl Ásbjörnsson er fæddur 21. desember 1938 á Bíldudal en fluttist nokkurra mánaða gamall til Húsavíkur. „Ég ólst upp hjá afa mínum og ömmu þar meðan faðir minn var að vinna hjá landlækni, en þá fór hann um landið að safna saman…

Guðmundur Karl Ásbjörnsson er fæddur 21. desember 1938 á Bíldudal en fluttist nokkurra mánaða gamall til Húsavíkur.

„Ég ólst upp hjá afa mínum og ömmu þar meðan faðir minn var að vinna hjá landlækni, en þá fór hann um landið að safna saman berklasjúklingum.“

Guðmundur fluttist síðan sjö ára til Reykjavíkur til foreldra sinna og gekk í Miðbæjarskólann og Austurbæjarskóla. Hann vann að skólagöngu lokinni í fjögur ár sem ritari við Landsbanka Íslands og stundaði jafnframt nám við Myndlistaskólann í Reykjavík og kvöldnámskeið hjá Handíða- og myndlistaskólanum ásamt einkatímum í teikningu og listmálun.

Haustið 1960 hóf Guðmundur nám við Accademia di belle arti e liceo artistico í Flórens og haustið 1961 var honum úthlutað námsstyrk frá ítalska menntamálaráðuneytinu. Eftir útskrift þaðan stundaði hann nám í málverkaviðgerðum við Escuela Superior de Bellas Artes San Jorge í Barcelona 1965-1966 og vann við málverkaviðgerðir þar. Hann var gerður að meðlim Konunglegu listaakademíunnar á Spáni.

Fyrsta málverkasýning Guðmundar var í Bogasal Þjóðminjasafnsins 1966 og vakti hún mikla athygli. Árið 1971 hélt hann fyrstu einkasýningu sína erlendis í boði borgarstjórnarinnar í Mullheim í Þýskalandi. Vakti sýningin, sem á voru íslensk og þýsk landslagsmálverk, hrifningu og fékk hún góða dóma í þýskum blöðum. Hann hélt sýningu á Kjarvalsstöðum bæði 1975 og 1983, í Hafnarborg 1985 og 1994 m.a. og hefur einnig verið duglegur við sýningahald í Þýskalandi.

Guðmundur var einn af stofnendum Myndlistarfélagsins og var duglegur að taka þátt í samsýningum þess. Hann hefur margoft hlotið listamannalaun og eru málverk hans í eigu helstu listasafna landsins sem og fjölmargra ríkisstofnana.

Guðmundur málar með olíu, akrýl, tempera og vatnslitum og einkennast flest hans verk af fallegu landslagi sem inniheldur oft á tíðum dularfullar fígúrur. „Ég hef alltaf dáðst mikið að íslensku landslagi og það hefur verið eitt af mínum aðalmótífum. En svo hef ég málað ýmislegt annað líka, t.d. portrettmyndir. Í augnablikinu er ég ekki að mála enda mála ég yfirleitt ekki við rafljós. Þegar ég er að fást við landslagsmyndir þá er ég eins mikið úti og ég get, dag og nótt. Hef verið heilu næturnar að mála úti á sumrin.“

Guðmundur var einnig fastráðinn kennari við Iðnskólann í Reykjavík um nokkurra ára skeið. „Ég kenndi bæði fríhendisteikningu og tækniteiknun. Ég kenndi líka á myndlistarnámskeiðum í Hafnarfirði og í Keflavík.“

Áhugamál Guðmundar hafa í gegnum tíðina verið m.a. flug og bókalestur. „Ég var með sólópróf, mátti sem sagt fljúga einn, flaug töluvert fyrir mörgum árum og skimaði eftir mótívum úr flugvélinni.“

Fjölskylda

Eiginkona Guðmundar var Elisabeth Elsa Hangartner Ásbjörnsson, f. 8.4. 1933 í Schwenningen í Svartaskógi, Þýskalandi, d. 13.8. 2012, menntaskólakennari, fyrst í Menntaskólanum í Reykjavík þar sem hún kenndi þýsku og spænsku, síðan í Menntaskólanum við Hamrahlíð við spænskukennslu. Guðmundur og Elisabeth kynntust í Flórens og hófu búskap þar. Frá 1972 áttu þau heima í Hafnarfirði, þar sem Guðmundur býr enn. Um árabil bjuggu þau í Þýskalandi að vetri til, í Staufen í nágrenni við Freiburg.

Móðir Elisabeth var Emma Hangartner verslunarrekandi, f. 28.11. 1911, d. 17.6. 2005, og faðir hennar Wilhelm Schruefer verkfræðingur. Stjúpfaðir hennar var dr. Ferdinand Hangartner prófessor, f. 31.1. 1888, d. 11.11. 1968.

Dóttir Guðmundar og Elisabeth er Rannveig Dominique Guðmundsdóttir, f. 2.5. 1964, íþróttafræðingur, búsett í Leichlingen í Þýskalandi. Hún er gift Andreas Becher, f. 1959. Dóttir þeirra er Natalía Ásdís Andreasdóttir, f. 1995.

Systkini Guðmundar: Lilja Þormar, f. 25.12. 1941, hjúkrunarfræðingur, búsett í Reykjavík; Ingólfur Örn Ásbjörnsson, f. 30.4. 1944, d. 23.10. 1975, kennari í Reykjavík og á Sólheimum í Grímsnesi, og Ragnhildur Ásbjörnsdóttir, f. 1.12. 1949, d. 1.7. 2023, stuðningsfulltrúi í Reykjavík.

Foreldrar Guðmundar voru hjónin Ásbjörn Ólafur Stefánsson, f. 3.10. 1902, d. 21.4. 1976, læknir, og Ásdís Guðmundsdóttir, f. 3.8. 1915, d. 6.3. 1975, húsfreyja. Þau voru búsett í Reykjavík.