Heyrnartæki Heyrnarskertir hælisleitendur fá þau hér á landi.
Heyrnartæki Heyrnarskertir hælisleitendur fá þau hér á landi. — Morgunblaðið/Golli
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Fjöldi heyrnarlausra hælisleitenda sem hingað koma frá Úkraínu er 25-falt meiri en leitað hefur til landa Evrópusambandsins í sömu erindagjörðum eftir að stríðið hófst. Alls hafa um 100 heyrnarlausir flóttamenn skráð sig hjá Félagi heyrnarlausra þegar allt er talið og fengið þjónustu. Birgir Þórarinsson alþingismaður segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi fengið staðfestingu þessa hjá félaginu.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Fjöldi heyrnarlausra hælisleitenda sem hingað koma frá Úkraínu er 25-falt meiri en leitað hefur til landa Evrópusambandsins í sömu erindagjörðum eftir að stríðið hófst. Alls hafa um 100 heyrnarlausir flóttamenn skráð sig hjá Félagi heyrnarlausra þegar allt er talið og fengið þjónustu. Birgir Þórarinsson alþingismaður segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi fengið staðfestingu þessa hjá félaginu.

Sumir ekki lengur í sambandi

Segir hann að sumir þeirra séu ekki lengur í sambandi við félagið sem og að þess séu nokkur dæmi að einhverjir fari aftur til Úkraínu, jafnvel í frí, en komi svo til baka til Íslands.

Birgir segir og að svo virðist sem nokkuð sé um arfgengt heyrnarleysi í Úkraínu og skv. hans upplýsingum séu þeir um 36.000 talsins. Um 5.000 þeirra hafi leitað hælis í löndum ESB, en hlutfallslega margfalt fleiri á Íslandi.

Berglind Stefánsdóttir skólastjóri Hlíðaskóla, þar sem heyrnarlaus börn fá kennslu í táknmáli, segir í tölvupósti að fjöldi þeirra barna sem stunda nám í skólanum sé langt yfir því sem húsnæði skólans rúmar, en skólinn neiti þó ekki flóttabörnum um skólavist.

Komist fljótt á örorkubætur

Berglind staðfestir að óvenju margir heyrnarlausir flóttamenn hafi komið til Íslands og það sé vegna þess að myndband hafi verið í umferð „þar sem fólki er lofað öllu fögru, að hér sé auðvelt að fá vinnu og húsnæði auk þess sem fólk komist fljótt á örorkubætur,“ segir hún.

„Þetta kom okkur á óvart, við höfðum enga vitneskju um þetta fyrr en allt í einu að inn fóru að streyma tilvísanir tugum saman frá móttökustöð hælisleitenda og fólkið sagt ýmist heyrnarskert eða heyrnarlaust,“ segir Kristján Sverrisson, forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Þegar fólk kemur með læknistilvísun þurfi að taka það fram fyrir aðra í biðröðinni eftir almennri þjónustu.

Ný heyrnartæki og kuðungaígræðsla

Þegar þannig er þarf að bóka fólk í heyrnar- og læknisskoðun sem bætist ofan á mikið álag stöðvarinnar. Ekki hafi bætt úr skák að þurft hafi tvöfalda túlkaþjónustu með hverjum sem hafi kostað sitt sem fyrir stofnun vanhaldna í fjárveitingum og hafi túlkakostnaður hækkað um 30% á 2 árum. Þá hafi fólk gjarnan þurft á nýjum heyrnartækjum að halda, en einnig kuðungsígræðslubúnað sem er mjög kostnaðarsamur, 3 til 5 milljónir á eyra þegar um nýja ígræðslu sé að ræða en 1 til 2 milljónir þegar ytri búnaður er endurnýjaður.

Fyrir komi að fólki sem þannig háttar til um sé síðan vísað úr landi skömmu eftir að hafa fengið þjónustuna. Segir Kristján að þjónustuþegar Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar úr hópi hælisleitenda séu um eitt hundrað talsins. Þeir væru og hvattir til að leita hingað til lands eftir þjónustu.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson