Glæsileg Tveir bandarískir liðsforingjar ásamt prúðbúnum íslenskum dömum fyrir framan Hótel Borg í júní 1943.
Glæsileg Tveir bandarískir liðsforingjar ásamt prúðbúnum íslenskum dömum fyrir framan Hótel Borg í júní 1943. — Ljósmynd/National Archives í Maryland (NARA)
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég ætlaði mér á sínum tíma einungis að skrifa meistararitgerð um þetta efni og láta þar við sitja, en síðan hefur þetta undið upp á sig,“ segir Bára Baldursdóttir sagnfræðingur þegar hún rifjar upp hvernig áhugi hennar á samneyti…

Viðtal

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Ég ætlaði mér á sínum tíma einungis að skrifa meistararitgerð um þetta efni og láta þar við sitja, en síðan hefur þetta undið upp á sig,“ segir Bára Baldursdóttir sagnfræðingur þegar hún rifjar upp hvernig áhugi hennar á samneyti íslenskra kvenna og erlendra hermanna kviknaði fyrir rúmum tveimur áratugum þegar hún var í framhaldsnámi í sagnfræði í Bandaríkjunum. Bára hefur rannsakað efnið um árabil og sent frá sér fræðigreinar um efnið. Nýverið sendi hún síðan frá sér bókina Kynlegt stríð. Í samtali við Morgunblaðið segir Bára að aðgangur hennar að tveimur lykilskjalasöfnum á Þjóðskjalasafni hafi skipt sköpum og varpað nýju ljósi á efnið. Þar er um að ræða skjalasafn ungmennaeftirlits lögreglunnar í Reykjavík, sem flokkað hafði verið sem einkaskjalasafn Jóhönnu Knudsen forstöðukonu ungmennaeftirlitsins, sem hafði verið innsiglað í 50 ár og opnaðist fyrst 2011, og skjalasafn vinnuhælisins á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði, þar sem margar hinna svokölluðu ástandsstúlkna voru vistaðar.

„Þegar ég fór að skoða gögnin var mér verulega brugðið. Það kom mér algjörlega í opna skjöldu hversu langt var gengið í því að yfirheyra ungar stúlkur, allt niður í 13 ára táninga, sem mættu iðulega einar á skrifstofu ungmennaeftirlitsins og máttu þola margra klukkustunda yfirheyrslur af hálfu Jóhönnu,“ segir Bára og bætir við að sér hafi blöskrað hversu umfangsmiklar yfirheyrslurnar voru.

Í bók Báru kemur fram að frá því að ungmennadómur og ungmennaeftirlitið tóku til starfa í árbyrjun 1942 og þar til dómurinn hætti störfum hálfu öðru ári síðar hafi Jóhanna skrifað 380 skýrslur um 132 stúlkur
og fengið 12 stúlkur dæmdar til hælisvistar á Kleppjárnsreykjum og 32 til dvalar á sveitaheimilum. „Í skjalasafni ungmennaeftirlitsins leyndust m.a. 10 minnisbækur sem innihéldu rúmlega 800 nöfn kvenna á öllum aldri,“ segir Bára og bendir á að hér hafi verið um að ræða fordæmalausa upplýsingaöflun af hálfu íslenskra stjórnvalda um kvenkyns borgara og samskipti þeirra við útlendinga. Þessi upplýsingaöflun var undirstaða siðferðisrannsóknar sem fram fór vorið 1941 og hafði það að markmiði að hafa hemil á kynfrelsi kvenna, enda hefur feðraveldið „löngum byggt á kynferðislegum yfirráðum yfir konum,“ eins og segir í bókinni. Bendir Bára á að á stríðsárunum hafi þetta viðhorf náð hápunkti hérlendis síðla árs 1941 þegar sett voru bráðabirgðalög til að ná til þeirra stúlkna sem lögðu lag sitt við erlenda hermenn.

