Almenningi er ekki síður treystandi en atvinnumönnum

Það bendir sífellt fleira til þess að Íslendingar fljóti sofandi að feigðarósi í málefnum flóttamanna. Almenningur heyrir tal og vangaveltur um margvíslegar ráðagerðir sem snúa að flóttamönnum sem blasir við að Ísland stendur alls ekki undir. Skólakerfið er að kikna undan því verkefni sem því er fengið án nokkurs raunverulegs samráðs.

Nú hefur það verið kalsað um nokkurn tíma að fyrir dyrum standi og unnið hafi verið að því um hríð, án nokkurrar raunverulegrar umræðu, að bæta á okkur afgönskum flóttamönnum.

Menn mega auðvitað ekki gefa sér að tilteknir hópar flóttamanna falli verr inn í gistilandið Ísland en aðrir slíkir. En hvers vegna öll þessi þöggun? Og hvers vegna er ekki kannað rækilega hvernig tekist hefur til annars staðar?

Það mætti þannig leita upplýsinga um það, hvernig einstakir hópar hafa lagað sig að þeirri þjóð sem tekur móti þeim, en taka ekki blindandi og athugunarlaust á móti hverjum sem er, án þess að gjalda varhug við þegar illa hefur farið fyrir nágrannalöndum okkar í þessum efnum. Dæmin frá frændum okkar Svíum ættu þannig að hringja ófáum aðvörunarbjöllum áður en allt er um seinan orðið, eins og hjá þeim.

Ekkert bendir fyrir fram til þess að tilteknum hópum sem hingað koma, og það án þess að nokkurrar varúðar sé gætt, muni farnast betur hér en gerst hefur í nágrannaríkjunum.

Þannig mætti horfa til nágranna okkar í Þýskalandi. Margt bendir nú til þess að hér verði opnað fyrir straumi Palestínumanna. Það verður varla horft fram hjá því, sem kemur fram í áreiðanlegum könnunum, að 80% þess fólks styðja hryðjuverkasveitir Hamas! Þess vegna er óhætt að gefa sér að slíkir flutningar gætu orðið býsna afdrifaríkir, ef ekki er að gáð.

Þýska blaðið Die Welt skrifar nýlega athyglisverða athugasemd sem gæti verið skynsamlegt að íhuga og helst áður en það verður um seinan. Þar er meðal annars fjallað um flóttamannahóp frá Afganistan. Glæpatíðni úr þessum innflytjendahópi er tiltölulega há og er meginástæðan sú að hann samanstendur aðallega af ungum mönnum sem komu upphaflega í heimildarleysi til landsins og í trássi við lög. En rétt er auðvitað að undirstrika að mikill meirihluti þeirra Afgana sem um er rætt er ekki á glapstigum eða kominn á braut glæpa.

Skýrslur og talnabankar lögreglu þar sýna að þessi hópur kom við sögu í 21.773 skráðum glæpum árið 2020 þar sem Afganar voru með stöðu grunaðra. Þar af voru 4.300 einstaklingar með slíka stöðu vegna alvarlegra glæpa og af þeim töldust 94 vera mjög alvarlegir glæpir, morð eða manndráp.

Til samanburðar er rétt að gæta þess að á því sama ári voru framdar 1,3 milljónir glæpa þar sem Þjóðverjar voru með stöðu grunaðra. Þar með taldir voru 103.919 alvarlegir glæpir og af þeim hópi voru 1.587 mjög alvarlegir, þ.e. morð eða manndráp. Af 72 milljónum manna í sambandsríkinu Þýskalandi voru 1,8% með stöðu grunaðra árið 2020. Og af 280.000 Afgönum í Þýskalandi voru á sama tíma 7,8% með stöðu grunaðra.

Á Íslandi tíðkast ekki að skrá, eða að minnsta kosti ekki að birta, tölur af þessu tagi og þykir viðkvæmt. En það hefur líka sína annmarka að láta birtingu hjá líða og þá alvarlega. Almenningur hefur því litla möguleika á að átta sig á hvernig þróunin er að verða í landi hans í þessum efnum.

Svíar iðkuðu það einnig að halda almenningi algjörlega í myrkrinu hvað þetta varðar. Nú eru fæstir í vafa um það að hefði almenningi verið gerð grein fyrir hver þróun var að verða vegna ákvörðunar stjórnvalda þar um árabil, þá hefði sá sami almenningur knúið sína stjórnmálamenn til að breyta um stefnu, og að minnsta kosti að fá hana samþykkta af almenningi, sem stæði ekki skyndilega frammi fyrir alvarlegri stöðu sem erfitt væri og jafnvel ómögulegt að grípa inn í.

Hver er ástæða þess að stjórnmálamenn kjósa og leyfa sér að halda áfram á sömu braut án þess að fara rækilega yfir stöðu mála með almenningi? Þau vinnubrögð, sem hér eru tíðkuð, verða ekki varin mikið lengur. Um það þarf varla að deila.