Uppbygging Horft yfir skipulagssvæðið sem nær að Sjóvárhúsinu.
Uppbygging Horft yfir skipulagssvæðið sem nær að Sjóvárhúsinu. — Morgunblaðið/RAX
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Félagið Kringlureitur hefur fyrir hönd Reita undirritað samkomulag við dönsku arkitektastofuna Henning Larsen og THG arkitekta um þróun á fyrsta áfanga Kringlusvæðisins.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Félagið Kringlureitur hefur fyrir hönd Reita undirritað samkomulag við dönsku arkitektastofuna Henning Larsen og THG arkitekta um þróun á fyrsta áfanga Kringlusvæðisins.

Skipulagssvæðið afmarkast af Kringlugötu, Listabraut og Kringlumýrarbraut en lóðarmörk til norðausturs eru hér um bil samsíða Sjóvárhúsinu.

Lokið í lok árs 2024

Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlureits, segir gert ráð fyrir rúmlega 400 íbúðum á reitnum. Stefnt sé að því að ljúka vinnu við deiliskipulag fyrir lok árs 2024. Skipulagið sé unnið í náinni samvinnu við Reykjavíkurborg en þegar það liggi fyrir geti uppbygging hafist í kjölfarið.

„Henning Larsen mun leiða þetta verkefni, deiliskipulagsgerð á fyrsta áfanga á Kringlureit, í samstarfi við THG arkitekta. Þetta er metnaðarfullt verkefni sem á að spegla Reykjavík fortíðar og framtíðar á eins sjálfbæran og vistvænan hátt og kostur er. Þar á meðal er þetta BREEAM-vottað verkefni.

Því tengt erum við að skoða hvort þær byggingar sem eru til staðar geti sinnt áframhaldandi hlutverki og þá í breyttri mynd, að hluta eða að öllu leyti, en rammaskipulagið frá 2018 gerir ráð fyrir að byggingar á svæðinu víki. Það tengist umræðunni um kolefnisspor og niðurrif gamalla bygginga. Því fylgir einnig saga og sérstaða fyrir svæðið að umvefja sig eldri tíma með nútímann í kringum sig. Það er hluti af því að skoða hvernig við getum byggt upp mjög vistvænt hverfi,“ segir Sigurjón Örn.

Hætt við að færa lögn

Mikilvægur þáttur í því ferli sé að falla frá áformum um að fjarlægja fráveitulögn undir Kringlugötu.

„Það er hluti af kolefnisnálgun að verkefninu en forsendan í fyrri hugmyndafræði á reitnum var að gatan yrði öll yfirbyggð og lögnin þar með færð. Það er horfið frá því núna. Lögnin er talin eiga talsverðan líftíma inni,“ segir Sigurjón Örn.

Ætlunin sé að uppbyggingin verði lyftistöng fyrir menningarlíf í Reykjavík. „Við erum jafnframt að skoða með borginni hvernig við getum aukið aðdráttarafl svæðisins enn frekar hvað varðar afþreyingu, menningu og listir,“ segir Sigurjón Örn um þennan þátt verkefnisins.

Alþjóðleg stofa

Henning Larsen er alþjóðleg arkitektastofa með skrifstofur í Kaupmannahöfn, New York, Singapúr, Berlín og Ósló. Stofan hefur reynslu af samstarfi við Íslendinga og kom m.a. að hönnun Háskólans í Reykjavík og síðar að hönnun tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu.

Sofia Lundeholm, hönnunarstjóri hjá Henning Larsen, segir starfsfólk stofunnar „mjög spennt yfir tækifærinu til að vinna með stað í Reykjavík sem er hluti af daglegu lífi svo margra. Við sjáum mikil tækifæri til að skapa nýtt hverfi sem getur orðið samofið borginni,“ sagði Lundeholm í tilkynningu.