Þöggun samfélagsins erfið

„Í yfirheyrslunum kemur fram að sumar stúlknanna höfðu lent í alvarlegum áföllum, eins og t.a.m. kynferðislegri misnotkun af hendi samlanda sinna, en það virðist lítill áhugi hafa verið á því að taka á slíkum málum,“ segir Bára og rifjar upp að sér hafi runnið blóðið til skyldunnar að miðla ofangreindum gögnum sem hún fékk fræðimannaaðgang að á sínum tíma, enda eru þau ekki opin almenningi.

Bára bendir á að vegna persónuverndarsjónamiða hafi raddir þeirra kvenna sem geymst hafa í gögnunum aldrei fengið að heyrast. „Mér var auðvitað óheimilt að setja mig í samband við þær konur sem nafngreindar eru í skjalasöfnunum. Um tíma íhugaði ég að auglýsa eftir þeim, en taldi ósennilegt að þær myndu svara kalli í ljósi þeirra langvarandi fordóma sem ríkt hafa gagnvart ástandsstúlkunum svonefndu. Ég tel að það séu fáar þeirra enn á lífi, enda væru þær flestar komnar á tíræðisaldurinn í dag,“ segir Bára og tekur fram að í þeim samtölum sem hún hafi átt við afkomendur ástandskvenna hafi þessi tími oft lítið sem ekkert verið ræddur innan fjölskyldna þeirra.

Þegar hún er spurð um viðtökur bókarinnar segist Bára hafa fengið sterk viðbrögð frá afkomendum ástandskvenna sem hafi sett sig í samband við hana „og lýst yfir þakklæti fyrir umfjöllunina. Þöggun samfélagsins hafi þannig oft á tíðum gert sumum erfitt fyrir að ræða þessi mál innan fjölskyldnanna. Mörgum verður tíðrætt um ástina sem kviknaði á milli íslenskra kvenna og hermannanna. Sorgin knúði einnig dyra, því hluti þeirra hermanna sem höfðu hér viðkomu lést á vígvellinum,“ segir Bára og tekur fram að í umræðunni og opinberum gögnum um ástandið hafi ástin oft gleymst.

Mikil skömm fylgdi vistun

Aðspurð segir Bára augljóst að enn sé ekki búið að gera þennan tíma í íslenskri sögu upp, þó mörgum þyki fyllsta ástæða til þess. „Sem dæmi þá hefur þrisvar verið lögð fram þingsályktunartillaga um rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum og aðgerðum íslenskra yfirvalda gegn samskiptum íslenskra stúlkna við erlenda hermenn á árum síðari heimsstyrjaldar,“ segir Bára, en tillagan var fyrst lögð fram árið 2015, því næst 2022 og síðast í september síðastliðnum. „Það virðist því vera ákveðinn vilji til að gera þetta mál upp,“ segir Bára og rifjar upp að tillagan hafi fyrst verið lögð fram í framhaldi af heimildarmyndinni Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum sem Alma Ómarsdóttir fréttakona frumsýndi 2015.

„Ég veit ekki til þess að skoðað hafi verið hvernig þeim stúlkum sem úrskurðaðar voru til dvalar á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum eða á sveitaheimilum hafi reitt af í lífinu í framhaldinu,“ segir Bára og rifjar upp að mikil skömm hafi þótt fylgja slíkri vistun sem margir óttuðust að myndi marka líf þessara stúlkna. „Sem betur fer var þetta tiltölulega stuttur tími sem þessar stúlkur voru undir vistunarúrskurði, sem endurspeglar það að mörgum hafi þótt þetta algjör óhæfa,“ segir Bára og bendir á að Einar Arnórsson dómsmálaráðherra hafi lagt ungmennadóminn og vinnuhælið á Kleppjárnsreykjum niður haustið 1943 eftir þrýsting frá ýmsum aðilum. „Á meðal þeirra sem beittu sér í málinu var síðasti forstöðumaður vinnuhælisins sem og fulltrúar barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Það segir nú sína sögu.“