Styrkur Mjöll, fyrir miðju, afhendir starfsfólki Klepps fjárstyrkinn.
Styrkur Mjöll, fyrir miðju, afhendir starfsfólki Klepps fjárstyrkinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is „Þetta er sjúkdómur, alveg eins og krabbamein,“ segir Mjöll Daníelsdóttir, móðir Daníels Guðmundssonar, sem var 29 ára þegar hann féll fyrir eigin hendi í nóvember. Hafði hann þá barist við geðsjúkdóm í tíu ár og þar af dvalið í tvö ár á Kleppsspítala. Foreldrum hans þykir Klepp skorta öll notalegheit og hafa því styrkt spítalann um 472 þúsund krónur til þess að útbúa aðsetur fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

„Þetta er sjúkdómur, alveg eins og krabbamein,“ segir Mjöll Daníelsdóttir, móðir Daníels Guðmundssonar, sem var 29 ára þegar hann féll fyrir eigin hendi í nóvember. Hafði hann þá barist við geðsjúkdóm í tíu ár og þar af dvalið í tvö ár á Kleppsspítala. Foreldrum hans þykir Klepp skorta öll notalegheit og hafa því styrkt spítalann um 472 þúsund krónur til þess að útbúa aðsetur fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra.

„Þegar kom að því að við vildum afþakka blóm og kransa þá var ég að hugsa hvað væri til ráða. Við stofnuðum styrktarreikning í sonar okkar nafni og það söfnuðust 472 þúsund krónur. Það kom ekkert annað til greina en að láta þetta renna beint til Klepps,“ segir Mjöll. Ekki hafi þó verið hlaupið að því, þar sem enginn hafi áður styrkt Kleppsspítalann með þessum hætti.

„Núna á að gera endurbætur og ég ákvað að þessi peningur myndi renna í notalegan sófa, borð, mottu og einhverja fallega hluti sem má nýta í herbergi. Þannig að aðstandendum og sjúklingum líði vel að hitta fjölskylduna sína, vini sína. Starfsfólk Klepps var sammála því. Þau ætla að nefna herbergið Daníelsherbergi. Á Kleppi fékk hann bestu umönnun og þjónustu við geðsjúkdómi sínum. Við höfum borið sjúkdóminn saman við aðra sjúkdóma en þessi sjúkdómur fær minnstu aðhlynninguna. Inni á Kleppi er þó haldið vel utan um fólkið sem þarf á þessari aðstoð að halda, starfsfólkið er yndislegt.“

Til háborinnar skammar

Þó sé þörf á úrbótum á Kleppsspítala. Lýsir hún því að engin aðstaða hafi verið fyrir aðstandendur til þess að hitta sitt fólk í ró og næði. „Við hittum hann í herbergi þar sem gengið er inn um dyrnar áður en farið er inn á deildirnar. Þegar ég kom voru stundum vaktaskipti, alltaf truflun. Þetta var lokað rými en samt opið. Ef ég ætlaði til dæmis að koma með eitthvað að borða fyrir hann þá var kannski á sama tíma verið að fara með sjúkling í göngutúr og gengið fram hjá okkur. Enginn í þjóðfélaginu myndi vilja vera í svona rými með veiku barni og vera alltaf truflaður.“

Til stendur að gera endurbætur á Kleppsspítala og verður herbergið útbúið samhliða þeim. Þrátt fyrir það er að sögn Mjallar enn brýn þörf á því að ráðamenn taki geðsjúkdóma alvarlega. Stjórnvöld þurfi að setja aukið fé í málaflokkinn, sem og aðstoð við fólk með vímuefnavanda og geðrænan vanda. „Það er til háborinnar skammar hvernig farið er með þetta fólk á Íslandi.“

Daníelsherbergi verði skref í þá átt að tryggja að sjúklingum líði sem best. „Daníel var dýrkaður og dáður á Kleppi. Gleðin í honum þarna inni var ótrúleg.“